Samkeppnislög

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:12:28 (5375)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 653 sem flutt er af mér og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Jóni Helgasyni. Þessi brtt. gengur út á það að XI. kafli laganna, þ.e. greinarnar frá 41--48 falli brott og samhliða verði gerðar tvær aðrar breytingar sem tengjast þessum kafla þannig að tengingin við stofnanakafla frv. falli þar með út úr frv. Rökin fyrir þessum brtt. eru þau sem ég rakti reyndar hér fyrr í dag í umræðunni um þingsköp en þau eru fyrst og fremst þau að hér er um að ræða afar stóran og merkan lagabálk sem felur í sér miklar breytingar sem náðst hefur verulega breið samstaða um í efh.- og viðskn. eins og reyndar kom fram í atkvæðagreiðslu við 2. umr. um málið.

    En það fylgir böggull skammrifi sem er XI. kafli laganna um framkvæmd samkeppnisreglna og fleira samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Sá kafli felur í sér nokkurt valdaafsal af hálfu Íslendinga til stofnana hins Evrópska efnahagssvæðis sem flm. þessarar tillögu og fleiri vildu ekki hafa í þessum lögum. Sú brtt. að fella þessar greinar niður felur það í sér að hér megi nást breið samstaða um þetta mál og að þingheimur geti staðið saman um það, en að kaflinn sem felur í sér þessa tengingu við Evrópska efnahagssvæðið verði hreinlega látinn bíða og verði þá síðar fluttur hér sem sérstakt frv. ef þörf verður á. Þar kem ég að fleiri rökum fyrir því að fella niður þennan kafla, en þau eru m.a. sú mikla óvissa sem er varðandi gildistöku samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, en á þessari stundu er með öllu óljóst hvort hann verður nokkurn tíma að veruleika. Samkvæmt nýjustu fréttum eru menn heldur þeirrar skoðunar að hann verði að veruleika hvort sem það verður nú 1. júlí eða í lok þessa árs. Ég hlýddi á hæstv. utanrrh. í síðustu viku þar sem hann ræddi m.a. þessi mál og þar ítrekaði hann í tvígang að allt væri í óvissu um framgang málsins. Það má ljóst vera að verði samningurinn að veruleika, þá hefur Alþingi svigrúm til þess að taka aftur upp þann kafla sem snýr að framkvæmd samningsins og þar með geta þessi lög orðið í samræmi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði ef vilji er til þess á hinu háa Alþingi.
    Þá er einnig að nefna það sem kom fram fyrr í dag að það vakna auðvitað ýmsar spurningar varðandi orðalag í XI. kafla laganna þar sem minnst er á EFTA-dómstólinn og eftirlitsstofnun EFTA, en það kom fram á fundi efh.- og viðskn. í morgun, að ráðuneytisstjóri viðskrn., Björn Friðfinnsson, taldi að í rauninni þyrfti ekki að breyta þessu orðalagi, það væri ekki gert ráð fyrir því að því væri breytt í samningnum en okkur höfðu borist aðrar fréttir úr utanrmn. þannig að það má ljóst vera að það þarf að koma skýrlega í ljós áður en gengið verður frá þessum lögum hvort þetta orðalag er fullnægjandi. Það hlýtur að vakna sú spurning hvort Alþingi geti gengið frá lögum ef við vitum að á þeim þarf aftur að gera orðalagsbreytingar vegna breytinga sem kunna að vera á samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er margt sem mælir með því að þessi kafli verði látinn bíða eða falli brott og ekki síst til þess að við, sem teljum þetta frv. vera mjög af hinu góða ef þessi kafli er undanskilinn, getum staðið að samþykki þessa máls. En verði það ekki gert, þá lýsi ég því hér yfir að ég treysti mér ekki til þess að styðja þetta frv. en mun sitja hjá.
    Það þarf ekki að nefna það að þessi mikli lagabálkur felur í sér verulegar skipulagsbreytingar varðandi eftirlit með samkeppnismálum í landinu og þar er verið að taka á ýmsum mikilvægum þáttum sem ekki var áður fjallað um af nægilegri alvöru og nefni ég þar t.d. vörn fyrir börn gagnvart áhrifamætti auglýsinga sem hér er tekið á í þessu frv. og ótal, ótal margt mætti nefna sem mjög er til bóta í þessum lagabálki, enda hefur mikil vinna verið í hann lögð. Ég vil að endingu þakka mínum samstarfsmönnum í efh.- og viðskn. fyrir það samstarf og ekki síður ráðuneytisfólkinu sem þar kom að máli og á allt hrós skilið fyrir mikla samvinnulipurð og gott starf. Það mætti halda að ég væri orðinn formaður efh.- og viðskn. en það er nú langt í frá en mér finnst samt ástæða til þess að þakka fyrir gott samstarf og ég fagna því mjög ef þetta frv. verður að lögum en vildi helst sjá XI. kaflann brott fallinn.