Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:53:54 (6343)

     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég get nú ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að þegar þetta mál er hér til umræðu sem snertir --- ég vil nú ekki segja vanda, en snertir þúsundir kvenna á Íslandi og börn þeirra þá skuli engir fjölmiðlar láta sjá sig sem svipta hér upp dyrum við mörg tækifæri minni en þetta.
    Hæstv. heilbrrh. talar um að það þurfi að finna annaðhvort skammtímalausn sem felist þá í einhverri tilfærslu innan spítalans eða hugsanlega að taka til hendinni og opna Fæðingarheimili Reykjavíkur aftur. Ég vil skora hann á að sleppa strax öðrum kostinum og vera ekki að leita að skammtímalausnum heldur snúa sér strax að framtíðarlausnum. Það snýst nefnilega ekki bara um það hvort hægt er að flytja til inn á spítalann. Þetta snýst líka um valkosti fyrir konur. Sá valkostur var fyrir hendi á Fæðingarheimili Reykjavíkur og er ekki lengur. Það eru engin rök í málinu að það hafi verið orðið óhagkvæmt að reka Fæðingarheimili Reykjavíkur. Það voru stjórnvaldsaðgerðir sem leiddu til þess að það var óhagkvæmt. Það var ekki starfsfólk Fæðingarheimilisins, það voru ekki konur á Íslandi sem báðu um að Fæðingarheimilið væri sífellt skorið niður á þann máta að til þess leiddi að það varð óhagkvæmt. Það er hægt að reka það þannig að hagkvæmt sé.
    Ég minnist þess að hafa heyrt viðtal við hæstv. heilbrrh. í útvarpi fyrir skömmu þar sem hann var að tala á fundi Alþfl., ég kann nú ekki að greina hvar. Þar gerði hann það að umtalsefni að þegar væri verið að standa að aðgerðum eins og hann hefur staðið að núna í tvö ár að skera niður og leita leiða til sparnaðar, þá færi aldrei hjá því að einhver mistök yrðu. Sjálfur orðaði hann það svo að menn væru menn að meiri ef þeir viðurkenndu mistök sín og leiðréttu þau og ég skora nú á hæstv. heilbrrh. að vera nú strax maður að meiri og leiðrétta mistök.