Hjúskaparlög

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 13:53:34 (6324)

     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta allshn. á þskj. 768. Undir það ritar auk mín Kristinn H. Gunnarsson.
    Mikil umræða hefur verið um málið í allshn. og þótt nefndarfólk allt styðji þetta frv. vegna ýmissa jákvæðra atriða sem er að finna í því, svo sem afnámi mismununar milli hjóna, þá hafa þrátt fyrir það verið allskiptar skoðanir um einstök efnisatriði frv. Ég rek þau helstu í nál. og vil auk þess bæta við nokkrum athugasemdum við aðrar greinar frv.

    En ég byrja þá á því sem tiltekið er hér í nál. og fylgt eftir í brtt.
    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar á tveimur þingum og fjallað ítarlega um það. Minni hluti nefndarinnar styður þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu á milli þinga og breytingartillögur meiri hlutans en þar er nánast eingöngu um minni háttar lagfæringar að ræða. Minni hlutinn styður efni frumvarpsins í meginatriðum en flytur breytingartillögu við tvær greinar frumvarpsins.
    Eðlilegt verður að telja að steypa lögum nr. 60/1972 og nr. 20/1923 saman í einn bálk og sömuleiðis að fella inn í hann lög nr. 39/1992 er einkum vörðuðu breytingar á ákvæðum laga um hjúskap vegna þeirrar stjórnkerfisbreytingar sem gerð var á sl. ári.
    Fyrri breytingartillaga minni hlutans er við 40. gr. frumvarpsins. Lagt er til að 1. mgr. greinarinnar endi á orðunum ,,krafist lögskilnaðar`` og niðurlag málsgreinarinnar falli brott. Þetta er ekki að ástæðulausu. Í þessum orðum eða setningum þar sem lagt er til að felldar séu úr er leitast við að skilgreina hvers konar ofbeldi telst nógu alvarlegt til að heimila lögskilnað án tafa. Ofbeldi er alltaf alvarlegt og því er slík flokkun óþörf og óæskileg. Í skýringum við greinina stendur m.a.: ,,Um líkamsárás er hér miðað við að hún sé allalvarleg . . . `` Enn fremur segir: ,,Minni háttar líkamsmeiðingar falla utan marka ákvæðisins.`` Flokkun ofbeldis í ,,minni háttar`` og ,,meiri háttar`` er bæði erfitt matsatriði og gæti vakið þá hugsun að stundum sé ofbeldi ekkert sérlega alvarlegt. Undir slíkt getur minni hlutinn engan veginn tekið. Hins vegar styður minni hlutinn þá breytingu, sem gerð hefur verið á frumvarpinu frá upprunalegri gerð þess, að taka sérstaklega fram að í 40. gr. sé bæði átt við kynferðislegt ofbeldi og annað ofbeldi.
    Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu, m.a. er varða sameiginlega ábyrgð hjóna á heimilishaldi, eignum og skuldbindingum. Þau styður minni hlutinn en telur of skammt gengið. Rétt hefði verið að kveða á um samráð hjóna hvað varðar aðrar fjárhagslegar skuldbindingar en veðsetningu eigna þeirra, sbr. 61. og 62. gr. frumvarpsins. Um það náðist hins vegar ekki samstaða í nefndinni. Verði þetta frumvarp að lögum óbreytt mun það t.d. merkja að ef annað hjóna er skráð fyrir fasteign getur það tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar, svo sem með því að skrifa upp á lán, án vitundar eða samþykkis hins. Kröfuhafar geta gengið að eigninni til greiðslu slíkrar skuldar án þess að það hjóna, sem ekki er skráð fyrir fasteigninni, geti rönd við reist. Þetta er óbreytt frá núgildandi lögum en minni hluti allsherjarnefndar telur það allsendis óviðunandi að annað hjóna geti skert hjúskapareign hins með því að gangast í ábyrgð fyrir aðra. Gildir þá einu hvort jafnslæm ákvæði eru í lögum nú eins og áður. Fram kom hjá fulltrúum dómsmálaráðuneytis o.fl. að ákvæði 59. gr. frumvarpsins um tilhlýðilega meðferð á hjúskapareign gerðu slíkt athæfi ekki ólöglegt. Er það út af fyrir sig íhugunarefni. Því er nauðsynlegt að gera eitthvað til að bæta þarna úr. Minni hluti allsherjarnefndar ákvað að fara þá leið að flytja breytingartillögu við 54. gr. laga til að tryggja að hjón væru bæði skrifuð fyrir allri hjúskapareign þannig að annað þeirra gæti aldrei ráðstafað meiru en sínum helmingi hjúskapareignar. Tillagan er á þskj. 762 (2. liður). Minni hlutinn leggur til að greinin orðist svo: ,,Eign maka verður hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars og skal skrá hana á nöfn beggja. Á þetta við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hverjum hætti eignar er aflað að lögum.`` Þannig líkur þá greininni með þessari breytingu.
