Hjúskaparlög

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 13:40:22 (6322)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta allshn. um frv. til hjúskaparlaga á þskj. 742, sem er 273. mál þingsins. Jafnframt er mælt fyrir brtt. á þskj. 743. Nál. er undirritað af Sólveigu Pétursdóttur, Sigbirni Gunnarssyni, Birni Bjarnasyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni og Jóni Helgasyni, en fjarstaddir afgreiðslu málsins voru þeir Ingi Björn Albertsson og Ólafur Þ. Þórðarson.
    Frv. þetta hefur verið til meðferðar í nefndinni öðru sinni. Sifjalaganefnd sá sem fyrr um samningu frv. og tók hún tillit til margra ábendinga sem bárust frá umsagnaraðilum á 115. löggjafarþingi. Allshn. tókst ekki að ljúka meðferð málsins á því þingi.
    Með þessu frv. til hjúskaparlega er lagt til að steypt verði í einn lagabálk ákvæðum þeirra laga sem nú eru í gildi á þessu sviði, þ.e. lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, og lögum nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, en þeim lagabálkum var báðum breytt þann 26. maí 1992 með lögum nr. 39/1992. Þá voru ýmis ákvæði frv. sem mælt var fyrir í apríl 1992 felld í þau lög af tilefni aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði þann 1. júlí sama ár. Auk þess voru felld í lögin nokkur ákvæði sem fólu í sér verulegar réttarbætur.
    Frv. er bundið við hjón í skilningi sifjaréttarins, þ.e. þegar karl og kona hafa verið gefin saman í hjúskap þannig að lágmarksskilyrðum um gildi hjónavígslu sé fullnægt. Það tekur því ekki til óvígðrar sambúðar og heldur ekki til samninga samkynja manna um sambúð, enda er það skoðun nefndarinnar að lög um þau efni, ef sett verða, eigi að vera í sérstökum lögum.
    Hæstv. forseti. Í athugasemdum með frv. er lýst ítarlega þeim breytingum sem í því felast frá núgildandi lögum. Ég ætla því einungis að gera grein fyrir því hvaða helstu breytingar felast í frv. í stuttu máli.
    Í I. kafla frv., sem fjallar m.a. um jafnstöðu og verkefnaskiptingu hjóna, segir í 2. gr. að hjón séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og er með þessu lagt til að afnuminn verði sá munur á lagastöðu karla og kvenna sem er að finna í núgildandi lögum um réttindi og skyldur hjóna.
    Í II. kafla frv., um hjónavígsluskilyrði, er lagt til að fækkað verði hjúskapartálmum frá núgildandi lögum. Þar er m.a. lagt til að hjúskapartálmar er lúta að hjúskap andlega fatlaðra manna falli niður, svo og tengdra manna.
    III. kafli frv., um könnun á hjónavígsluskilyrðum, geymir nokkru fyllri reglur um þetta efni en er í núgildandi lögum, en felur ekki í sér umtalsverðar breytingar á þeim, enda þykja þær hafa reynst vel.
    Í IV. kafla frv., um hjónavígslu, eru ákvæði um borgaralega og kirkjulega hjónavígslu, hverjir framkvæma hana og hvar og hverjum sé kræf borgaraleg hjónavígsla.
    V. kafli frv., um ógildingu hjúskapar, er nánast óbreyttur frá núgildandi lögum en ógilding á hjúskap er svo til óþekkt hér á landi.
    Um hjónaskilnaði er fjallað í VI. kafla frv. en ákvæði hans voru mörg lögfest með lögum nr. 39/1992, þ.e. 33., 34., 36., 37., 41., 43. og 44. gr. frv.
