Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:47:04 (6486)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það eru miklir veikleikar í þeim málflutningi og þeim tillögflutningi sem hér liggur fyrir sem gefur til kynna að menn geti með tiltölulega einföldum hætti komið sér út úr EES-samningi og gert hann að tvíhliða samningi og það sé horfið bara stofnanafrelsið. Þetta er slíkur barnaskapur. En ég lái mönnum það kannski ekki í kastþröng að leggja fram tillögur af því tagi. Halda menn að Evrópubandalagið geri tvíhliða samning við Íslendinga um staðfestingu um það að fría okkur ókeypis frá stofnanaþætti EES-samningsins ef svo færi? Fyrir nú utan það að það er ekkert sem vísar á að það sé það sem muni gerast alveg á næstu árum. Þannig að ábyrgð þingmannsins er mikil.
    Afstaða Alþb. er sú að vera á móti þessum samningi. Og samþykkt Alþb. á síðasta sumri gengur úr á það. Í þeirri samþykkt er hvorki nefnt fjórfrelsi né innri markaður. Og ég get fullvissað hv. þm. um það að ég hef alla fyrirvara varðandi fjórfrelsið og innri markað Evrópubandalagsins og hvernig staðið er að slíku. Það hljótum við að meta ef unnt væri í reynd að taka á málum samningslega við Evrópubandalagið eins og Alþb. hefur lagt áherslu á allan tímann. En hv. þm. og þingmenn Framsfl. í umræðunni um þessa tillögu eru nákvæmlega í sömu sporum og sömu aðstöðu eins og þeir þingmenn Sjálfstfl. ásamt einum fulltrúa Kvennalistans voru í þegar þeir lögðu fram tillögu um tvíhliða viðræður 1998 að mig minnir og utanrrh. svaraði nánast með nákvæmlega sama hætti. Og út af fyrir sig á hann auðveldan leik.