    Í umræðum um frumvarpið í allsherjarnefnd komu upp nokkur álitamál en minni hlutinn lætur að sinni nægja að flytja þær tvær breytingartillögur sem á undan eru nefndar. Reynslan mun án efa skera úr um hvernig lögin reynast, bæði þau nýmæli sem í þeim er að finna og eldri ákvæði sem misjafnlega vel hefur gengið að framfylgja.
    Undir nál. ritar auk mín Kristinn H. Gunnarsson.
    Ég vík þá að öðrum athugasemdum við frv. og skýringum að hluta til við þær brtt. sem hér hafa verið kynntar. Ef litið er á frv. í heild þá ber það þess merki að varlega hefur verið farið í að breyta gildandi lögum og jafnframt að verið er að samræma norræn lög um hjúskap. Varfærnin er að mínu mati of mikil, t.d. í því dæmi sem ég nefndi hér á undan þegar kemur að upplýsingaskyldu hjóna um fjárhagsskuldbindingar. Vissulega var hægt að fara fleiri en eina leið til að bæta þarna úr. En það er rétt að láta á það reyna hér í þinginu hvort ekki er hægt að ná samstöðu um þá brtt. sem við í minni hlutanum flytjum.
    Það kemur líka glöggt fram að við samræminguna við önnur lög um hjúskap á Norðurlöndum hefur þurft að velja um leiðir. Það má nefna það t.d. að í norsku lögunum er gengið mun lengra í því að skylda hjón með börn til að reyna sættir áður en til skilnaðar kemur heldur en kemur fram í þessu frv., þ.e. í 42. gr. Í Noregi er hafður sá háttur á að hjón með börn koma á fjóra fundi með fjölskylduráðgjafa til að leita sátta og ekki síður að ræða ágreiningsefni. Það er mat fagfólks að það að setjast niður og ræða ágreiningsmál með stuðningi frá sérmenntuðu fólki geti ekki einungis leitt til sátta í einhverjum tilvikum heldur oft og tíðum létt mjög eftirmál skilnaðarins og rauninni gert það auðveldara að ná góðri og ásættanlegri niðurstöðu ef til skilnaðar kemur.
    Hér á landi hefur aðeins einn aðili skipulega fjölskylduráðgjöf með höndum en það er sú fjölskylduráðgjöf sem starfar á vegum kirkjunnar. Þar eru biðlistar langir og bið löng enda mikil eftirspurn eftir þjónustunni. En jafnframt er þar um að ræða ráðgjöf sem mjög líklega höfðar fyrst og fremst til fólks sem er í þjóðkirkjunni. Aðrir hafa ekki í nein hús að venda eins og sakir standa nema e.t.v. að leita til sérfróðs fólks á eigin kostnað og með ærinni fyrirhöfn því það liggur hreint ekki á lausu hvert á að leita í slíkum tilvikum. Vissulega er ég ekki að gera lítið úr þeirri ráðgjöf og þeim sáttum sem prestar í einstökum sóknum veita en þeir eru misjafnir eins og þeir eru margir. Þótt bætt hafi verið mjög um betur í menntun presta að undanförnu þá er auðvitað alveg ljóst að menn fara ekki í prestskap fyrst og fremst til að læra að sætta fólk ef skilnaður blasir við. Það sem ég er að benda á er að við erum ekki að bjóða þar upp á kost sem hentar öllum og við erum ekki að bjóða upp á að allir landsmenn sitji við sama borð. Eflaust er það ekki hægt að öllu leyti en það má áreiðanlega gera mun betur en nú er gert.
