Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:19:11 (7000)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram vegna fyrirspurnar hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar, að þetta frv. var samþykkt í þingflokki Alþfl. sem fram lagt sem stjfrv. og að sjálfsögðu felst í því sá réttur sem er áskilinn til handa þingmönnum að skoða einstök atriði mála í nefnd. Ég gerði minn fyrirvara í þingflokknum eins og oft gerist þegar slík mál eru til umfjöllunar að einhver þingmaður hafi fyrirvara. Minn fyrirvari var um mikil grundvallaratriði í þessu máli, ekki við eina sérstaka grein eða tvær, heldur um grundvallaratriðin um þessa stofnun sem slíka, við Fasteignamat ríkisins. Ég hef verið sveitarstjórnarmaður í rúman áratug með mjög ákveðna skoðun á því hvernig þessi stofnun er, hvernig Fasteignamatið virkar og hefur virkað. Ég hef verið mjög gagnrýnin á það og talið aðrar leiðir jafnfærar og jafnvel betri og trúlega ódýrari. Ég gæti haldið hér langa ræðu um hvernig ég sé fyrir mér hvernig Fasteignamatið hefur virkað varðandi mat á landi, sums staðar ekkert metið, sums staðar hátt metið. Þegar það er hátt metið skal greiða það samkvæmt fasteignamati t.d. þegar sveitarfélag innleysir, en þegar það er lágt metið kemur eitthvað annað til. Ég er í þeirri nefnd sem fær frv. til umfjöllunar og mér fannst það sanngjarnt að ég léti það koma fram hér hver mín viðhorf eru einmitt sökum þess að það snýr að grundvallaratriðum stofnunarinnar.