    Mikilvægt nýmæli er að finna í 40. gr., en þar er fjallað um líkamsárás eða kynferðisbrot annars hjóna sem bitnar á hinu eða barni sem hjá því býr. Ákvæði mælir fyrir um lögskilnaðarástæður sem miðast við að annar maki beiti hinn ofbeldi eða gerist sekur um ósæmilegt atferli af kynferðistoga gagnvart börnum sem búa hjá hjónum. Ef um slík tilvik er að ræða getur hitt hjóna þegar krafist lögskilnaðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ákvæðinu hefur verið breytt frá fyrra frv. og greint sérstaklega frá hvoru tilviki fyrir sig, líkamsárás og kynferðisbroti. Þess má geta að norsk og dönsk lög kveða á um líkamsárás sem lögskilnaðarástæðu en þar er ekki kveðið á um kynferðisbrot.
    Í 42. gr. er fjallað um sáttaumleitanir og eru þar nokkur nýmæli, þ.a. það að ekki sé skylt að leita sátta með hjónum um framhald hjúskaparins nema þau hafi forsjá fyrir ósjálfráða börnum. Þegar svo hagar til mælir tillit til barnanna með skyldubundnum sáttatilraunum. Þegar yngri börnum en 16 ára er ekki til að dreifa þykja ekki vera rök til að þvinga hjón til sáttaumleitana. En ég legg áherslu á það að hjón eiga þess ávallt kost að leitað sé um sættir með þeim þegar þau hafa ákveðið að leita skilnaðar eins og beint kemur fram í 1. mgr. 42. gr.
    VII. kafli frv. geymir einkaréttarreglur um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldunnar. Í kaflanum eru sameinuð ákvæði um framfærsluskyldu hjóna, bæði meðan á hjúskap stendur og eftir skilnað. Í kaflanum eru ekki veruleg nýmæli frá gildandi rétti en ákvæðin eru um margt einfaldari en núgildandi lagareglur.
    VIII. kafli frv. veitir yfirlit yfir eignir í hjúskap og til leiðbeiningar. Þar eru nokkur nýmæli. Taldar eru upp í 53. gr. þær eignir sem um er að ræða og í 55. gr. er kveðið á um það hvernig séreign geti myndast.
    Í IX. kafla frv., um forræði maka á eignum sínum, eru ekki nýmæli í fyrri þætti kaflans, um almenn ákvæði, en í síðari þættinum, um takmarkanir á forræði maka yfir eignum sínum, er fjölskyldunni veitt ríkari vernd gegn ráðstöfunum maka á fasteign sem fjölskyldan býr í en er í núgildandi lögum og einnig gegn ráðstöfunum maka á innbúi á sameiginlegu heimili hjóna og fleira. Loks er ákvæði í 67. gr. um heimild til riftunar á gjöf maka til þriðja manns nýmæli. Um þennan kafla er fjallað sérstaklega í nál. meiri hluta og segir þar, með leyfi virðulegs forseta:

    ,,Skv. 60. gr. þarf skriflegt samþykki maka til ráðstöfunar á fasteign sem ætluð er sem bústaður fyrir fjölskylduna eða fyrir sameiginlegan atvinnurekstur þeirra. Í 64. gr. segir að sé óskað þinglýsingar á löggerningi skv. 60. gr. þurfi skjalið að geyma yfirlýsingu um hvort sá er skjal stafar frá sé í hjúskap og ef svo er, hvort eign sé bústaður fjölskyldu hans eða notuð við atvinnurekstur hjóna. Ákvæðið er nýmæli. Í nefndinni urðu umræður um hvort beita ætti réttarúrræðum ef ákvæðum 64. gr. væri ekki sinnt. Í þessu sambandi er rétt að benda á ákvæði 2. mgr. 64. gr. og 2. mgr. 133. gr. þar sem ráðherra er veitt heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Enn fremur er bent á ákvæði 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, þar sem kveðið er á um vísun skjals frá þinglýsingu. Loks var rætt allnokkuð í nefndinni um hversu betur hjón væru sett ef bæði væru skráð sem þinglýstir eigendur að fasteign.``
    Í þessu sambandi er rétt að athuga það að meiri hluti nefndarmanna telur ekki rétt að breyta því eignafyrirkomulagi sem gildir hér á landi og á Norðurlöndum. Það hljóti að vera í valdi hjónanna sjálfra að ákveða hvernig þau skrá eignaraðild og fara með sínar eignir, enda skiptast eignir til helminga við skilnað.
