Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:09:03 (6999)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég fer að undrast hvort það muni rétt vera að hér sé um stjfrv. að ræða. Þeir sem hér hafa helst talað og með gagnrýnisröddu hafa helst verið úr liði stjórnarflokkanna beggja. Það væri forvitnilegt, þó ekki væri nema vegna upplýsingagildisins, að fá það upplýst hvort þetta frv. hafi verið lagt fram með stuðningi flokkanna eða hvort þar hafi verið miklir fyrirvarar á eins og greinilega hefur mátt ráða af ræðum stjórnarþingmanna.
    Ég tel eðlilegt að menn staldri aðeins við þegar lagt er til að endurskipuleggja ríkisstofnun og byrji á að spyrja sig gamallar spurningar: Til hvers er stofnunin? Eða eigum við kannski að spyrja að öðru, hvort

ekki sé kominn tími til að efna gamalt kjörorð: Báknið burt, sem ég minnist að var hér hátt reitt í þjóðfélaginu og ungir menn í Sjálfstfl. á þeim tíma lögðu mikið upp úr að væri þeirra kjörorð, báknið burt, minnka ríkisbáknið, og þeir þrír þingmenn úr Sambandi ungra sjálfstæðismanna sem einna helst báru þetta kjörorð fyrir brjósti eru allir komnir inn á hið háa Alþingi og eiga hér sæti, þar á meðal flm. frv., hæstv. fjmrh. Það væri fróðlegt að heyra í ráðherranum um það hvernig hann hygðist fylgja eftir hinni gömlu stefnu sem hann boðaði á sínum tíma um báknið burt. Er Fasteignamat ríkisins óumbreytanlegt bákn sem á að vera í ríkiskerfinu hvað svo sem tautar og raular og hvað svo sem gerist í niðurskurði í ríkisútgjöldum á öðrum sviðum sem bitnar eins og menn vita með harkalegum hætti á almenningi? Ég tel a.m.k. þessa spurningu ekki lakari en hverja aðra þegar menn velta því fyrir sér hvort yfir höfuð sé tilgangur eða nauðsyn á einhverri ríkisstofnun í dag sem kann að hafa verið full þörf fyrir á sínum tíma. Hlutirnir breytast og eðlilegt að menn yfirfari grundvöll að starfsemi þeirra stofnana sem til eru þegar svo langt er um liðið eins og raun ber vitni síðan stofnunin var sett á fót. Það hefur þegar verið nefnt að menn eru með ýmsar skráningar í gangi og ég tek undir þær raddir sem hvetja til þess að það verði athugað hvort ekki sé hægt að samræma þau skráningarkerfi og þær stofnanir sem að þessu vinna.
    Ég vil nú benda á það að aðalgreiðandinn fyrir þjónustu Fasteignamats ríkisins eru sveitarfélögin. Þau borga um helming af öllum kostnaði við rekstur Fasteignamats ríkisins sem nemur samkvæmt fjárlögum um 124 millj. kr. á þessu ári og það er að mínu viti eðlilegt að spyrja: Er ekki jafnvel hægt að flytja þessa stofnun yfir til sveitarfélaganna? Á þeim tímum sem allt á að fara yfir til sveitarfélaga væri ekki óeðlilegt að spyrja að því hvort þetta væri ekki stofnun sem ætti vel heima þar sem stærsti kúnninn hjá stofnuninni eru sveitarfélögin. Ég veit að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin munu taka þessari ábendingu fagnandi.
    Þá vildi ég aðeins drepa á fáein atriði í frv. sjálfu. Fyrsta atriðið sem ég hnýt um er það að gert er ráð fyrir að setja stjórn yfir batteríið, en það eru engin ákvæði um það hversu lengi sú stjórn eða þeir stjórnarmenn eiga að sitja sem á að skipa. Getur það verið ætlun fjmrh. að þarna sé skipað í eitt skipti fyrir öll í stjórnina og menn sitji síðan út þessa öld og svo lengi fram á næstu sem menn lifa? ( PJ: Þess vegna.) Þess vegna, segir hv. 2. þm. Norðurl. v. Ég er ekki viss um að það sé endilega það sem ráðherrann hefur haft í huga þegar sest var niður við að semja frv. að hér yrði um æviráðingu eða æviskipun að ræða. Ég vil þó segja að ef það er niðurstaða manna að athuguðu máli að rétt sé að þessi stofnun verði áfram til, þá tel ég það til bóta að sett verði stjórn fyrir þessa stofnun og styð það að gefinni þeirri forsendu.
