Greiðslur úr ríkissjóði o.fl.

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 17:04:05 (5649)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi þær athugasemdir sem hv. 6. þm. Reykn. gerði við mál mitt í sambandi við pólitískt mat ráðherra, sem ræður bersýnilega úrslitum hvað sem þessu frv. líður, þá er það auðvitað þannig að þó að ráðherrar geti hvorki gefið eða selt eignir ríkisins endanlega nema samkvæmt heimild í fjárlögum, 6. gr., þá geta ráðherrar gefið pólitískar yfirlýsingar um að þeir muni beita sér fyrir að þetta eða hitt verði gert. Auðvitað er ekki á neinn hátt komið í veg fyrir það með ákvæðum þessa frv. enda er það ekki ætlunin. Það er engu að síður nauðsynlegt að taka það fram í umræðunni að hér er aðeins verið að fjalla um hina formlegu hlið málsins en hin pólitíska hlið er eftir sem áður á sínum stað. Það fyrirkomulag, sem verið er að tala um, breytir auðvitað ekki hinu formlega pólitíska valdi sem ráðherrar hafa á hverjum tíma og beita því auðvitað eins og gengur af mismunandi mikilli lagni en það er eftir sem áður svo að þeir geta beitt því.
    Það sem ég var að leggja áherslu á við safnliðina, virðulegi forseti, og vil skýra er það að skiptingin á greiðslum og safnliðunum komi mjög skýrt fram í ríkisreikningi. Ég er ekki að segja að Alþingi eigi að skipta öllum liðum en ég er enn síður að segja að fjárln. eigi að gera það, vegna þess að ég tel að fjárln. hafi enga heimild til að skipta liðum. Hún hefur heimild til þess að gera tillögur til Alþingis um hvað sem henni sýnist en hún getur ekki skipt safnliðum, t.d. menntmrn. Ef einhver upphæð er í fjárlögum, t.d. til menningarmála þar sem stendur Ýmis menningarmál eða eitthvað því um líkt og fjárlögin eru þannig afgreidd hér, þá er skiptingin á ábyrgð menntmrh. en ekki á ábyrgð fjárln.
    Ég tel að fjárln. og fjárveitinganefnd hér áður hafi í þessum efnum tekið sér óheyrilegt vald, reynt að taka sér vald sem hún ekki á og ekki hefur og það er nauðsynlegt að þessir hlutir séu skýrir. Auðvitað er það svo að Alþingi treystir ráðherrum oft og tíðum fyrir ákveðnum upphæðum, ekki aðeins til framkvæmda heldur líka til útdeilingar. Ég tel að sumt sé með þeim hætti að það sé alveg fráleitt að ætla Alþingi og fjárln. að vinna í skiptingu á smáupphæðum, niður í þúsundir króna eða eitthvað því um líkt. Það er algjör fjarstæða að mínu mati. Ég tel að fjárln. eigi að fjalla um hina stóru liði í ríkisbúskapnum. Þess vegna var nafninu breytt m.a. Ég man eftir að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hér situr skammt frá mér, útskýrði nafnbreytinguna mjög vel. Hann sagði: Nafnbreytingin felur það í sér að fjárveitinganefnd og þeir sem eru í henni eiga að hætta þessari veitingastarfsemi sem þeir hafa verið að stunda. Það er nákvæmlega það sem við var átt.
    Ég hef ekki sett mig alveg í einstökum atriðum inn í vinnu fjárln. en mér hefur fundist, án þess að ég þekki það nógu vel, að hún sé enn þá talsvert í hinu gamla veitingafari. Það er kannski rangt og ósanngjarnt að vera að halda þessu fram og ég skil líka vel að það tekur tíma að skipta um vinnubrögð en ég vil að Alþingi eigi fjárlaganefnd sem sér yfir sviðið, samþykkir hinar stóru upphæðir og gengur frá þeim. Síðan er t.d. hugsanlegt að fagnefndirnar hafi einstök ráðuneyti.
    Þá kem ég að því sem ég held að sé einn aðalvandi ríkisbúskaparins og það er sú staðreynd að öllum ríkisbúskapnum er eiginlega miðstýrt frá fjmrn. Fjmrn. getur ekkert miðstýrt þessum ríkisbúskap svo vit sé í. Það hefur ekki lið, það hefur ekki tækni, það hefur ekki getu til þess að skipta sér af hverri einustu greiðslu sem fer í gegnum fagráðuneytin.
