Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:16:48 (5666)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Fram komin þáltill. er þess eðlis að ég held að allir þingmenn hljóti að styðja hana. Við höfum öll sömul sem í þessu þingi höfum verið viljað styðja við sjálfstæði og frelsi Eystrasalstsríkjanna. En það má spyrja: Hvað eru óeðlilegir kostir? Vandi Eistlendinga og Letta er að sjálfsögðu stór en vandi þessa þögla þungbúna minni hluta, eins og ég hef séð hann kallaðan á prenti einhvers staðar, er líka stór vegna þess að hinn almenni rússneski borgari sem kominn er til þessara landa er fórnarlamb aðstæðna og óheillastefnu sovéskra stjórnenda.
    Það stendur í þessari greinargerð hér að fólk þurfi að kunna 1.500 orð í eistnesku til að fá ríkisborgararétt í því landi og 1.500 orð eru ekki mikið og ekki til mikils mælst að fólk læri þessi 1.500 orð og þó meira væri.
    Sl. haust var ég á ráðstefnu í Gautaborg þar sem eistneskur prófessor sagði að rússnesk ungmenni sem ekki töluðu eistnesku stæðu líka höllum fæti gagnvart skólakerfinu og gætu ekki sótt sér þá menntun sem hin gætu. Þetta er náttúrlega líka vandamál þessa fólks og við verðum að vænta þess að Eistlendingar og Lettar nái lendingu í þessu máli, þeim takist að sýna þessu sovéska fólki sem vill vera í landinu það lýðræðislega réttlæti sem það á heimtingu á eins og allir aðrir. Þessar þjóðir eru að feta núna fyrstu sporin á lýðræðisbraut eftir að hafa verið undir oki einræðis nú um langa hríð og geta átt erfitt með að átta sig á því hvað er lýðræðislega rétt og hvað er það ekki og við eigum að styðja þau á allan hátt. Við eigum líka að styðja þau á alþjóðavettvangi. Ég verð að segja það eins og er að mér ógnar þessi rússneski her sem enn situr á fleti fyrir í þessum löndum og ég tel þar af leiðandi að þessi tillaga sé af hinu góða. Það versta sem gæti skeð væri að til vopnaðra átaka kæmi innan lands í þessum löndum. Það væri skelfilegt ef eitthvað sem minnti þó ekki væri nema örlítið á hið hryllilega ástand í Bosníu-Hersegovínu kæmi upp í Eystrasaltslöndunum.
    Mér hefði líka þótt vel við hæfi að þeir stjórnarþingmenn sem hafa lagt fram þessa þáltill. kæmu með aðra þáltill. til þess að hvetja ríkisstjórnina okkar til þess að leggja eitthvað af mörkum á alþjóðavettvangi til að knýja stríðandi aðila þar, þ.e. í Bosníu-Hersegovínu, til að láta af þeim skelfingar hermdar- og níðingsverkum sem eru iðkuð í því landi. Við megum ekki eingöngu horfa til landanna sem eru næst okkur. Það sem er að gerast í Mið-Evrópu er svo stórt að það yfirgnæfir allt, allt annað. En þessa tillögu held ég að allir hljóti að styðja.