Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 18:43:54 (5673)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegur forseti. Þetta mál sem við ræðum er vissulega athygli vert en ég vek þó athygli á orðum hv. síðasta ræðumanns sem sagði að tillagan væri að vissu marki þegar úrelt. Mér finnst það næg ábending um hversu langan tíma það tekur að hefja umræðu um mál sem þingmenn bera fram. Ég hygg að það sé ekki ábending um að hún hafi ekki verið ómaksins virði og ekki verðskuldað umræðu. Raunar held ég að þingmaðurinn hafi svolítið mismælt sig þegar hún segir að málið varðandi Eistland og Litáen muni leyst nú þegar.
    Ég hygg að það sé alveg ljóst af þeim fréttum sem við höfum frá þessum löndum að hinir rússnesku íbúar þeirra eru enn þá ekki að öllu leyti sáttir við þá stöðu sem orðin er. Það sem mér finnst skipta máli er okkar afstaða í málinu, ekki síst okkar sjálfra vegna. Mér finnst það skipta máli að við tökum afstöðu með þjóðum sem við höfum áður átt samleið með, hafa viljað nálgast okkur menningarlega, lýðræðislega og eiga vissulega samleið með okkur að mörgu leyti, en það eiga þessar þjóðir, Eistar, Lettar og Litáar. Þeir hafa fyrr á tíð meðan þeir voru frjálsir og réðu sjálfir ferðum sínum leitað eftir því að vera samferða okkur öðrum Norðurlandamönnum. Auðvitað hafa skipti okkar þjóða og þeirra og náinna grannþjóða okkar verið mikil í gegnum aldirnar. Það segir sig sjálft. Mér þykir eðlilegt að við tökum meira tillit til og höfum aðeins betri kynni af málefnum þeirra sem nær okkur eru en hinna sem eru fjær.

    Mér finnst skipta máli að við hvetjum þessar þjóðir í þeirra baráttu fyrir eiginlegu sjálfstæði og viðurkenningu þess í samfélagi þjóðanna. Þær voru sjálfstæðar og rétt eins og okkur þótti það sjálfsagt um okkar baráttu, þá ætti okkur að þykja þeirra barátta sjálfsögð og sjálfsagt að standa með þeim, að taka undir og vinna að því ásamt þeim að þær hljóti viðurkenningu.
    Menn hafa velt því fyrir sér hér í umræðunni hvort það kunni að vera einhver óeðlileg skilyrði og einhverjar óeðlilegar kröfur um mannréttindi. Ég tel ekki eðlilegt að spyrja þeirra spurninga í umræðunni. Þeim má leita svara við þegar málið kemur til athugunar í utanrmn. Staðreyndin er samt sem áður sú að í fréttum og umræðum sem okkar þingmenn hafa tekið þátt í við þingmenn annarra þinga, til að mynda á Evrópuþinginu, gætir þess að gerðar séu kröfur í orði, jafnvel á borði til þessara þjóða. Vandi þeirra er verulegur. Hann lýsir sér einna best í því að þó að Evrópuráðið hafi tekið afstöðu til umsókna Eista og Litáa hefur það ekki treyst sér til að taka afstöðu til umsóknar Letta, enda hefur komið fram aftur og aftur í þessari umræðu að ekki er með fullu ljóst hvort fleiri Lettar eða Rússar búa innan landamæra Lettlands.
    Auðvitað er það svo þegar við lítum til baka yfir sögu þessara landa að svo miklu leyti sem við þekkjum hana á seinni áratugum að fullar efasemdir og átök verða um hverjir eru blórabögglar og hverjir hafa orðið fórnardýr og hvaða þjóðernishreinsanir hafa í raun átt sér stað. Er það ekki svo að við höfum mátt skilja það sem við höfum lært af sögubókum og fréttum undanfarna áratugi svo að Rússar hafi í raun framkvæmt raunverulegar þjóðernishreinsanir meðal þessara þjóða með flutningum þeirra á brott og með flutningum Rússa inn á meðal þeirra? Getur það ekki verið staðreynd að vera rússneskra hermanna þar í herstöðvum um lönd, um borgir og þéttbýli sé tilraun til þess að viðhalda ákveðinni þjóðernisblöndun og til að viðhalda rétti Rússa um leið og þeir neita að gerast ríkisborgarar með þessum þjóðum?
    Mér virðist spurningin um kröfu til kunnáttu í ríkjandi tungu ekki vera spurning um mannréttindi. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort við Íslendingar teldum sjálfsagt að ef hingað kæmu öllu fleiri Englendingar, Þjóðverjar eða Rússar að við yrðum skyldaðir til að tala þeirra tungu vegna þess að þeir væru fjölmennari. Hvort eru það mannréttindi eða ekki? Ég raunar sé ekki réttindi fólgin í því.
    Hins vegar finnst mér það eðlileg krafa fyrir þjóð sem er að berjast fyrir sjálfstæði sínu, stjórnarfarslega og menningarlega, að hún geti viðhaldið sinni þjóðtungu því að hún er lykillinn að menningararfi hennar sem aftur er grundvöllur menningarlegs sjálfstæðis.
    Vissulega eiga sér stað í dag ljótar þjóðernishreinsanir í öðrum heimshlutum ekki langt undan, en það hygg ég að sé varla dæmi sem hægt er að heimfæra á aðrar þjóðir. Við getum ekki endilega átt von á því í senn að Rússar meðal Letta verði jafngóðir þegnar og Lettar um leið og við viljum álíta að Lettarnir verði jafnslæmir og Serbar í fyrrum Júgóslavíu. Við getum ekki verið svo bjartsýnir á kosti einnar þjóðar um leið og við erum svartsýnir á ókosti annarra. Spurningin hvort Rússar verði hugsanlega verri þegnar en aðrir á heldur ekki við. Við höfum fullar heimildir fyrir því að þeir hafa ekki allir afráðið hvers þegnar þeir vilja vera.
    Ég er raunar viss um, virðulegi forseti, að vandinn í þessu máli er enn þá stærri en við kynnum að hafa upplýsingar um. Vissulega höfum við Íslendingar oft staðið frammi fyrir því þegar við þykjumst ræða mál grannþjóða okkar eða þjóða sem fjær eru að við vitum í raun miklu minna en við teljum okkur vita. Og við hneigjumst til þess að taka afstöðu sem byggð er á samúð með einhverjum sjónarmiðum sem við kynntumst kannski síðast eða höfum aðeins meira eða oftar heyrð nefnd en önnur sjónarmið. Það er kannski eðli mannsins í sjálfu sér að taka afstöðu byggða á forsendum sem hann þegar hefur upplýsingar um. Mér þykir, virðulegi forseti, að við eigum að kynna okkur þetta mál til hlítar og eigum eftir því sem við getum að standa með grannþjóðum okkar.