Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 14:46:58 (6204)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð þarft mál að reyna að setja saman heildstæða löggjöf um það efni sem hér er til umræðu og frv. er ætlað að taka á. Ég fylgdist af athygli með umræðum um frv. það sem lagt var fram á síðasta þingi og athugasemdum sem menn gerðu þá og hef síðan kynnt mér þetta frv. nokkuð sem við erum með núna. Það er ljóst að nokkuð hefur verið gengið til þess að taka tillit til athugasemda sem menn höfðu fram að færa á síðasta þingi. M.a. hefur ákvæði 19. gr. verið breytt um hversu nærri æðarvarpi megi leggja net en það gat haft mjög slæm áhrif fyrir grásleppuveiðar á tilteknum stöðum á landinu ef ákvæði frv. eins og þau voru í fyrra hefðu farið óbreytt í gegn. Og það ber að fagna þessari breytingu og öðrum sem ég læt hjá líða að nefna þar sem það hefur komið fram í ræðum manna fyrr.
    Ég vil fara yfir örfá atriði sem ég vildi biðja hv. nefnd að hafa til umhugsunar. Það fyrsta sem ég vil nefna er ákvæði í 14. tölul. 9. gr. sem bannar hálfsjálfvirk eða sjálfvirk skotvopn. Á það ber að líta að menn eiga þessi skotvopn og ég veit ekki betur en menn hafi eignast þau með löglegum hætti. Ef notkun þeirra yrði síðan algerlega bönnuð núna, þá vaknar upp spurningin um eignarrétt manna með lögum og hvort menn séu að ógilda verðmæti og eigur sem menn eiga til ákveðinna nota. Ég tel að það verði að gefa gaum að þessu sjónarmiði og treysti því að hv. nefnd muni gera það.
    Annað sem ég vil nefna og hef nokkrar efasemdir um er 11. gr. sem er um útgáfu veiðikorta. Ég er ekki mjög sannfærður um að það sé nauðsynleg aðferð til þess að hafa yfirsýn yfir veiðar manna að allir skuli skrásettir í umhvrn. með nafni og númeri og jafnvel þar til viðbótar hvað þeir mega veiða. Mér þykir þessi aðgerð fullyfirgripsmikil miðað við tilgang hennar. Markmiðið er auðvitað að halda veiðum í skefjum innan tiltekinna marka þannig að veiðar á stofnum sem eru leyfðar verði innan þeirra marka sem sett eru. Mér þykir þessi veiðikortahugmynd ganga of langt og raunar skjóta yfir markið, ef svo má að orði komast, og verkar á mig sem fullmikil miðstýringarárátta.
    Annað atriðið er um veiðikort gegn gjaldi. Ég hef líka efasemdir um það að krefjast gjalds fyrir þetta veiðikort. Ég tel að það verði menn að athuga mjög vandlega áður en á það verði fallist þó að ég geti tekið undir að það sé sjálfsagt og eðlilegt að þeir sem veiðar stunda haldi skýrslur um sínar ferðir og veiðar ef óskað er eftir því og þeim verði skylt að skila slíkum gögnum til að halda utan um umfangið.
    Þá velti ég fyrir mér ákvæði um veiðikortin þar sem mér sýnist að hafi menn leyfi til að nýta hefðbundin hlunnindi á tilteknu svæði, t.d. jörð, þá þurfi menn veiðikort. Það er spurning hvort menn eru ekki að ganga of langt þar jafnvel þó menn séu með veiðikortakerfið almennt. Ég velti því fyrir mér hvort þetta eigi við t.d. við landeigendur, hvort þeir þurfi að hafa veiðikort í vasanum til þess að nýta sín hlunnindi. Ég hef allan fyrirvara á með ákvæði 11. gr. og vænti þess að umhvrn. fari vel yfir efnisatriði þeirrar greinar.
    Þá vil ég nefna 18. gr. um það tímabil sem lögum samkvæmt er heimilt að veiða tilgreindar fuglategundir. Þar vil ég nefna rjúpuna. Mér sýnist miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér og liggja fyrir og hafa komið fram í blöðum og öðrum fjölmiðlum að rjúpan sé illa á sig komin sem stofn. Mér virðist víða um land vera svo báglega komið fyrir rjúpunni að hún sé varla veiðanlegur stofn. Ég tel að miðað við þær upplýsingar komi vel til álita að banna veiðar á rjúpu frekar en verið hefur. Það mætti gera með mismunandi hætti. Það mætti stytta tímann sem veiðarnar eru leyfðar en samkvæmt frv. er heimilt að leyfa veiðar frá 15. okt. til 22. des. Það mætti stytta það tímabil. Það má gera með tvennum hætti, annaðhvort stytta þann tíma framan frá, þ.e. að byrja veiðar síðar eða stytta hann aftan frá þannig að veiðunum ljúki fyrr en 22. des., t.d. 1. des. Þetta er atriði sem ég tel nauðsynlegt að skoða gaumgæfilega og að hv. nefnd

verði að gæta að ástandi stofnsins þegar hún gengur frá þessu ákvæði greinarinnar.
    Ég vil svo að lokum taka undir það að nokkru leyti sem fram hefur komið sem nokkur gagnrýni á frv., þó þar sé margt ágætlega gert, að það er of mikið ófrágengið. Það er of mikið í frv. sem ætlað er öðrum en löggjafanum að ganga frá. Eins og kemur fram í grg. með frv. á bls. 10 er gert ráð fyrir að settar verði reglugerðir um ein 12 atriði sem eru upp talin. Það er við 5. gr., við þrjú atriði í 7. gr., við 8., 11., 12., 13., 14., 16., 18. og 19. gr. Þetta er óhemjumikið reglugerðarvald sem umhvrh. er fært í þessu frv. og of margar ákvarðanir að mínu mati sem löggjafinn framselur til framkvæmdarvaldsins. Ég er ekki með því að víkja að núv. ráðherra heldur er þetta almennt sjónarmið sem ég hef varðandi löggjöf. Ég tel að hún eigi að vera nákvæmari og betur frá gengin og eins lítið og hægt er að komast af með af reglugerðarheimildum. Mér þykir frv. þannig frá gengið að í því eru allt of mikið af atriðum sem öðrum er ætlað að ljúka.
    Að öðru leyti ætla ég að spara mér frekari umræðu um þetta frv. að sinni og læt máli mínu lokið, virðulegi forseti.