Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:35:31 (6481)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég bendi hæstv. utanrrh. á það að þegar þessi tillaga er lögð fram í desembermánuði sl., þá var engin efi í orðum ráðherrans um að samningurinn mundi taka gildi mjög fljótlega. Það hefur margsinnis verið bent á það hér af þingmönnum að það hljóti að vera eðlilegt að texti þessarar tillögu verði lagaður í meðferð og vinnu þingsins. Ég minni á það að formaður Framsfl. bauðst meira að segja til að draga hana til baka ef hæstv. utanrrh. vildi koma með aðra í staðinn. Ég bendi einnig á að ég mótmæli því mjög harðlega að umræður um stefnumótun varðandi samninga okkar við Evrópu á næstu árum sé eitthvert dægurmál sem menn geti leyft sér að rabba um einn seinni part. Mín orð til hæstv. utanrrh. voru ekki síst í þá veru að það væri nauðsynlegt að sá vilji Alþingis, hvað við ætlum að gera og hvert við viljum þróa þessi mál, komi skýr fram. Alveg á sama hátt og vilji þjóðþinga hinna EFTA-ríkjanna sem eru búin að sækja um hefur nú þegar komið fram á skýran hátt. Þær ríkisstjórnir vinna allar á grunni samþykkta sinna þjóðþinga og þess vegna tel ég fullkomlega rökrétt og nánast sjálfsagt að það liggi einnig fyrir skýr pólitískur vilji Alþingis Íslendinga hvað við viljum gera í framhaldinu. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það að sá vilji liggur þannig að menn vilja þróa þennan samning yfir í tvíhliða samning. Menn hafa einnig margsinnis bent á það hér í umræðunni, hæstv. utanrrh., að tímapunkturinn, hvenær þær viðræður hæfust, væri ekkert aðalatriði.