Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:33:42 (5671)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér finnst það þunnur þrettándi þegar því er svarað til að greinargerðin sé ekki í samræmi við ályktunina sem hér er fram sett. Þess vegna sé ekki rökrétt að lesa upp úr greinargerðinni til þess að undirstrika nákvæmlega hvað maður er að spyrja um. Greinargerðin á að vera til skýringar á því efni sem ályktunin fjallar um og það stendur hér að skilyrðin eru að þau þurfi að fullnægja ströngustu kröfum um virðingu fyrir mann- og borgarréttindum. Og ég hef spurt að því: Hvað er það innan vébanda Evrópuráðins sem hv. flm. telur að sé of strangt?
    Hér kemur það fram að þau fá ekki þennan rétt nema fullnægja ströngustu kröfum. Og þess vegna spyr ég: Hvað er það sem hv. flm. telur að sé of strangt innan vébanda Evrópuráðsins? Það er við því sem verður að fást svar. Hvort þetta leiðir til þjóðernishreinsana eða ekki kemur einfaldlega ekki í ljós fyrr en það kemur fram, hvort sá hópur sem þarna er, fær ríkisborgararéttinn eða ekki. Þess vegna hef ég ekki hugmynd um það á þessu stigi en það gæti leitt til þjóðernishreinsana.