Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:21:00 (7001)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hafa farið fram um þetta litla frv. og þann áhuga sem menn hafa sýnt á málefnum Fasteignamats ríkisins og vil taka það fram strax að hér er auðvitað um nokkrar breytingar að ræða en þær eru ekki meiri háttar. Það er verið að færa stofnunina eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár úr A-hluta ríkissjóðs í B-hluta og gera hana þannig sjálfstæðari en hún hefur verið hingað til.
    Ég vil í örstuttu máli reyna að koma á framfæri nokkrum upplýsingum sem umræðurnar gáfu tilefni til að kæmu hér fram, en að öðru leyti verð ég að vísa til starfs hv. nefndar og vonast til þess að nefndin gefi gaum þeim umræðum sem hér hafa farið fram og rannsaki og svari þeim spurningum sem verður að láta ósvarað í þessari umræðu.
    Mig langar fyrst til að segja frá því að 1985 skilaði nefnd sem var að endurskoða lögin um Fasteignamat ríkisins áliti en sú nefnd var sett á laggirnar 1983. Niðurstaða hennar var sú að það væri eðlilegt að færa hin opinberu matskerfi, fasteignamat og brunabótamat, í eina matsstofnun sem væri í eigu ríkisins, sveitarfélaga, tryggingafélaga og lánastofnana. Ekki varð úr því að sinni. 1989 skipaði þáv. fjmrh. aðra nefnd og hún skilaði áliti árið eftir og voru niðurstöðurnar samhljóða niðurstöðum fyrri nefndar.
    Ég hef sjálfur látið kanna þetta mál og það verður því miður að segja þá sögu eins og hún er, að það er hægara sagt en gert að sameina þessar matsstofur en ég tel þó að með þeirri breytingu sem hér er verið að gera sé verið að taka ákveðið skref í þá átt. Að mati nokkurra manna sem ég bað um að skoða málefni Fasteignamats ríkisins kemur í ljós að þeir telja að það sé ástæða til þess að breyta Fasteignamatinu til að ná fram meiri hagkvæmni en gildir eða hefur gilt hjá stofnuninni hingað til og það þurfi að koma Fasteignamatinu á eðlilegri grunn, kalla fram markaðssinnaðra viðhorf og að freista þess að samræma matskerfin sem þarf að sinna. Þannig geti Fasteignamatið orðið eins konar samstarfsvettvangur ýmissa aðila.
    Í umræðunum hér í dag var spurt hverjir eiga að greiða það gjald sem tilnefnt var í frv. Þá er fyrst því til að svara að í 14. gr. núgildandi laga um Fasteignamat ríkisins er heimild til þess að verðleggja þjónustuna. Þar segir í 2. mgr. 14. gr., sem gert er ráð fyrir að falli brott verði frv. samþykkt, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Verðlagning þessarar þjónustu skal miðast við endurheimtu kostnaðar Fasteignamats ríkisins, að því marki sem fjárlög á hverjum tíma gera ráð fyrir. Við verðlagningu þjónustu til sveitarfélaga skal tekið sérstakt tillit til upplýsingasöfnunar þeirra, sbr. 9. gr.``
    Hið nýja orðalag er nokkuð breytt til þess að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem menn telja eðlilegt að séu uppi höfð þegar ákveðið er verð á þeirri þjónustu sem Fasteignamatið þarf að bjóða og selja, fá fyrir peninga.
    Þá kem ég að því hverjir greiða þetta gjald. Það eru nefnilega ekki einungis sveitarfélögin sem það eiga að gera, heldur einnig ríkið því að Fasteignamatið er ekki einungis grundvöllur fyrir álagningu fasteignagjalda heldur einnig allra eignarskatta í landinu og án Fasteignamatsins væri ekki hægt að leggja eignarskatta á fólk. Þeir sem telja þessa stofnun óþarfa verða þá jafnframt að finna einhvern nýjan grundvöll til þess að leggja eignarskatt á fólk en ég get vel deilt þeirri skoðun með mörgum hér, að það væri kannski full ástæða til þess að endurskoða þann skattstofn, en það er síðan allt önnur saga. Væri þetta einungis fyrir sveitarfélögin er auðvitað ekkert eðlilegra en að sveitarfélögin sjálf önnuðust þessa starfsemi. Alþingi Íslendinga hefur með þál. falið Fasteignamati ríkisins ýmis verkefni sem Fasteignamatið er að vinna. Ég bendi þess vegna á að það eru ekki bara sveitarfélögin sem koma til með að greiða gjaldið heldur einnig ríkið því að skatturinn þarf á þessu að halda.
