Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:31:35 (6470)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég heyri það á hv. þm. að hann telur hættuna vera svo mikla og hann sé svo

hræddur í þessu máli að það sé best að hreyfa sig hvergi og sitja bara heima og breiða upp fyrir haus. Það er út af fyrir sig afstaða en ég tel að það sé mjög hættulegt íslenskri þjóð að hafa slíka afstöðu og vera svo hræddur við hvert einasta skref sem menn taka að það er næstum því að menn þora ekki einu sinni að tala við menn. ( HG: Hvernig fór með formanninn, formann flokksins?) Ég bið hv. þm. að hafa áhyggjur af sínum eigin flokki og vera ekki með þessar sífelldu áhyggjur af Kvennalistanum og Framsfl. Það er að vísu mjög ánægjulegt að þingmaðurinn skuli bera svona mikla umhyggju fyrir þessum flokkum en ég lofa mér að efast um það að sú umhyggja sem hann fer með á Alþingi sé mjög einlæg. Ég tel það vera miklu mikilvægara að hann reyni þá að skapa samstöðu í sínum eigin flokki því ég hef ekki skilið formann Alþb. með þeim hætti að hann telji það vera best að breiða yfir haus í þessu máli og hreyfa sig hvergi. Ég man ekki betur en að allir ráðherrar Alþb. hafi staðið að því á sínum tíma að ganga til samninganna um Evrópskt efnahagssvæði og það gerðu þeir og töldu það þjóna íslenskum hagsmunum. En ég man það jafnframt að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi það hættulegt skref. Um það var samstaða en það er ekki sama að menn hafi þá hið sama mat og á niðurstöðunni að því er varðar Evrópskt efnahagssvæði. En þrátt fyrir þetta vænti ég þess að menn geti náð um það samstöðu að biðja um slíkar tvíhliða viðræður og það er mikilvægt að sem flestir geti staðið að því.