    Þessi skortur á skipulegri fjölskylduráðgjöf er einkenni á íslensku samfélagi og skemmst er að minnast þess að á síðasta ári voru samþykkt ný barnalög sem í voru ákvæði sem útheimta mun öflugri ráðgjöf en nú er að fá. Í þeim lögum er langt á milli markmiða og veruleika. Og ábyrgðinni á því að veita sómasamlega fjölskylduráðgjöf var í þeirri umræðu meira og minna varpað á þjóðkirkjuna. Þar á bæ hafa menn reynt að bregðast við eftir mætti en hvort tveggja er að þangað leita áreiðanlega ekki allir sem þyrftu á góðum upplýsingum að halda og ráðgjöf og hitt að ráðgjöf vegum kirkjunnar getur aldrei höfðað til allra hversu vel sem annars til tekst eins og ég gat um áðan.
    Í þessu frv. nú er eins og í barnalögunum mikil ábyrgð lögð á herðar fulltrúa hjá sýslumönnum. Vissulega óskar maður þess að þeir verði í stakk búnir til að veita slíka ráðgjöf en við höfum nú þegar reynslu af öðrum lögum, þ.e. barnalögunum, og hún er áreiðanlega í einhverjum tilvikum góð en ég veit því miður einnig dæmi þess að það sem átti að vera hlutlaus ráðgjöf um forræði eða forsjá með barni reyndist vera einhliða áróður með einni leið í því máli og skapaði fleiri vandamál en hún leysti. Því er augljóst að það verður að standa betur að þessum málum í framtíðinni en gert er nú. Ekki bara sums staðar heldur alls staðar. Og vissulega vekur þetta einnig spurningar um það hvernig starfsfólk sýslumanna er í stakk búið til að taka við því vandasama hlutverki sem því var falið með barnalögunum og nú einnig með þessu frv. Það þarf að fara með gát og ég tel ástæðu til að hvetja hæstv. dómsmrh., sem því miður heyrir nú ekki mál mitt hér, en ég verð þá að gera það persónulega að koma þeim ábendingum á framfæri, það verður að hvetja hann til þess að beita sér fyrir því að það verði leitað grannt eftir áliti íslensks fagfólks áður en reglugerðin verður sett um sáttaumleitanir, sbr. 42. gr. Það væri ekki úr vegi að leita einnig upplýsinga um reynslu t.d. Norðmanna af þeirri aðferð sem þeir nota, þ.e. að halda nokkra fundi með hjónum áður en til skilnaðar kemur. Þetta stangast e.t.v. dálítið á við það sem er helsta nýmæli með þessari grein en það er það að fellt er niður að leita þurfi sátta með hjónum nema börn séu í spilinu. En umræðan er engu að síður fullgild. Ég held að það sé þá alla vega ástæða til að líta vel á þær fjölskyldur þar sem börn eru innan við 16 ára aldur og taka svolítið mið af því að kannski göngum við of skammt í því að veita fólki stuðning. En það dugar auðvitað ekki bara að veita góða ráðgjöf, það er líka hverra kosta er völ ef það vantar beinlínis stuðning, t.d. félagsleg úrræði, og þar erum við komin út í mál sem eru hreint smánarleg hér á Íslandi.
    Ég sé ástæðu til að benda á að þótt verið sé að samræma lög Norðurlanda þá hefur sums staðar á Norðurlöndum verið gengið lengra í löggjöf heldur en gert er í þessu frv. og nægir að nefna það að samkvæmt dönskum lögum eru hjónabönd samkynhneigðra t.d. leyfð. Hv. frsm. meiri hluta allshn. benti á að e.t.v. væri eðlilegt að fara aðra leið í þeim efnum og skal ég ekki fella dóm um það en ég vil benda á að þessi samræming er ekki bara hrein og klár samræming því að slíkt er ekki hægt heldur einnig val á leiðum.
