Vegáætlun 1993--1996

109. fundur
Þriðjudaginn 16. febrúar 1993, kl. 15:44:50 (5159)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Vestf. sagði í andsvari sínu að hún hefði viljað vita hvernig ætti að verja þessum auknu fjármunum til verkefna í vegamálum. Það var kannski ein ástæða þess að ríkisstjórnin taldi rétt að leggja einnig fram tillögur um það hvernig þessum peningum ætti að verja um leið og hún tilkynnti að hún ætlaði að standa að því að aukið fé kæmi til framkvæmda í vegamálum. Þetta langar mig til að undirstrika sérstaklega vegna þess að hv. 6. þm. Vestf. gaf tækifæri til þess. Ég er sammála henni um að það er heiðarlegra að standa þannig að verki að ríkisstjórnin segi fyrir um það um leið og hún tilkynnir um svo stóraukið framlag til vegamála hvaða tillögur og væntingar hún hefur um það hvernig fénu verður varið.
    Ég held að það þjóni engum tilgangi að vera í orðhengilsleik um það hvernig tölur eru lagðar saman og dregnar frá. Kjarni málsins er náttúrlega hvað mikið fé er til skiptanna, til framkvæmda. Það er kjarni málsins. Erum við að auka fé til framkvæmda í vegamálum eða erum að minnka fé? Ef við ætluðum að láta allar vegáætlanir sem Framsfl. stóð að á árinu 1983--1991 gilda, þá erum við að tala hér um stóraukningu frá öllum árunum frá 1983 til ársins 1991.