Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:28:41 (5668)

     Flm. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir hans ræðu því að hún sannaði einmitt að það er nauðsynlegt að ræða þetta mál hér á þinginu. Ef hann lítur þannig á að með þessari tillögu sé verið að hvetja til þess að ekki sé gætt mannréttinda í þessum þremur ríkjum, þá hefur hann gersamlega misskilið málið. Spurningin snýst ekki um það. Spurningin snýst hins vegar um það, hvaða aðferðum eiga þessar nýsjálfstæðu þjóðir að beita til þess að laga sitt sjálfstæði og sína stjórnarhætti að þeirri staðreynd að t.d. í Eistlandi eru 600 þús. Rússar og það stendur í járnum hvort það eru fleiri Rússar í Lettlandi eða

Lettar, um það snýst spurningin. Við lýsum hér í okkar greinargerð þeim reglum sem gilda í Eistlandi um það hvernig þessir Rússar geta öðlast ríkisborgararétt í Eistlandi, það séu ekkert ósanngjarnar kröfur, ég tel að það séu eðlilegar kröfur, enda hefur það nú verið viðurkennt af Evrópuráðinu ef aðild Eistlands verður staðfest eins og allt bendir til í vor að Eistlandi verði aðili að Evrópuráðinu, þá verðum við og önnur aðildarríki þess búin að viðurkenna að þetta eru sanngjarnar kröfur. Það er ekki brot á mannréttindum og um það snýst málið. Það er ekki brot á mannréttindum að setja ákveðin skilyrði fyrir því hvernig menn öðlast ríkisborgararétt í ríki og það er um það sem þetta mál snýst. Það er búið að setja þarna reglur. Það væru óeðlilegir kostir ef menn ætluðu að neita Eystrasaltsríkjunum þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þeim forsendum að þær reglur sem t.d. hafa verið settar í Eistlandi séu eitthvað óeðlilegar og ósanngjarnar.