Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 16:50:22 (5647)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um greiðslur úr ríkissjóði. Ég tel nauðsynlegt að hafa orð á því við þessa umræðu að hér er um afskaplega mikilvægt mál að ræða og ekki vonum seinna að slíkt frv. komi fram. Vonandi fær það góðar viðtökur í þinginu og bærilega afgreiðslu því ég tel nauðsynlegt að festa þá hluti sem hér er fjallað um, greiðslur úr ríkissjóði og meðferð ríkiseigna og fjármuna ríkisins. Það er afskaplega mikilvægt að öll sú meðferð og meðhöndlun framkvæmdarvaldsins og stjórnvalda almennt sé traust og færð eftir föstum og ákveðnum reglum. Ég held að það þurfi ekki að fara mörgum orðum um það.
    Ég ætla ekki að halda langa ræðu um frv. sem slíkt. 1. flm. hefur gert ítarlega grein fyrir málinu, en vafalaust, eins og kom fram reyndar í máli hv. 9. þm. Reykv., eru mörg álitaefni þegar á að fara að fjalla um meðerð ríkisfjármálanna. Ég tala nú ekki um þegar farið er að fjalla um bókhaldshliðina. Það hefur komið í ljós að það eru mjög skiptar skoðanir meðal manna um það hvernig eigi að færa margt af því sem snýr að ríkisreikningi og upp hafa sprottið deilur. Ég tel að þetta frv. sé þannig úr garði gert að það ætti að gera þessa hluti markvissari og líklegri til þess að draga úr deilum sem þar hafa komið upp.
    Ég vildi aðeins af því tilefni sem hv. 9. þm. Reykv. gaf velta því fyrir mér sem hann hafði á orði að upp hefðu komið og kæmu miklar deilur á milli ríkisstjórnar og fjárln. Ég verð að segja að ég kannast ekki við að mjög miklar deilur hafi verið uppi milli þessara aðila. Það kann að vera að svo hafi verið í gegnum tíðina og eigi eftir að verða. En út af fyrir sig er það kannski ekkert óeðlilegt. Framkvæmdarvaldið, ríkisstjórn á hverjum tíma, er að fást við mörg viðamikil verkefni. Ríkisstjórn og einstakir ráðherrar hafa áhuga á að ríkið leggi í ýmiss konar fjárfestingar, kaup á fasteignum og jafnvel gefa fasteignir, en auðvitað þarf leyfi Alþingis til þess að ráðstafa eignum ríkisins. Um þetta allt þurfa að gilda skýrar reglur. Ég tel eðlilegt að Alþingi, löggjafarvaldið, og framkvæmdarvaldið takist e.t.v. á stundum um slíka hluti og skoðanir skiptar en samt sem áður tel ég mikilvægt að það séu góð samskipti á milli fjárln., og Alþingis og svo hins vegar ríkisstjórnar á hverjum tíma. Ég tel að þetta frv. sem hér er til umfjöllunar eigi að auðvelda þau samskipti og setja þau í fastari og eðilegri farveg.
    Hér var aðeins vikið að því að e.t.v. væri ekki eðlilegt að fjárln. fengi þetta til meðferðar að nýju þar sem flm. væru fjárlaganefndarfulltrúarnir. Um það má vafalaust deila. Ég tel samt sem áður ekki óeðlilegt að fjárln. fjalli áfram um þetta frv. og kalli til sín aðila sem eðlilegt er að fái tækifæri til þess að gefa umsögn um frv. en eins og kom fram í máli hv. 1. flm. frv., hv. 6. þm. Reykn., er eðlilegt að efh.- og viðskn. fái þetta mál til umfjöllunar og fái þá tækifæri til þess að veita umsögn til fjárln. Fjárln. hefur undirbúið þetta mál og það hefur verið til rækilegrar umfjöllunar í nokkurn tíma og fjárveitinganefnd hafði áður undirbúið þetta mál þannig að á þeim vettvangi liggja ýmsar upplýsingar og það er tiltölulega aðgengilegt að vinna vel að málinu. Ég sé því ekkert óeðlilegt við það að fjárln. fái frv. til frekari úrvinnslu milli umræðna og þar gefist færi á að kalla til aðila sem gætu veitt gagnlega umsögn um málið.

    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka að ég tel að þetta sé mikilvægt mál og það ætti að geta stuðlað að vandaðri meðferð ríkisfjármála okkar Íslendinga.