    Ég vil af þessu tilefni þakka hv. fjárln. fyrir það að í grg. með frv. sem hér er til umræðu er farið mjög ítarlega yfir það hvernig þessu háttar til á hinum Norðurlöndunum. Hver er munurinn á hinum Norðurlöndunum að þessu leytinu til og Íslandi? Hann er sá að á öllum hinum Norðurlöndunum er ábyrgðin á framkvæmd fjárlaganna í viðkomandi fagráðuneyti. Þannig er það í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku. Og fagráðuneytið kemur með sín mál fyrir þingið í fjárlagaumræðunni þegar hún fer fram. Heilbrrh. kemur og kynnir sín fjárlög og það er rætt kannski hálfan dag um fjárlög heilbrrn. Það er rætt í hálfan dag um fjárlög menntmrn. o.s.frv. En hér er þetta allt í einum graut undir þessum ægihjálmi fjmrn. sem í rauninni gengur ekki vegna þess að fjmrn. hefur ekki getu til þess. Jafnvel þótt þar séu yfirleitt allt mjög góðir, vandaðir og traustir menn þá hafa þeir ekki getu til þess að elta uppi hverja einustu bréfaklemmu sem menn þurfa að nota í ríkisbúskapnum. Það er bara óframkvæmanlegt.
    Ég held að ein mikilvægasta breyting sem hægt var að gera á stjórnkerfinu, lögunum um Stjórnarráð Íslands og þar með á vinnubrögðum hér inni, væri m.a. að fagráðuneytin hefðu sína fjármuni og bæru ábyrgð á þeim. Það gerir fagráðherrana líka að betri ráðherrum en ella og ákvarðanir um útgjöld á ýmsum sviðum yrðu teknar á faglegum grunni. Vandi fagráðuneytanna í samskiptum við fjárln. hefur einmitt oft ekki síst verið sá að fagleg stefnumótun hefur verið að engu höfð. Það hefur iðulega komið fyrir að ráðuneyti hafa unnið ítarlegar áætlanir, t.d. um uppbyggingu sjúkrastofnana og heilsugæslustöðva eða skóla. Menn hafa kollvarpað því í fjárln. iðulega, eða fjárveitinganefnd, þessu batteríi, algjörlega án tillits til heildarfaglegra sjónarmiða. Við erum að súpa seyðið af því núna m.a. í okkar ríkiskerfi þar sem um er að ræða ofþenslu í þjónustunni sums staðar meðan hún er allt of lítil annars staðar.
    Á það vil ég leggja áherslu, virðulegi forseti, að ef menn ætla að ná utan um þetta þá þarf að losa um þessar óskaplegu skrúfur sem fjmrn. er með á öllum ríkisrekstrinum. Ég er ekkert að kenna einhverjum einstökum fjármálaráðherrum um þetta, ekki núv. eða fyrrv. fjmrh. Málið liggur ekki þannig. þeir eru auðvitað bundnir af sínu kerfi og reyna að vinna þessa hluti eins vel og þeir lifandi geta. En ég þekki það að það er erfitt fyrir þá og embættismenn þeirra að ná utan um þessa hluti eins og nauðsynlegt er.
    Varðandi önnur atriði sem fram komu í máli hv. 6. þm. Reykn. vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan að ég tel mikilvægt að það er í raun og veru tekið undir þau viðhorf sem fram koma af hálfu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings varðandi færslu á fjármunum Framkvæmdasjóðs og Hafnabótasjóðs og vegna Sandgerðishafnar. Ég vil líka endurtaka að ég tel að þetta frv. sé sammála þeim sjónarmiðum þeirra sem hafa sagt um færsluna á þessum 4 milljörðum til sveitarfélaganna: Þessa peninga á að færa í gegnum ríkissjóð. Það á ekki að taka eins og út fyrir sviga í ríkisrekstrinum 4 milljarða og koma því til sveitarfélaganna án þess að það komi við í hinum almennu greiðslum ríkissjóðs.
    Ég vil að síðustu taka sérstaklega undir það og þakka hv. 6. þm. Reykn. fyrir að hann tók undir þau sjónarmið sem ég tel mig hafa sett fram varðandi sjóði sem ekki eru í fjárlögum eða ríkisreikningi og verða til af ýmsum ástæðum í einstökum ráðuneytum. Þá á auðvitað að færa og um þá eiga að gilda algjörlega sömu reglur og allar aðrar greiðslur sem ráðherrar ákveða að inna af hendi. Þess vegna á þetta frv. kannski alveg eins að heita ,,Frumvap til laga um greiðslur sem ráðherrar ákveða`` þannig að róið sé fyrir hverja vík og menn séu ekki að leika sér með aukasjóði í ráðuneytunum eins og við ræddum áðan.