Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:48:26 (6341)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Eina ferðina enn stöndum við hér og ræðum málefni fæðandi kvenna í Reykjavík eða á landinu öllu. Ég hef stundum spurt mig sjálfa þeirrar spurningar hvernig á því standi að konur skuli með reglulegu millibili nánast alla þessa öld hafa verið í nauðvörn fyrir sómasamlegri fæðingarþjónustu í landinu. Og svarið fannst mér kannski að hluta til fást hér áðan þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. talaði um vandamálið sem margar fæðingar í apríl og maí væru. Vandamálið er auðvitað ekki margar fæðingar í apríl og maí. Vandamálið er hversu illa við erum í stakk búin til þess að taka á móti þeim konum sem ætla að fæða börn í apríl og maí.
    Þetta er enn furðulegra þegar maður hugsar um það hvílíkt frumkvæði konur hafa sýnt í því að byggja upp fæðingarþjónustu og heilbrigðisþjónustu í landinu. Það voru konur sem hófu fjársöfnun fyrir Landspítalann 1915. Það voru konur sem á sínum tíma stóðu að stofnun Fæðingarheimilis Reykjavíkur 1960. Það voru konur sem hófu Landspítalasöfnunina 1969 sem varð til þess að kvennadeildin var opnuð 1976. En síðan kvennadeildin var opnuð 1976 hefur nánast staðið látlaus umræða um það að loka Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar og nú hefur það tekist. Fyrst var tekin fyrsta hæðin, svo var tekin önnur hæðin og svo var allt saman tekið. Þetta var gert í áföngum og það hafa ýmsir komið að því máli og mér er alveg sama, ég nenni ekki að rekja það hverjir hafa komið þar pólitískt að því máli. Það sem máli skiptir er að þessu verði snúið til baka og það verði búið sómasamlega að fæðandi konum í borginni. Heilbr.- og trmrh. sagði í utandagskrárumræðu fyrir ári síðan, sem ég stóð fyrir, að það væri nú svo ágætt að það sem um væri að ræða núna með Fæðingarheimilið þegar það væri flutt yfir til Landspítalans, og reyndar lokað fyrir fæðandi konum þann 1. apríl sl., væri eins og hann sagði: ,,Það sem við erum að tala um hér er að geta veitt sömu þjónustuna fyrir minna fé.`` Þetta var svo ágætt, veita sömu þjónustuna fyrir minna fé. Og hann endurtekur það hér í þrígang. Hann segir: ,,Okkur mun takast í þessu sambandi að veita jafngóða þjónustu fyrir minna fé.`` Þannig er það ekki, hæstv. ráðherra. Það er mun verri þjónusta sem fæðandi konum er boðin núna og það eina sem til varnar getur orðið er auðvitað
að taka Fæðingarheimilið í notkun aftur varanlega, ekki tímabundið.