Endurskoðun laga um mannanöfn

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 11:05:54 (5886)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Þegar lög um mannanöfn voru sett hér á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum síðan vorum við margir sem létum í ljósi ákveðinn ugg um hvernig framkvæmd þessara mála yrði háttað þó að um síðir hafi náðst samkomulag hér í þinginu um frv. Það hefur komið á daginn að sá uggur var á rökum reistur vegna þess að það er mjög mikilvægt að túlka þessi lög rúmt og af víðsýni en ekki af þröngsýni. Hvað á að gera í því tilfelli sem hv. síðasti ræðumaður nefndi? Mér er kunnugt um önnur slík dæmi þar sem búið er að skíra börn nöfnum en þau fást ekki skráð á Hagstofunni þar eð mannanafnanefnd telur að slík nöfn, jafnvel þó notuð hafi verið hér áratugum og öldum saman, séu ekki íslensk nöfn. Þetta gengur auðvitað ekki og þessu verður að breyta, annaðhvort með því að knýja fram rýmri túlkun á vegum mannanafnanefndar eða einfaldlega endurskoða og breyta lögunum.
    Ég minni á að við deildum hér hart á sínum tíma um það hvort leyfa ætti millinöfn. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki. Þó að ég hafi fengið samþykkta brtt. í neðri deild á sínum tíma um að leyfa slík nöfn var það fellt í efri deild og það varð endanleg niðurstaða. Mér er kunnugt um ágreining og deilur út af þessu atriði líka og bendi á það til viðbótar því sem þegar er fram komið.