Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:02:53 (6473)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa þetta svar langt. Hins vegar fannst mér orðalagið dálítið sérkennilegt á svari ráðherra vegna þess að hann sagði að varðandi Evrópskt efnahagssvæði væri ekki aftur snúið og Evrópskt efnahagssvæði tæki jafnvel gildi fyrir áramót. Mér fannst vera í þessu afskaplega miklir varnaglar. Auðvitað vitum við það að ef Maastricht-samkomulagið verður ekki að veruleika geta öll mál farið upp í loft. En ef við gefum okkur að þróunin verði með þeim hætti að Maastricht verði samþykkt, eru þá einhverjir sem vilja snúa aftur? Af hverju orðar ráðherra þetta þannig að það verði ekki aftur snúið? Eru einhverjir sem vilja snúa aftur og vildu sjá samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði hverfa?