    Það er nú ekki síst ástæða til að geta þess hér á tímum hinnar miklu og víðtæku samræmingar sem Íslendingar eru nú að ganga í gegnum þar sem haft hefur verið á orði að Íslendingar væru stundum kaþólskari en páfinn og gleymi sérstöðu sinni í ákafanum við að samræma. Ég segi þetta ekki síst að gefnu tilefni vegna þess að nú eru Íslendingar að hamast við að samlagast Evrópu með því að setja ítarleg lög, t.d. um ferjusiglingar á ám og vötnum og lestasamgöngur, og hafa þar gengið í mörgum efnum töluvert lengra en aðrar þjóðir í Evrópu. En það er ekki síður vegna annarra ákvæða, t.d. í 40. gr., sem ég geri þetta að umtalsefni.
    Það vill þannig til að ein helstu rök fyrir því að gerður er greinarmunur á ,,minni háttar ``og ,,meiri háttar`` ofbeldi í þessari grein eða a.m.k. í skýringum við hana er það að svona er þetta annars staðar á Norðurlöndum. Og það er meira að segja talið okkur til tekna að við göngum ívið lengra en þar er gert með því að viðurkenna að kynferðislegt ofbeldi sé líka ofbeldi. Ég segi nú bara þakka skyldi, ég hélt að umræðan hér á landi væri þó komin það langt að við þyrftum ekki að líta á það sem neina sérstaka rausn af okkar hálfu, ekki einu sinni í löggjöf, að leggja ofbeldi að jöfnu, allt ofbeldi. Ég get hins vegar alls ekki sætt mig við að það séu rök fyrir því að einungis sé ástæða til að flýta skilnaði ef ofbeldi er gróft. Og síst eru það rök ef menn annars staðar á Norðurlöndum eru enn svo vitlausir að halda að hægt sé að skipta ofbeldi á þennan hátt niður í lítils háttar og mikils háttar ofbeldi. Það er einmitt einkenni alvarlegs ofbeldis að stundum getur það verið ótrúlega dulið og jafnframt mjög alvarlegt. Það getur verið mjög mikil ástæða til að skera alveg á tengsl milli hjóna ef um ofbeldi er að ræða strax, þannig að það verði engin eftirmál og taka þann trúanlegan sem beittur er ofbeldi. Ég held að þau mýmörgu mál sem komið hafa til kasta Kvennaathvarfsins og Stígamóta segi þá sögu í þessum efnum sem segja þarf. Enda er það engin tilviljun að í umsögnum frá Kvennaráðgjöfinni og Stígamótum var þessi grein sérstaklega gerð að umtalsefni. Og ég tek það fram að ég er fegin því að það var tekið af skarið og þessari gein var breytt að hluta til í rétta átt.
    Þótt túlka megi 40. gr. óbreytta á þann hátt að hún feli í sér allt ofbeldi þá held ég að sé tryggara að gera þær breytingar á henni sem við í minni hluta allshn. leggjum til, svo mat fórnarlambsins verði nægjanleg skilgreining á ofbeldinu og menn fari ekki að fara út á þann hála ís að vega og meta stærð marbletta eða telja beinbrot áður en þeir viðurkenna að um ofbeldi er að ræða. Því miður er það ekki að ástæðulausu sem ég nefni þetta því það hefur viljað brenna við að ekki eru allir reiðubúnir til þess að viðurkenna jafnvel hið augljósasta ofbeldi.
    Ég vil ítreka það enn og aftur að það gerir enginn að gamni sínu að reyna að flýta lögskilnaði ef um ofbeldi er að ræða. Fyrir slíku eru yfirleitt meira en ærnar ástæður. Ég held ég geti sagt hikstalaust alltaf.
