Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 17:33:23 (6119)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi Samvinnubankann held ég að mér sé óhætt að fullyrða að af þeim afskriftum sem menn eru að dekka núna er ekkert vegna kaupa á Samvinnubankanum. ( Viðskrh.: Hann er ekki undanskilinn í málinu.) Nei, það er hárrétt, hæstv. viðskrh. Um það snýst ekki málið og þess vegna var það fáránlegt hjá hæstv. forsrh. að draga þetta fram sem meginrök í viðtali í sjónvarpi í gærkvöldi og væntanlega liggur þar eitthvað annað að baki en umhyggja fyrir Landsbankanum.
    Annað varðandi 6. gr. Hæstv. ráðherrum er tamt að bera sig saman við hlutafjárbanka. Ef þeir auka hlutafé sitt, setja þeir þá einhverja tilsjónarmenn eða eftirlitsnefnd yfir stjórninni? Að sjálfsögðu ekki. Annaðhvort skipta þeir um stjórn ef þeir treysta ekki stjórninni . . .   ( Fjmrh.: Þeir kjósa hana árlega.) Já, þá gera þeir það, við kjósum hér bankaráð líka, --- annaðhvort skipta þeir um stjórn eða þá í mesta lagi gera með sér hluthafasamkomulag þannig að þessi röksemdafærsla, hæstv. fjmrh., er algerlega út í hött. ( Fjmrh.: Hefur ríkisstjórnin meiri hluta í bankaráði Landsbankans?) Hæstv. fjmrh. Ég verð því miður að fá að taka þessa umræðu við þig seinna, en það dugir ekki í öðru orðinu að taka samanburðinn við hlutafélagaformið og ætla síðan í hinu orðinu að vera með eitthvert allt annað stjórnkerfi sem hvergi þekkist hér. ( Fjmrh.: Þetta er bara útúrsnúningur.) Þetta er, hæstv. fjmrh., ekki útúrsnúningur og það er margsannað mál að það er öllum rekstri til trafala hvort sem það er ríkisbanki eða hver annar, ef á að fara að koma upp einhverju stjórnkerfi þar sem er hver silkihúfan upp af annarri og enginn veit hver ber ábyrgð sem mundi gerast ef ætti að fara að setja einhverja nýja tilsjónarmenn yfir bankann.