    Í X. kafla frv., um skuldaábyrgð hjóna, er safnað saman dreifðum ákvæðum um þetta efni í lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, en meginreglurnar eru óbreyttar. Afnumin eru ákvæði gildandi laga sem mismuna hjónum með einum eða öðrum hætti enda samrýmast þau ekki jafnréttisviðhorfum nútímans.
    Í XI. kafla greinir frá samningum milli hjóna, þar á meðal séreignum samkvæmt kaupmála. Í kaflanum eru einnig reglur um aðrar séreignir, t.d. vegna fyrirmæla gefanda eða arfleiðanda. Helstu nýmæli um kaupmála eru þau að þar er lagt til að unnt sé að ákveða með kaupmála að venjulegt innbú á sameiginlegu heimili hjóna sem aflað er eftir gerð kaupmála verði séreign og unnt verði að tímabinda kaupmála og skilyrða þá, t.d. þannig að kaupmáli hafi ekki lengur gildi ef hjón eignast sameiginlegan skylduerfingja.
    Um hæfi til kaupmálagerðar, form kaupmála og reglur um skráningu og fleira er fjallað í XII. kafla.
    Um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar er fjallað í XIII. kafla frv. og eru ákvæðin lítið breytt frá gildandi lögum.
    Um fjárskipti vegna hjúskaparslita eru reglur í XIV. kafla og gætir þar ýmissa nýmæla. Má nefna ákvæði 101. gr. er fjallar um það við hvaða tímamark skuli miða eignir og skuldir er til skipta koma. Enn fremur gætir nýmæla í 102. gr. þar sem kveðið er á um verðmæti sem falla utan skipta samkvæmt kröfu maka.
    Rétt er að benda á það að ef ósanngjarnt þykir að ákveðnum verðmætum sé haldið utan skipta er heimilt að bæta maka það með fjárgreiðslum. Hér gætu t.d. lífeyrisréttindi komið til athugunar. Þá er rýmkuð heimild til frávika um helmingaskiptaregluna í 103. gr. frv. sem eftir sem áður er meginregla um fjárskipti milli hjóna.
    Í XV. kafla eru reglur um réttarfar í hjúskaparmálum og í XVI. kafla eru ákvæði um meðferð og úrlausn fyrir stjórnvöldum en þau ákvæði voru lögfest með lögum nr. 39/1992.
    Í XVII. kafla eru loks ákvæði um gildistöku laganna sem lagt er til að verði þann 1. júlí n.k. lagaskil og brottfallin lög.
    Hæstv. forseti. Allshn. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er eftirfarandi grein fyrir á sérstöku þskj. Í fyrsta lagi er lagt til að 16. og 17. gr. verði breytt þannig að í þeim verði kveðið á um skráð trúfélög sem þykir nákvæmara þótt greinarnar hefðu vafalaust verið túlkaðar með sama hætti þó þessi breyting hefði ekki komið til. En samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975, verða trúfélög að verða skráð til að prestar þeirra eða forstöðumenn geti framkvæmt embættisverk þar á meðal hjónavígslu.
    Í öðru lagi er lagt til að tilvísun í 2. mgr. 43. gr. verði lagfærð og loks er lagt til að orðalagi 2. mgr. 69. gr. verði breytt til að gera það þjálla.
    Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að mæla fyrir áliti meiri hluta allshn. varðandi frv. til nýrra hjúskaparlaga. Þar sem frv. þetta geymir reglur sem snerta með einum eða öðrum hætti flesta landsmenn og felur í sér umtalsverðar réttarbætur er það von mín að málið fái góðar móttökur og verði afgreitt sem lög frá hinu háa Alþingi svo fljótt sem verða má.