    Ég mun örlítið víkja að einstökum greinum frv. hér á eftir en ég held að það sé ástæða til þess áður en ég fer út í það að vekja athygli á því hversu ólík réttarstaða hjóna og sambúðarfólks er. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega er ekki endilega sú að mér finnst það svo neikvætt, heldur hin að það er mjög algengt að fólk telji að réttarstaðan sé sú sama hvort sem um óvígða sambúð er að ræða eða hjónaband. Úr þessu þarf að bæta og ég vil vekja athygli á þáltill. sem flutt var á síðasta þingi um miðlun upplýsinga um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Ragnhildur Eggertsdóttir flutti þessa tillögu og aðrar þingkonur Kvennalistans voru meðflutningskonur.
    Mig langar að ítreka það sem sagt var í grg. með tillögunni en þar var m.a. verið að fjalla um í hverju þessi munur er fólginn og vil ég fá að geta þess lauslega sem mér þykir ástæða til að hafa til hliðsjónar. Með leyfi forseta þá ætla ég að nýta mér þá greinargóðu samantekt sem þar kemur fram, en þarna segir m.a.:
    ,,Algengt er að upp komi vandamál í sambandi við eignalegan og fjárhagslegan rétt fólks við sambúðarslit eða andlát annars aðila í vígðri eða óvígðri sambúð. Við slíkar aðstæður kemur oft í ljós að það sem fólk hélt að væri réttur þess er það alls ekki. Þessar ranghugmyndir sem á lagamáli eru kallaðar ,,lögvilla`` eru sennilega til komnar vegna nokkurra lagaákvæða sem til eru um óvígða sambúð og snerta tryggingalög, skattalög og lög um húsaleigusamninga. Í þeim lögum er sambúðafólki áskilinn réttur til bóta frá Tryggingastofnun hafi sambúð varað í a.m.k. tvö ár eða hafi sambúðarfólk átt barn saman. Raunveruleikinn er hins vegar sá að ef fólk í óvígðri sambúð hefur ekki gert skriflega lögformlega samninga sín á milli um eignir eða erfðaskrá getur sá sem skrifaður er fyrir eignunum farið með þær sem sína eign við sambúðarslit og ef um andlát er að ræða ganga eignir hins látna til lögerfingja hans sem er þá ekki sá sambúðaraðili sem eftir lifir. Fólki, sem býr í óvígðri sambúð, verður einna helst líkt við tvo aðila sem stofna með sér fyrirtæki, fjárfesta í fasteignum og tækjum og stofna til skulda. Þegar slíta á fyrirtækinu verður hvor um sig að sanna sitt fjárframlag og gera grein fyrir sinni skuldastöðu.``
    Á þennan mun á vígðri og óvígðri sambúð var bent í nokkrum umsögnum um frv. og ég tel fulla ástæðu til þess að geta þess hér þótt það varði ekki beinlínis ákveðin ákvæði hjúskaparlaga. Það var einmitt af þessari ástæðu sem skorað var á dómsmrh. að láta gera fræðslubækling um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð en það var efni þessarar tillögu.
    Ég leitaði upplýsinga um hvort eitthvað væri að gerast í þessu máli er ég var að undirbúa nál. í þessu máli og eftir því sem ég kemst næst þá er verið að vinna að útgáfu fræðsluefnis í framhaldi af setningu barnalaganna í fyrra og þessa frv., ef að lögum verður, og er full ástæða til að ætla að styttist í það.
    Það var hins vegar erfiðara að fá upplýsingar um það hvað nákvæmlega mundi vera kynnt í þessum bæklingi og enn erfiðara að fá að vita hvernig honum yrði dreift. Það er vissulega ekki hægt að gera sér grein fyrir því að hve miklu gagni slíkur bæklingur mun koma. Það yrði e.t.v. full ástæða til þess að þarna yrði um handbók að ræða og það yrði farið út í það að kynna ungu fólki, t.d. í framhaldsskólum, þessi mál og jafnvel enn nýtilegra heldur en að þekkja nöfn á ám í Rússlandi með fullri virðingu fyrir ám í Rússlandi.
    Í slíkum bæklingi eða handbók þá þyrftu að koma fram ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur í hjúskap, um hjónaskilnaði og forsjá barna. Ég vil enn fremur vekja athygli á því frv. sem við kvennalistakonur endurfluttum á síðasta þingi um skilnaðarráðgjöf en það frv. og frv. fyrrv. dómsmrh. um opinbera réttaraðstoð fól í sér mun betri þjónustu ef til hjónaskilnaðar kemur heldur en nú er boðið upp á.
