Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:36:09 (6830)

     Frsm. minni hluta iðnn. (Finnur Ingólfsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það ákvörðun hæstv. forseta sem verður að gilda í þessum efnum. Hins vegar er svo ástatt hér núna að tveir hæstv. ráðherrar eru í þingsalnum og það vill svo til að hæstv. iðnrh. er hérna og ég bar fram spurningu til hans áðan varðandi söluna á Sementsverksmiðju ríkisins. Það er mjög bagalegt nú þegar ekki eru nema tveir þingmenn á mælendaskrá að ekki sé hægt að ljúka málinu og fá svör hjá hæstv. ráðherra við einföldum spurningum sem er beint til hæstv. ráðherra í umræðunni. Er það virkilega svo að það eigi núna að rjúfa þessar umræður og ekki verði hægt að fá svör við svo einföldum spurningum eins og þeirri hvort það standi til að selja þennan hlut í Sementsverksmiðjunni eða ekki sem ágreiningur virðist vera um, bæði innan einstakra stjórnarflokka og milli stjórnarflokkanna? Ég trúi ekki öðru, hæstv. forseti, en hægt sé að doka örlítið við.
    Ég veit að hæstv. landbrh. liggur mikið á að komast að og það eru sjálfsagt miklu merkilegri mál sem hann er með til umfjöllunar og þarf að komast að til að mæla fyrir en þetta mál sem þó hefur oft verið til umræðu í þinginu, ætli þetta sé ekki þriðja eða jafnvel fjórða þingið sem þetta mál er til umfjöllunar. Tveir hv. þm. eru enn á mælendaskrá og þá þarf að hlaupa til og rjúfa umræðuna til þess að hleypa hæstv. landbrh. að og meira að segja sú vanvirða höfð hér í frammi að hæstv. iðnrh. er ekki gefið tækifæri til þess að svara einfaldri spurningu sem ég veit að hann þarf ekkert að hugsa sig um.