Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 13:59:47 (6997)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð í þessa umræðu um frv. til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi mínum við vissa þætti þessa frv. Það lætur kannski ekki mikið yfir sér, er ekki mikið að vöxtum og aðeins sjö greinar, en í því eru ákvæði um að skipa Fasteignamati ríkisins stjórn og gera stofnunina að B-hluta stofnun. Þetta held ég að sé til bóta og tel að það mætti vera svo með fleiri stofnanir sem heyra að öðru leyti undir ríkið svo lengi sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekist að koma einkavæðingaráformum sínum svo fram að allar opinberar stofnanir séu annaðhvort hlutafélög eða hreinlega seldar. Meðan ríkið hefur þó með stofnanir að gera að einhverju leyti tel ég ekki óeðlilegt að fleiri komi að stjórnum þessara stofnana en forstöðumaður einn og viðkomandi ráðherrar og að stofnunum sé sett stjórn. Það tel ég rétt skref sem hér er tekið og auki út af fyrir sig sjálfstæði stofnananna og fleiri sjónarmið koma að við rekstur þeirra, uppbyggingu og skipulag.
    Hins vegar er hér annað ákvæði í frv. sem ég hefði viljað spyrja ráðherra aðeins nánar út í og fylgja eftir spurningum sem komið hafa fram hjá þeim hv. þm. sem hafa talað á undan. Það er gjaldtakan fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir. Nú hygg ég að stofnunin þjóni eingöngu sveitarfélögunum og það séu því sveitarfélögin sem munu greiða þetta gjald sem hér á að innheimta. Er það auðvitað líka hluti af þeirri stefnu hæstv. ríkisstjórnar að láta opinberar stofnanir starfa í síauknum mæli fyrir sértekjur sem þeim er ætlað að innheimta fyrir þjónustu sína. Þá er spurningin: Hver greiðir þessa þjónustu og hvernig er sú ákvörðun tekin að ríkið skuli ekki lengur veita þessa þjónustu viðkomandi aðilum heldur að þeir sem njóta þjónustunnar skuli greiða fyrir?
    Hér eru það sveitarfélögin. Við vitum að áður hefur hæstv. ríkisstjórn velt ýmsum kostnaðarþáttum yfir á sveitarfélögin og oftar en ekki án samráðs við þau. Við munum eftir átökunum sem urðu um lögregluskattinn svokallaða sem var þó enginn lögregluskattur. Það var aðeins nefskattur á sveitarfélögin,

greiðslur sveitarfélaga í ríkissjóð og kom lögreglu í sjálfu sér ekki neitt við þó að einhverra hluta vegna væri þessum skatti gefið þetta undarlega nafn. Það var gert án nokkurs samráðs við sveitarfélög. Þrátt fyrir yfirlýsingar um að vinna ekki þannig og ríkisstjórnin hafi lofað sveitarfélögunum að ekki yrðu gerðar breytingar á verkaskiptingu eða kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga öðruvísi en að undangengnum viðræðum við þau og í samráði eða samkomulagi við þau, þá hefur það ítrekað gerst að svo hafi verið unnið af hæstv. ríkisstjórn. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvernig því hafi verið varið varðandi það gjald sem hér á að fara að innheimta fyrir þjónustuna sem Fasteignamatið veitir og þá trúlega fyrst og fremst sveitarfélögunum. Hvernig hefur verið háttað því samráði sem þar ætti að hafa farið fram samkvæmt samkomulagi ríkisins við sveitarfélögin?
    Hér segir reyndar í athugasemdum við við einstakar greinar frv. um 4.--6. gr. að í þeim greinum séu ákvæði um gjaldtökuheimildir sem ekki þarfnist frekari skýringa. Það er stutt og laggott að segja það í einum litlum málslið: Þarfnast ekki skýringar. En mig hefði langað til þess samt að hæstv. ráðherra gæfi okkur sem höfum áhuga að fylgjast með þessum málum aðeins nánari upplýsingar um hvernig að þessu er staðið.
    Í öðru lagi langar mig að spyrja hann hvaða hugmyndir séu uppi með þá gjaldskrá sem samin verður í framhaldi af setningu þessara laga ef frv. fær samþykki. Í 5. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gjald skv. 1. mgr. skal taka mið af því umfangi upplýsinga sem keyptar eru og þeim tekjum sem notendur hafa af þeim.``
    Hér getur verið um verulegar upphæðir að ræða en fer þó auðvitað eftir því hversu hátt hlutfall verður ef hér verður um að ræða prósentuhlutfall eða eitthvert slíkt hlutfall af verðmætum viðkomandi eigna. Hins vegar finnst mér að það hefði ekki verið óeðlilegt að ákveðin verk hefðu kostað ákveðna upphæð. Þá er spurning um að mat á eign kostar ákveðið og hefur í för með sér ákveðinn kostnað og kannski eðlilegra að gjaldskrá taki mið af því fremur en hún taki mið af verðmætum eignanna. Ég hefði viljað að ráðherra upplýsti okkur aðeins nánar um hvaða hugmyndir eru varðandi gjaldtökuna og uppbyggingu gjaldskrárinnar.
    Að lokum langar mig svo til þess að leggja eitt inn í umræðuna og þá hugsanlega til skoðunar eða umræðu í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Hv. 11. þm. Reykn. talaði um það áðan að eðlilegt væri að nefndin færi allnokkuð ofan í starfsemi þessarar stofnunar og velti fyrir sér hlutverki hennar, uppbyggingu og tilgangi. Við vitum að tryggingafélögin framkvæma sérstakt brunabótamat og hefði verið forvitnilegt að kanna hvort hægt væri að eiga ákveðið samstarf við tryggingafélögin um rekstur Fasteignamatsins og hvort ekki mætti með einum eða öðrum hætti samræma matið og sameina þá vinnu sem fer fram við að meta fasteignir í landinu, annars vegar til fasteignamats og hins vegar til brunabótamats fyrir tryggingafélögin. Án þess að sú hugmynd sé að nokkru mótuð af minni hálfu, þá hefði ég viljað beina henni til nefndarinnar til umræðu eða athugunar.
    Rétt í lokin, hæstv. forseti. Við höfum haft af því spurnir að samtök sjálfstæðisfélaga hafi ályktað í þessu efni og fjallað um það hvert ætti að verða hlutverk Fasteignamatsins, jafnvel velt því fyrir sér hvort þessi stofnun sé þörf eða óþörf. Það væri einnig forvitnilegt að heyra álit hæstv. ráðherra á viðhorfum þeirra ályktana þó að mér komi að öðru leyti ekki við innanbúðarvandamál sjálfstæðismanna.