    Þessu til viðbótar eru kaupendur að þjónustu Fasteignamatsins fyrir hendi, aðallega Skýrsluvélar ríkis og Reykjavíkurborgar sem er sjálfstætt fyrirtæki og aðrir slíkir sem hafa nokkurs konar áskrift að upplýsingum sem hægt er að fletta upp á hverjum tíma með beintengingu við tölvu Fasteignamats ríkisins. Í framtíðinni vonumst við til þess að það kerfi sem þarna er verið að byggja upp og sem byggt hefur verið upp annars staðar verði hægt að samræma þannig að kostnaðurinn við matsgerðina verði ódýrari. Og þessu frv. er beinlínis ætlað að verða skref í þá átt. Starfsemin er að sjálfsögðu lögbundin í dag þannig að það er skylda að afla þjónustunnar frá stofnuninni. Og þegar menn ræða um brunabótamat, þá verð ég að segja frá því að það er auðvitað skýr munur á annars vegar brunabótamati og hins vegar fasteignamati. Því miður er ég nú ekki nægilegur sérfræðingur í þessum efnum til að geta gefið trúverðuga lýsingu á því hver munurinn er, en hann felst þó í því fyrst og fremst að brunabótamatið miðast við það að meta tryggingar á húsum m.a. með tilliti til brunahættunnar sem í húsunum felst. Þetta segir það m.a. að timburhús bera hærra brunabótamat af því að það er líklegt að þau verði frekar fyrir tjóni. Fasteignamatið er allt annars konar því að fasteignamatið byggist fyrst og fremst upp á því að finna út hvert er endurstofnverð eða markaðsverð húss á tilteknum stað. Þannig getur fasteignamatið verið misjafnt frá einum stað til annars, allt eftir því hvert verðlag er almennt á húsum á tilteknum stöðum og hve mikla upphæð megi gera ráð fyrir að þurfi til þess að afla sams konar húsnæðis á tilteknum stað. Ég ætla ekki að hætta mér frekar út í þessa sálma, enda held ég að við verðum lítt bættari hér í þessum umræðum við 1. umr. málsins að fara út í þá að sinni. Hins vegar finnst mér sjálfsagt að nefndin taki sér tíma til þess að fara ofan í þetta mál og ræði þar á meðal um stuðla og annað slíkt sem notaðir eru í þessu skyni.
    Þannig er í dag að ráðherra ræður í raun og veru yfir þessari stofnun. Hann skipar forstjórann og hefur fullt vald á stofnuninni samkvæmt lögunum. Með því að fá stofnuninni stjórn og færa hana yfir í B-hluta þá þarf ráðherra að taka tillit til stjórnarinnar eins og tiltekið er í þessu lagafrv. því stjórnin gerir tillögur að gjaldskrá og í því felst auðvitað talsvert vald, þar á meðal það vald að geta komið upp ágreiningi milli ráðherrans og stjórnarinnar. Stjórnin mótar starf og innra skipulag sem er auðvitað það vald sem ráðherrann hefur ásamt forstjóranum í dag og hefur eftirlit með rekstri hennar sem auðvitað er mjög mikilvægt, ekki síst vegna þess að sveitarfélögin sem nú fá aðild að stjórninni eru stórir viðskiptamenn Fasteignamats ríkisins.
    Um það hvort ástæða sé til að sameina Brunabótamatið og Fasteignamatið hef ég svarað, ég tel að það sé hægt og við séum að taka fyrsta skrefið í þá átt með því að koma sveitarfélögunum að fyrirtækinu með þessum hætti.
    Það var spurt um reglur á grundvelli þessara laga. Slíkar reglur verða auðvitað settar af ráðherra og það verða þá reglur til frekari lýsingar á starfsemi stjórnar og stofnunarinnar. Það er eðlilegt að ráðherra setji reglur eins og í öðrum viðlíka tilvikum.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, studdi vissa hluti í frv. og er ég þakklátur fyrir það, en hann spurðist fyrir um gjaldtökuna. Ég get ekkert sagt frekar um hana en stendur í frv. að öðru leyti en því að með því að skipa fulltrúa sveitarstjórnanna í stjórn stofnunarinnar má gera ráð fyrir að tekið verði tillit til sjónarmiða sveitarfélaganna þegar gjaldskrá verður sett. Hér er um að ræða leiðbeinandi reglu í lögunum og ég hygg að orðalagið um verðmæti eigna og tekjur þjóni þeim tilgangi að það sé hægt t.d. að selja ríkinu sjálfu afurð Fasteignamatsins með tilliti til notagildis ríkisins, þar á meðal með tilliti til þess að þetta er grundvöllur fyrir allri eignarskattsálagningu ríkisins og það ber að taka tillit til þess að nokkru.
    Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. og best er að eiga samstarf við tryggingafélög, sveitarfélög og reyndar aðra aðila sem eru að skrá fasteignir. Ég nefni sem dæmi stofnanir Reykjavíkurborgar því það veldur að sjálfsögðu verulegum ruglingi þegar íbúðir eru merktar með mismunandi hætti eftir því hvort í hlut á Fasteignamat ríkisins, en við fáum seðla frá því með skattseðlinum okkar, þ.e. álagningarseðlinum, en síðan kemur allt annað númer á íbúðinni þegar verið er að rukka fyrir hitaveitu og rafmagnsveitu svo dæmi sé tekið. Þetta þyrfti auðvitað að samræma, það gerði alla hluti einfaldari. Fasteignamatið hefur að undanförnu verið að hreinsa til í sínum skrám og tölvuvæða og sjálfsagt hafa ýmsir lent í því þegar síðasti seðill var borinn út að þar var beðið um að leiðrétta skekkju sem hafa setið inni í tölvum Fasteignamats ríkisins.
    Ég staðhæfi því að það er fullur vilji til þess að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram í umræðunum sem mér sýnist vera þau að það eigi að draga sem mest úr eins og menn kalla bákninu og ég kannast vel við það að hafa staðið að því slagorði á sínum tíma og tel einmitt að með þessu frv. sé verið að vinna brautargengi þeirri stefnu sem var á bak við slagorðið því það er kannski nauðsynlegt að setja Fasteignamatinu stjórn, stjórn sem síðan setur verð á afurðina og tryggir að það sé aðhald að kostnaðinum. Ef það reynist svo að þeir sem eru kaupendur að þjónustunni sem eru þá fyrst og fremst ríkið, en þó einkum sveitarfélög, telja þetta of dýra þjónustu, þau telja þetta eiga betur heima í sínum höndum, þá er auðvitað vísasti vegurinn að leggja þessa stofnun niður og sveitarfélögin komi sér upp sinni stofnun eða hafi enga stofnun ef þau vilja við það búa. Þannig að hér er verið að opna leið til þess að endurmeta algjörlega starfsemi þessarar stofnunar sem ég held að sé reyndar nauðsynleg þó ég skilji það að ýmsir vilji losna við þá stofnun sem leggur grunn að eignarskattsálagningu landsmanna.
    Varðandi einstök smærri atriði þá er komið nánast að tómum kofanum hjá mér. Ég býst við því að það sé eftir skoðun talið eðlilegra að það sé heimilt fyrir Fasteignamatið að innheimta gjald hjá matsbeiðanda fyrir vinnu við endurskoðun, einfaldlega að þessu sé breytt vegna þess að það hefur verið erfitt að meta hvenær slík beiðni var tilefnislaus og hvenær ekki. Í raun og veru þarf beiðnin ekki að vera tilefnislaus þótt endurskoðun leiði ekki til breytinga og það getur verið ósanngjarnt að láta þá eina greiða sem fá sama mat við endurmatið og fyrra matið var en hina sleppa sem fá öðruvísi mat, jafnvel lægra eða hærra

alveg burt séð frá því hvert tilefni endurmatsins var. Ég á heldur von á því að þetta sé gert til þess að auðvelda stjórninni að gera tillögur um nýja gjaldskrá, en það er sjálfsagt að skoða þetta í nefndinni. Ég veit að hv. nefndarmenn sem hér eru staddir munu fúsir af áhuga sínum bera skilaboð til nefndarinnar um þau atriði sem hér hafa verið nefnd í umræðunni.
    Að lokum var spurt um það, og vona ég að ég hafi komið að flestum umræðupunktunum, hvar stofnunin eigi að vera. Því er til að svara að það eru ekki uppi áætlanir að breyta verustað stofnunarinnar. Ég hlýddi á umræður sem urðu um þetta mál þegar ég svaraði fyrirspurn á sínum tíma frá hv. 6. þm. Vestf. sem margir muna eftir. Það er ekki hugmyndin að gera breytingar á heimilisfesti stofnunarinnar og þetta frv. fjallar í raun og veru ekkert um það málefni, hins vegar hef ég ekkert á móti því að nefndin fái upplýsingar og viðhorf einstakra þingmanna um það efni eins og önnur.