Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:35:35 (5672)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Það er hægt að taka undir það með flm. að auðvitað er æskilegt að málefni Eystrasaltsríkjanna komist hér á dagskrá eins og reyndar málefni ýmissa fleiri ríkja sem vert væri að ræða. Það er allt of sjaldan sem okkur gefst tækifæri til þess að ræða utanríkismálefni á hinu háa Alþingi. En það má spyrja sig að því hvort þessi tillaga sem hér er flutt sé ekki að nokkru leyti orðin úrelt.
    Það kom fram í máli 1. flm. að hjá Evrópuráðinu háttar málum þannig að það er nánast búið að samþykkja aðild Eistlands og Litáens og búist við að þau ríki verði aðilar að Evrópuráðinu á næstu þingum ráðsins. Þetta er gert eftir mjög gaumgæfilega skoðun á ástandi mála í þessum ríkjum.
    Ég á sæti í þeirri nefnd Evrópuráðsins sem hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með ástandi mála í ríkjum Austur-Evrópu og þangað hafa verið sendar sendinefndir og þar hefur verið fylgst með kosningum og þróun mála. Fulltrúar stjórnvalda og ýmissa annarra aðila hafa komið á fund nefndarinnar og skýrt sín sjónarmið og eftir því sem ég best fæ séð er ekki annað hægt af því að ráða en menn hafi farið nokkuð gaumgæfilega ofan í þessi mál. Það breytir því ekki að auðvitað getur mönnum yfirsést og má nefna

að reyndar er eitt af ríkjum Evrópuráðsins iðulega undir smásjánni þar sem er Tyrkland. Þeir hafa verið bornir þeim sökum að virða ekki mannréttindi, m.a. af samtökunum Amnesty International, og hafa oft komið fram tillögur í Evrópuráðinu um að skoða þau mál nánar.
    Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þróun sé þannig háttað í Eistlandi og Litáen að ríkin geti öðlast aðild að Evrópuráðinu en vandamálið er fyrst og fremst í Lettlandi. Það stafar af því, eins og hér hefur komið fram, að bæði hafa miklu fleiri Rússar sest að í Lettlandi en í hinum ríkjunum og mun fleiri Lettar voru fluttir frá sínu heimalandi til svæða m.a. í Síberíu en gerðist í hinum ríkjunum. Reyndar kann ég ekki sögulega skýringu á því hvort andstaðan var meiri í Lettlandi eða hvort annað réði. Menn eru greinilega í nokkrum vanda með hvernig skuli farið með þetta mál þar sem um það er að ræða að íbúar landsins skiptast nokkurn veginn til helminga.
    En það hlýtur að vera grundvallarkrafa að mannréttindi séu tryggð hver sem í hlut á. Vissulega verð ég að viðurkenna að ég hef, m.a. eftir að hafa rætt við þingmenn frá Lettlandi sem sitja sem gestir í Evrópuráðinu, mikla samúð með þeirra málstað. Þeir verða að horfast í augu við staðreyndirnar. Þetta er ástandið í þeirra landi og þeir verða að finna lausn á þessu sem m.a. felst í því að virða mannréttindi allra.
    Það sagði mér þingmaður frá Lettlandi, sem reyndar er hálfur Rússi, móðir hans er lettnesk en faðirinn Rússi, hann vildi meina að Rússarnir sem þarna búa séu býsna ráðalausir gagnvart sinni framtíð. Greinilega eru mjög margir þeirra ekki sáttir við að verða lettneskir ríkisborgarar. Þeir vilja ekki flytja heim til Rússlands, enda að litlu að hverfa þar, en hann vildi meina að mjög margir ættu sér þann draum að flytja til Vestur-Evrópu. Hann vildi nú skella nokkuð skuldinni á Rússana. Þeir hefðu einfaldlega ekki gert upp sinn hug, enda hefur grundvellinum að miklu leyti verið kippt undan þeim en þeir eru samt íbúar á þessu svæði. Margir þeirra eru fæddir í landinu og það hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeirra mannréttindi séu virt.
    Á síðasta þingi Evrópuráðsins var farið rækilega í gegnum ástandið í þessum löndum varðandi rússneska herinn sem þarna er. Það er sérdeilis í Lettlandi sem hann er vandamál. Það var mjög fróðlegt að sjá kort sem þeir voru með sem sýndu allar rússneskar herstöðvar í höfuðborginni. Þeir vildu meina að rússneski herinn gæti fylgst með öllu sem gerist í þinghúsinu með hlustunartæki. En þingmaðurinn sem ég hef vitnað til sagði að tregða Rússa við að flytja herinn í burtu væri meira og minna fyrirsláttur. Þeir segja að það sé ekki húsnæði heima fyrir fyrir herinn en eftir því sem hann sagði þarf ekki annað en fara um það bil 100 km út fyrir Moskvu til þess að finna nægjanlegt húsnæði. Fulltrúar Rússa og Lettarnir tókust einmitt á um þetta og sýndist þar sitt hverjum. Ég ætla ekki að fella hér dóm yfir þeim en ég held að það sé mjög þess virði að við reynum að setja okkur inn í þessi mál og að við fylgjumst með þróun mála.
    Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni sem spurði hvað átt væri við með ,,óeðlilegum kostum``. Það er búið að leysa þessi mál í Eistlandi og Litáen með nokkuð viðunandi hætti að því er manni virðist en vandamálið er Lettland. Hvaða óeðlilegu kosti sjá menn fyrir sér þar? Ég held einfaldlega að menn ættu að fylgjast með þróuninni og hugsanlega reyna að aðstoða við lausn mála þarna. En það er staðreynd að Evrópuráðið hefur ekki samþykkt að veita Lettlandi aðild vegna þess að þetta er óleyst vandamál. Ég get sannast að segja ekki ímyndað mér að nokkrum detti í hug að setja Lettum einhverja óeðlilega kosti. Menn vilja einfaldlega ganga úr skugga um að reglur séu virtar og mannréttindi séu virt. Það eiga eftir að fara fram kosningar í Lettlandi og þær hafa dregist m.a. vegna þess að menn eru í vandræðum með það hvað gert skuli við Rússana.
    Ég fagna því að Alþingi Íslendinga skuli ræða þetta mál og ég bíð spennt eftir því að sjá hvað kemur út úr umfjöllun utanrmn. þegar hún hefur kannað þetta. Ég treysti mér ekki til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi við tillöguna eins og hún er orðuð hér. Ég hlýt að vekja athygli á því að einvörðungu stjórnarþingmenn flytja þessa tillögu og það vekur furðu að ekki skuli reynt að ná samstöðu um mál af þessu tagi og væri fróðlegt að fá skýringu flm. á þeim einlita hóp sem er að finna á þessari tillögu.