Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:08:00 (5665)

     Flm. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Ég kynni hér till. til þál. um stuðning við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi sem við flytjum hér 13 þingmenn Hugmyndin að þessari tillögu vaknaði, frú forseti, þegar forseti sem nú situr lagði fram fyrirspurn í þinginu fyrir áramótin um þetta mál, þá þótti okkur flm. eðlilegt að stofnað yrði til umræðna á Alþingi um það mál sem hér er um að ræða, þ.e. ræða um það hvaða kosti setja beri Eystrasaltsríkjunum við aðild þeirra að alþjóðasamtökum. Við segjum í okkar tillögu að Eystrasaltsríkjunum verði ekki settir óeðlilegir kostir vegna stefnu þeirra gagnvart ríkisborgararétti þess fólks sem fluttist og flutt var til landanna í skjóli sovésks hernáms og viljum að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að stuðla að því að slíkir óeðlilegir kostir verði ekki settir innan þeirra alþjóðasamtaka sem Ísland á aðild að.
    Síðan þessi tillaga var flutt hefur það gerst, t.d. á vettvangi Evrópuráðsins, að þar liggur nú fyrir að bæði Eistlandi og Litáen verður veitt aðild að ráðinu og í því felst mikil viðurkenning á stjórnskipun þessara landa og stjórnarháttum en það verður að líta þannig á að Evrópuráðið sé eins konar nálarauga sem ríki verði að komast í gegnum til þess að teljast gjaldgeng meðal lýðræðisríkja. Það hefur nú gerst varðandi Eistland og Litáen að þau verða væntanlega aðilar að ráðinu nú í vor, en í Lettlandi er þess beðið að fram fari kosningar til þings og líklegt er að eftir að þeim kosningum er lokið verði Lettland einnig talið gjaldgengt í Evrópuráðið þó að þar sé að vísu við sérstakan vanda að ræða vegna þess að þar er meiri vandi á ferðinni heldur en í hinum ríkjunum tveimur varðandi borgararéttindi þeirra Rússa sem eru í landinu.
    Þessi tillaga hefur vakið nokkrar umræður í fjölmiðlum hér á landi og því hefur m.a. verið haldið fram að í henni fælist hrokafull afstaða á borð við þá að meiri hluti íbúa ríkis gæti vísað minni hlutanum á brott. En ég tek undir með Arnóri Hannibalssyni prófessor sem hefur sagt í blaðagrein að gagnrýni af þessu tagi sé þess eðlis að það sé engu líkara en línan sé sótt til Moskvu. En í Moskvu eru nú uppi vaxandi efasemdir um að unnt verði að halda stórrússneskum þjóðernisrembingi í skefjum og má segja að deilur þeirra Borisar Jeltsíns Rússlandsforseta og Rúslans Khasbúlatovs þingforseta endurspegli nokkuð þessar deilur sem nú eiga sér stað í Moskvu um það hvert eigi að vera framtíðarhlutverk Rússlands og hvernig Rússar ætla að halda á sínu máli. Sagt hefur verið að það hvíli eins og mara á Rússum og rússneska hernum að utan Rússlands, eða á því landsvæði sem áður laut Sovétríkjunum eða Sovétstjórninni, séu a.m.k. 25 millj. Rússa sem áður voru herraþjóð en eiga nú undir högg að sækja sem minnihlutahópur. Það er einnig sagt að það sé vísasti vegurinn til áhrifa í Rússlandi að sýna þessum Rússum samúð og stuðning. Og í Mosvku er það talið af ýmsum að það sé árás á þetta fólk í Eystrasaltsríkjunum þegar það er krafið um það að sækja um ríkisborgararétt til þess að setjast að í þessum þremur ríkjum, Eistlandi, Litáen og Lettlandi.
    Í ræðu á Norðurlandaráðsþingi nú á þriðjudaginn minnti hæstv. forsrh. á það að forsætis- og utanríkisráðherrar Norðurlandanna hefðu ályktað um brottflutning rússneskra hermanna frá Eystrasaltsríkjunum. Þar er um mál að ræða sem snýst um sjálfstæðisbaráttu ríkjanna og stöðu Rússa innan landamæra þeirra. Í grein í Morgunblaðinu sem birtist hinn 15. des. sl. sagði Iveda Gedane, sem er frá Lettlandi og stundar nám við Háskóla Íslands, að viss öfl í rússneskum stjórnmálum vildu helst halda úti her í Lettlandi til frambúðar. Og yrði þeim ekki stætt á því að ná markmiði sínu fram, þá vildu þeir leysa herdeildirnar upp án þess að flytja þær heim og hermennirnir yrðu eftir sem þegnar í Lettalandi og með þeim hætti yrði þeim auðveldara en ella að toga í strengi stjórnmála landsins. Við skulum minnast þess þegar þetta er sagt af lettneskum námsmanni við Háskóla Íslands, að þannig er ástandið í Riga, höfuðborg Lettlands, að 70% íbúanna þar eru Rússar og aðeins 30% Lettar og borgin öll er full af rússneskum herstöðvum. Og í næststærstu borg Lettlands minnir mig að ástandið sé þannig að 87% íbúanna --- (Forseti hringir.) Eru það ekki 15 mínútur? forseti. En klukkan ... ( Forseti: Nei, en hv. þm. tók til máls kl. eina mínútu yfir 6 og 15 mínúturnar eru liðnar og forseti biður afsökunar á að ég nýtti mér ekki kerfið að þessu sinni.) Ég held nú að klukkan hafi verið meira. Ég átta mig nú ekki á því, virðulegi forseti, en ég ætla þá að ljúka máli mínu fljótlega og mun þá nýta mér rétt til að tala hér síðar.
    Það sem um er að ræða í þessu máli er það að þetta tengist ekki aðeins réttarstöðu þessara ríkja innan alþjóðasamtaka og á vettvangi alþjóðasamtaka, heldur spurningunni um það hvort í raun og veru sé hægt að líta á þau sem sjálfstæð ríki. Ef menn telja að það sé brot á mannréttindum að veita ekki íbúum eða fólki ríkisborgararétt í ákveðnu ríki, þá ættum við Íslendingar að líta í okkar eigin barm ef við lítum þannig á að það sé spurning um mannréttindi að menn fái sjálfkrafa ríkisborgararéttindi, því að hvergi eru ákvæði um ríkisborgararétt strangari heldur en einmitt hér á landi ef marka má þær upplýsingar sem ég hef aflað mér og kynnt mér, t.d. með hliðsjón af því sem viðgengst annars staðar á Norðurlöndum. Þessar reglur um skilyrðin sem menn verða að uppfylla til þess að fá ríkisborgararétt eru ekki settar hér í lögum heldur af þingnefnd þannig að ég tel að allar forsendur séu fyrir því að þessi tillaga nái fram að ganga og með henni sé ekki gengið á rétt neins heldur verið að tryggja réttindi Eystrasaltsríkjanna og auðvelda þeim þátttöku í samfélagi þjóðanna og samstarfi á alþjóðavettvangi.