Atvinnuþróun í Mývatnssveit

107. fundur
Fimmtudaginn 11. febrúar 1993, kl. 13:36:40 (4989)

     Páll Pétursson (um atkvæðagreiðslu) :
    Frú forseti. Ég var nokkuð undrandi þegar hv. formaður umhvn. kyssti á vöndinn hér áðan. Það er náttúrlega kristilegt að rétta hinn vangann þegar búið er að snoppunga mann en ég átti ekki von á því að hann væri svo kristilegur að gera það í þessu tilfelli. Auðvitað er tillöguflutningur umhvrh. um það að taka málið úr höndum umhvn. ekkert annað en vantraust á umhvn. og þá sérstaklega formann hennar. Þannig að mér kemur það nokkuð spánskt fyrir sjónir að hv. formaður umhvn. Gunnlaugur Stefánsson skuli sætta sig við þetta. Ég verð að segja fyrir mig að ég tel að umhvn. sé vel skipuð og formaður hennar fullfær um að athuga þetta mál og stjórna meðferð þess í nefnd. Vantraust umhvrh. á nefndina og formann hennar er því að mínu mati algjörlega út í hött.
    Varðandi það atriði sem hv. formaður umhvn. nefndi í ræðu sinni um hefðir þingsins þá þarf ég ekki að rifja það upp fyrir honum eða öðrum þingmönnum að á þeim 1.062 árum sem liðin eru frá stofnun Alþingis hefur umhvn. einungis starfað í tæplega tvö ár. Þar af leiðandi er kannski ekki við því að búast að mjög fastar hefðir hafi skipast um hvaða málum skuli vísað til hennar. En eðli málsins samkvæmt er hér um umhverfismál að ræða. Það svæði sem tillöguflutningurinn tekur til lýtur sérstökum lögum um umhverfismál og þar af leiðandi tel ég að við þurfum ekki að orðlengja þetta mikið meira. Við höfum sett á stofn, góðu heilli, umhvn. og þangað finnst mér einboðið að þessu máli verði vísað.