    En ég hnýt líka aðeins um verksvið stjórnarinnar. Miðað við frv. og gildandi lög er gert ráð fyrir því að ráðherra skipi forstjóra áfram eins og verið hefur, ráðherra ráði fast starfsfólk að fenginni umsögn forstjóra og á því verði engin breyting og ráðherra ákveður gjaldskrá að fenginni tillögu stjórnar svo að maður spyr sig: Hvað á stjórnin að gera? Og miðað við frv. sem hér liggur fyrir, þá er það fyrst og fremst að móta starf og innra skipulag. Er það nægjanlegt verksvið til þess að réttlæta það að setja upp stjórn? Að mínu mati er það ekki. Það þarf að ætla stjórninni meira verksvið en frv. gerir ráð fyrir og ef á annað borð er verið að setja upp stjórn yfir stofnun, þá er það að mínu viti sú stjórn og yfirmaður þeirrar stofnunar sem eiga að fara með mannaforráð í stofnuninni en ekki ráðherrann. Ég tel að stjórnin ætti að hafa meira að segja um ákvörðun gjaldskrár en gert er ráð fyrir í frv. og draga úr ákvörðunarvaldi ráðherrans.
    Þá hnýt ég líka um 5. gr. frv. Í fyrstu setningunni er kveðið á um að gjaldið sem taka eigi skuli taka mið af umfangi upplýsinga sem keyptar eru og þeim tekjum sem notendur hafa af þeim upplýsingum. Hér er um að ræða býsna óljóst orðalag um það hvernig eigi að ákvarða gjaldskrá og ég tel að það þurfi að festa þetta frekar. Þetta er of rúm heimild að mínu viti frá löggjafarvaldi yfir til framkvæmdarvalds um ákvörðun á gjöldum.
    Þá geri ég líka athugasemd við b-lið 6. gr. frv. en þar er gert ráð fyrir að sú breyting verði frá því sem er í gildandi lögum að heimilt verði að innheimta gjald hjá matsbeiðanda fyrir vinnu við slíka endurskoðun sem menn biðja um eða eru ósáttir við matið eða telja það gallað, þá er heimilt að rukka þá fyrir kostnaðinn sem af því hlýst. Í núgildandi lögum er þetta þrengra ákvæði í 21. gr., en það er einungis heimild til þess að krefjast þess að sá sem biður um endurmat beri kostnaðinn ef krafan er bersýnilega tilefnislaus. Ég tel ekki rétt að víkka þessa heimild frá gildandi lögum eins og lagt er til. Ég tel að ef einhver biður um endurmat og hefur rök fyrir sinni beiðni sem síðan leiðir til breytts endurmats, þá eigi ekki að innheimta endurgjald hjá honum því að hann hafði rétt fyrir sér í sinni ósk. Ég tel að við verðum að hafa þessa heimild þrengri en frv. gerir ráð fyrir, bæði í 6. gr. b-liðar og reyndar einnig í 4. gr. frv.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar og hún er þessi: Hvar á þessi stofnun að vera? Það er hvergi getið um það í lögunum hvert heimili og varnarþing stofnunarinnar er svo ég hafi rekist á í fljótheitum og það er því á valdi ráðherra að ákvarða hvar stofnunin er sett niður. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hjá hæstv. ráðherra hvort til standi að flytja stofnunina, hvort það sé partur af byggðastefnu núv. ríkisstjórnar að leggja til að þessi stofnun verði flutt úr núverandi sveitarfélagi sem hún er í í eitthvert annað eða hvort hún eigi að vera áfram hér á höfuðborgarsvæðinu.