    Ég hef þegar spurt hæstv. núv. dómsmrh. hvort hann hyggist endurflytja frv. um opinbera réttaraðstoð en því miður mun svo ekki vera og því mun væntanlega koma til kasta okkar þingmanna á endanum að reyna að hafa frumkvæði til að bæta þar úr brýnni þörf.
    Ef ég vík þá lítillega að nokkrum greinum þessa frv. sem ýmist fela í sér breytingar sem erfitt er að sjá fyrir hvernig muni reynast eða greinar sem eru í núgildandi lögum og einhver misbrestur hefur orðið á framkvæmd á, þá held ég að ég byrji á 10. gr. frv. Ég vil taka það fram að eftir því sem kom fram í vinnu nefndarinnar á að nota tækifærið með setningu þessara laga og gera átak í því að framfylgja þeim ákvæðum sem hafa verið í lögum betur en gert hefur verið og vonandi mun reynslan sýna okkur að það verði gert. En það er hægt að hafa ákveðnar efasemdir um mannafla og fjármagn sem ýmsar stofnanir og ráðuneyti hafa, t.d. til kynningar. En ég gat þó fyrst um 10. gr. frv. og þar er ég hrædd um að dugi hvorki fjármagn né annað heldur þarf bara hreinlega að ræða siðferðileg mál í því sambandi. En í þessari 10. gr. er ákvæði um það að kjörforeldri og kjörbarn megi ekki giftast hvort öðru nema ættleiðing falli niður. Því er haldið fram að tæplega muni nokkurn tímann til þess koma að þessu ákvæði verði beitt og ekki kom það fram í nefndinni að á slíkt hefði nokkurn tíma reynt á Íslandi.

    Þetta finnst mér ekki hægt að fullyrða. Það er ekkert í þessari grein sem bendir til þess hverjar framkvæmdir munu verða og ég sé ekki að löggjöf okkar yrði nokkuð snauðari þótt punkturinn yrði settur á eftir orðunum ,,hvort öðru`` þannig að greinin hljóðaði svo: ,,Kjörforeldri og kjörbarn mega ekki giftast hvort öðru.``
    Eins og greinin hljóðar nú þá er ekkert sem segir það að reynslan í framtíðinni verði sú að á hana muni lítt sem ekkert reyna eins og mat þeirra virðist vera sem vilja hafa hana með þessu lagi. Ef ekkert á að reyna á þessa grein hvers vegna þá að vera að bæta því við að fella þurfi niður ættleiðingu?
    Ég held að við stöndum í þessu tilviki frammi fyrir ákveðnum siðferðilegum spurningum sem er full ástæða til að velta fyrir sér. Ég veit að um þetta mál eru skiptar skoðanir og ég held að það sé óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því að sumir telja að það sé nauðsynlegt að hafa þetta í lögum. Ég get ekki útskýrt þau rök þannig að það væri kannski rétt að þeir sem hafa þessa trú, að þetta ákvæði verði að vera í lögunum, útskýri það sjálfir.
    Mig langar til þess að geta þess að í ágætri grein í Dagblaðinu þann 22. apríl 1992 fjallaði Ragnhildur Eggertsdóttir, varaþingkona Kvennalistans í Reykjaneskjördæmi, einmitt um þetta mál og hún varpaði fram þeirri spurningu hvaða skilaboð þessi ákvæði gefi kjörforeldrum um sínar skyldur. Ég held að það sé alveg full þörf á því að við spyrjum okkur þessarar spurningar. Í athugasemdum við greinina er vísað til laga annars staðar á Norðurlöndum og þar kemur fram að þessum málum er skipað með ýmsum hætti á hinum Norðurlöndunum og það hlýtur enn að vekja spurninguna hvers vegna þetta val en ekki annað.
