Stjórnsýslulög

118. fundur
Föstudaginn 26. febrúar 1993, kl. 12:37:51 (5540)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. til stjórnsýslulaga skuli vera komið fram og tek undir það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði áðan að þetta er búið að vera í gangi meira og minna í 20 til 30 ár frá því að fyrst komu fram hugmyndir um þetta. Grannþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa allar sett sér stjórnsýslulöggjöf og Ísland er eina landið sem það hefur ekki gert á sama hátt.
    Það er ekki nokkur vafi á því að það að setja lög um stjórnsýsluna mun m.a. verða til að styrkja starf umboðsmanns Alþingis sem reynst hefur hið gagnlegasta og komið hinum almennu borgurum mjög til góða, en hann hefur mjög vantað að hafa nákvæm stjórnsýslulög til að styðjast við og hefur ítrekað gert grein fyrir þeirri skoðun sinni í bréfum sem hafa verið send um það mál til forsrh., m.a. því sem dagsett var í desember 1991. Það er því ekki nokkur vafi á að það er fyllilega tímabært að ræða þetta mál hér og ég vona svo sannarlega að eftir góða umfjöllun fái það afgreiðslu á þinginu. Mér finnst líka tímabært í framhaldi af því að ræða það sem hefur borið á góma af og til í umræðum á Alþingi, þ.e. hvort ekki þurfi líka að koma á fót stjórnsýsludómstóli. Það geta komið upp mál þar sem jafnvel stjórnsýslulöggjöf dugar ekki til og það sé þá stjórnsýsludómstóls að skera úr um ýmis ágreiningsmál.

    Stjórnsýslulög munu styrkja stöðu hins almenna borgara til þess að ná rétti sínum. Það er m.a. nefnt í athugasemdum með frv. að þörf slíkrar lagasetningar hafi komið í ljós þegar hinn almenni borgari þarf að leita réttar síns gagnvart ákvörðunum sveitarfélaga. Það var einnig rætt nokkuð í umræðu um frv. um skipulagslög sem nýlega var 1. umr. um á Alþingi.
    Ég tel því alveg tímabært að við fáum þetta frv. fram lagt og því muni verða vel tekið af öllum þingmönnum og að sjálfsögðu fjallað vel um það í hv. allshn.
    Ég vil aðeins nefna eitt atriði í 4. gr. sem ég tel mjög mikilsvert einmitt til álita fyrir sveitarstjórnir landsins. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.``
    Nú eru sveitarstjórnir oft tengdar ýmsum málum sem þær eru að fjalla um þannig að ég tel alveg nauðsynlegt að taka á því, sem er gert í þessu frv., hvenær menn eru vanhæfir til þess að taka þátt í undirbúningi eða taka ákvörðun um afgreiðslu mála.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð, virðulegi forseti en lýsi yfir ánægju minni með að þetta frv. skuli vera komið til kasta Alþingis og ítreka að ég vænti þess að það fáist afgreitt.