Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 15:38:18 (5640)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að biðja hv. 9. þm. Reykv. forláts ef ég hef stigið ofan á einhver líkþorn, eins og maður segir, þegar ég talaði um að konur hefðu beðið hér í fyrra óþreyjufullar eftir umræðunni. Ég veit að konur biðu óþreyjufullar og kannski hafa einhverjir karlar gert það líka. Þó ég nefni konurnar eru karlarnir ekki þar með undanskildir. Þannig vill nú til, virðulegur þingmaður, að þó maður vilji beita sér einhvers staðar í baráttu fyrir réttlæti þarf maður ekki endilega að hugsa að maður geti ekki beitt sér á einu sviði heldur verði að byrja á að frelsa allan heiminn. Þetta er kannski svipað þegar ég tek konurnar sem dæmi. Það þýðir ekki að karlarnir hafi ekki áhuga á málunum en ég held að það sé alveg ljóst og þingmaðurinn viti það jafn vel og ég að þetta er meira áhugamál fyrir konur en karla.
    Það er líka eitt af því sem ég vildi nefna hér varðandi þessa áætlun sem mér finnst alveg sjálfsagt að minnast á. Það kemur einhvers staðar fram að gera eigi sérstaka úttekt á stöðu karla í breyttu samfélagi með það að leiðarljósi að jafna fjölskylduábyrgð kynjanna. Sérstök nefnd var sett á laggirnar og haldið sérstakt málþing út af þessu máli. Ég verð að játa að þegar ég sá þetta hugsaði ég með mér: Þetta er gott og ágætt en hversu lengi skyldu konur hafa unnið í sínum málum? Hvað skyldu þær hafa lagt mikið af mörkum til að bæta sína stöðu áður en þær fengu ríkisskipaða nefnd og sérstaka fjármuni í málþing til að taka á málum sínum? Konur voru búnar að berjast í sínum málum ekki bara í ár og ekki bara í áratugi heldur í aldir áður en farið var að setja fjármuni í að styðja þær í sinni baráttu og setja á laggirnar sérstakar ríkisskipaðar nefndir til að vinna að þeim málum. Ég hef því miður ekki orðið vör við að karlar hafi tekið á sínum málum með sama hætti þó það sé vissulega löngu tímabært því auðvitað eru karlmenn fórnarlömb sinna kynhlutverka ekki síður en konur. Og þeim er sniðinn ansi þröngur stakkur í þessu samfélagi ekkert síður en konum. Þeir ættu auðvitað að sjá það og þeir verða að opna augu sín fyrir því og taka á þessum málum.
    En þetta var ekki aðalerindi mitt hér upp öðru sinni. Ég stóðst ekki freistinguna að koma aftur vegna þess að það er svo margt í þessu sem mann langar til að gera að umræðuefni. Ég ætlaði aðeins að benda á hlut sem er undir kafla fjmrn. Þar er talað um stjórnsýslufræðslu ríkisins --- sérstök námskeið fyrir konur, og segir: ,,Stjórnsýslufræðsla ríkisins skipuleggi sérstök námskeið fyrir konur sem starfa hjá ríkinu og hafi það að markmiði að auka hæfni þeirra og veita þeim möguleika á stöðuhækkunum.``
    Nú fúlsa ég ekki við því að skipulögð séu sérstök námskeið fyrir konur sem auki möguleika þeirra

á vinnumarkaði en ég staldra við þegar talað er um að halda námskeið sem hafi það markmið að auka hæfni kvenna. Mér finnst það ansi lífseigt sjónarmið að það sé eitthvað að konum. Það þarf alltaf að breyta konum einhvern veginn til að þær passi inn í þetta kerfi. Við förum í skólana og við þurfum að taka stelpurnar fyrir og við þurfum að kenna þeim að ná athygli kennaranna, við þurfum að kenna þeim að taka þátt í samkeppninni, við þurfum að taka þær og breyta þeim vegna þess að það er eitthvað að þeim og þess vegna komast þær ekkert áfram. Og það er alveg sama á vinnumarkaðnum og annars staðar. Alltaf á að taka konur, breyta þeim og auka hæfni þeirra. Það er eitthvað að konum og við þurfum að laga þær að þessu kerfi en ekki kerfið að konunum.