    Mig langar næst að staldra við 33. og 34. gr. laganna þar sem fjallað er um skilnað að borði og sæng en þessar greinar eru báðar mjög stuttar. Með leyfi forseta, þá hljómar 33. gr. svo:
    ,,Nú eru hjón sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng og ber þá að veita þeim leyfi til slíks skilnaðar.``
    Og 34. gr.:
    ,,Maki, sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap, á rétt á skilnaði að borði og sæng.``
    Í fljótu bragði hafa margir skilið þessar greinar svo að það sé nóg að láta í ljósi vilja um skilnað til þess að skilnaður að borði og sæng sé veittur. Það er ekki alveg svo einfalt. Það hjóna sem ekki vill sætta sig við skilnað að borði og sæng getur nefnilega tafið fyrir framvindu mála með því að samþykkja ekki skilnað að borði og sæng og þá kemst í rauninni 34. gr. ekki í framkvæmd fyrr en málið hefur farið fyrir dómstóla. Þetta er leið sem er vissulega fær og talað hefur verið um það enn og aftur, og er mat þeirra sem um málið fjalla í dómsmrn., að þetta eigi að vera bæði greið leið, auðveld og ódýr. Það felst ekki í lagatextanum sjálfum að þetta sé greið leið, einföld eða ódýr. Það segir bara að þarna sé hægt að fá skilnað og það eru dæmi þess að það hjóna sem ekki vill veita skilnað að borði og sæng hafi tafið mál með þessum hætti. Ég veit ekki til þess að þau mál hafi gengið neitt sérlega greiðlega fyrir sig. Við erum enn og aftur að fjalla um hver framkvæmdin verður og hversu vel gengur að fara eftir þeim skilningi sem þeir sem sömdu greinarnar leggja í þessar tilteknu greinar.
    Það er e.t.v. ekki ástæða til þess að svo komnu máli að vefengja að það muni ganga vel og greiðlega að veita skilnað að borði og sæng og að það verði þá tekið tillit til óska þess sem vill skilnað. En ég held samt sem áður að við verðum að fylgjast vel með þessu og ef það mun verða svo að annað hjóna geti tafið skilnað sem hitt vill að verði þá verði hreinlega að endurskoða þessarar greinar.
    Þetta segi ég þrátt fyrir það að ég hafi jafnframt verið að benda á það að full ástæða er til að reyna sættir. Hér er um óskyld mál að ræða. Í sumum tilvikum eru fundir með fagfólki eða öðrum góðum aðilum til þess fallnir að gera mál einfaldari og auðskiljanlegri og hugsanlega að ná sættum. En hinar öfgarnar geta verið þær að það getur verið hlaupin slík kergja í skilnaðarmál að jafnvel þessi skilnaður að borði og sæng reynist torveldur ef annað hjóna þrjóskast við.
    En ég endurtek það, ég ætla ekki að fara að gera neinum upp að það sé verið að loka augunum fyrir ákveðnum vanda, það getur vel verið að þetta muni reynast alveg ljómandi vel og vissulega vona ég það.
    Þetta frv., ef að lögum verður, mun varða marga og þrátt fyrir að nokkuð varlega hafi verið farið í að gera breytingar á gildandi lögum og margt af þessu sé bara endurtekning á því sem þar stendur, þá er engu að síður full ástæða til þess að verja nokkrum tíma í að velta þessum málum fyrir sér og eflaust er þarna eitthvað sem ekki er komið upp á yfirborðið enn þá. Því miður, þrátt fyrir mikla og ítarlega vinnu innan nefndarinnar, geri ég ekki ráð fyrir því að allshn. sjái við öllu né heldur sifjalaganefnd sem ber ábyrgð á texta þessa frv.
    Ég held því að þetta frv., sem frsm. meiri hluta allshn. sagði réttilega að varðaði velflesta Íslendinga, verði að kanna ítarlega, svo og framkvæmd þeirra laga sem væntanlega munu verða úr þessu frv.
    Við getum ekki leyft okkur það að segja endalaust að hlutirnir eigi að vera svona eða hinsegin bara vegna þess að þeir hafa alltaf verið svoleiðis, við getum heldur ekki leyft okkur að segja að allt sé gott vegna þess að það sé svo á Norðurlöndum, heldur verðum við alltaf að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram koma og hvað reynslan kennir okkur.