Tækniskóli Íslands

124. fundur
Þriðjudaginn 09. mars 1993, kl. 15:00:51 (5805)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fór eins og mig grunaði að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er líka að leka niður. Þegar annar hver stuðningsmaður Alþfl. sem eftir er er á móti stjórninni þá herðast þeir kratar heldur í stuðningi við stjórnina og skólagjaldastefnu hennar sem hafa þó verið að amla af og til eins og hv. 5. þm. Austurl. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að þetta frv. eru tímamót af því að það er verið að fella út greinina um ríkisframlag og að ríkið standi undir kostnaði við Tækniskólann. Það eru tímamót. Ef þingmaðurinn skilur það ekki núna, þá mun ég hafa einhver ráð með það þótt síðar verði að rifja það upp fyrir bæði honum og öðrum að á þessari stundu hafi Alþfl. kastað þessu litla sem eftir var af stefnu hans í skólamálum líka fyrir róða.