    Ég hlýt að spyrja hvenær við fáum endurmenntunarnámskeið fyrir kerfiskarla? Af hverju fáum við ekki inn í svona áætlun endurmenntunarnámskeið fyrir kerfiskarla til að kenna þeim að skilja og meta stjórnvisku og hæfileika kvenna? Ég held að það þurfi sérstaka endurhæfingu til að þeir skilji og sjái hvað konur hafa til að bera. Ég gæti nefnt mörg dæmi um það að konur eru t.d. sérfræðingar í því að gera marga hluti í einu sem ég verð vör við að karlar margir eiga afskaplega erfitt með. Nægir að nefna að mér sýnist karlar eiga í mestu brösum með að tala í þessa bílasíma sína og keyra um leið og eru í raun orðnir stórhættulegir í umferðinni í bænum.
    Ég vek athygli á þessu vegna þess að mér finnst fólk verða að skyggnast bak við orðin og sjá hvað býr þar að baki. Sjálfsagt er þetta sett niður í góðri trú og með góðum hug. En samt sem áður bærist sú hugsun á bak við þetta að eitthvað sé að konum og það þurfi aðeins að lagfæra þær og breyta þeim svo þær passi inn í þetta kerfi þannig að kerfið geti metið þær ekki á þeirra eigin forsendum heldur forsendum kerfisins.
    Af því að ég talaði um fæðingarorlof áðan og sagði að ég óttaðist að menn vildu jafna það niður á við þá vil ég ekki láta hjá líða að geta þess að mér finnst það jákvætt sem segir hér um fæðingarorlofið. Hér segir: ,,Jafnframt verði gildandi lög um fæðingarorlof endurskoðuð að því er varðar sjálfstæðan rétt feðra til töku fæðingarorlofs.``
    Ég held að það sé mikilvægt að fæðingarorlof feðra verði sjálfstæður réttur en ekki afleiddur réttur eins og hann er í dag. Annaðhvort taki karlmennirnir þetta orlof sitt eða það falli hreinlega niður. Í dag er það þannig að þeir geta tekið hluta af fæðingarorlofi móður. Ef þeir taka það ekki þá fær móðir það. Mín skoðun er sú að þetta eigi að vera sjálfstæður réttur. Þá vil ég auðvitað bæta við sjöunda mánuðinum, ég vil ekki taka af einn mánuð. Ef þeir taka ekki fæðingarorlofið þá falli þessi réttur niður en verði ekki framseldur fremur en annar réttur. Réttur á að byggjast á einstaklingum og á ekki að vera framseljanlegur. Þetta finnst mér mjög mikilvægt. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt jafnréttismál vegna þess að þetta er miklu líklegra til að gera það að verkum að karlar taki fæðingarorlof en það fyrirkomulag sem nú er.
    Þá langar mig að minnast aðeins á vinnuverndina. Hún var reyndar gerð að umtalsefni áðan. Ég vil minna á að það hafa verið gerðar kannanir þar sem sýnt hefur verið fram á að konur t.d. í fiskvinnslu eru illa haldnar af ýmsum slitsjúkdómum. Það var gerð sérstök viðamikil könnun á þessu, ég held á árinu 1982---1983. Sú könnun leiddi til ákveðinna endurbóta í starfsumhverfi. En eftir sem áður veit ég ekki til þess að álagssjúkdómar séu viðurkenndir sem atvinnusjúkdómar. Það vantar mikið upp á það. Ég held að það eigi sérstaklega við um konur sem vinna við saumaskap og konur sem vinna í fiskvinnslu. Við getum gert könnun á þessum slitsjúkdómum og sjúkdómum í stoðkerfi en það er út af fyrir sig ekki nóg að komast að þeirri staðreynd. Hvað á síðan að taka við? Hvað gerist síðan þegar menn komast að því að stór hluti þessara kvenna --- ég er alveg sannfærð um að ef gerð væri könnun þá kæmi það ljós --- þjáist af slitsjúkdómum, slitgigt og ýmsum sjúkdómum í stoðkerfi líkamans? Hvað á síðan að taka við? Það þarf þá að viðurkenna að þetta sé atvinnusjúkdómur og það þarf þá með einhverjum hætti að taka á aðstæðum á vinnustað og gera þessum konum þá kleift að hætta í vinnu og að þær fái einhverjar bætur fyrir sinn sjúkdóm. Það þarf að fylgja þessu eftir með einhverjum hætti.
    Tími minn er búinn hér öðru sinni þó ég gæti haldið áfram enn lengi. Ég er svo heppin að sitja í félmn. þannig að ég fæ þetta væntanlega til umfjöllunar þar og get þá haft eitthvað fleira um það að segja þegar þar að kemur.