Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:41:45 (7020)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Á þessum tímum er auðvitað gríðarlega mikilvægt að leita allra leiða til þess að hagræða og spara í rekstri. Það hefur nú verið mottó þessarar ríkisstjórnar í gegnum tíðina að hún væri sífellt að leita slíkra leiða. Ég hef heyrt að í ráðuneytunum hverju um sig séu starfandi sérstakar sparnaðarnefndir þar sem menn leita leiða eftir því hvaða liðir það eru í rekstri ráðuneytanna sem rétt sé að taka og einkavæða og spara sérstaklega. Eftir því sem ég hef heyrt er hugmyndaflug þessara nefnda alveg gríðarlegt vegna þess að allar hafa þær komist að þeirri sömu niðurstöðu að best væri að reka ræstingarfólkið því að þar væri helst sparnaðar að leita.
    Nú er það svo að þetta útboð sem hér er til umræðu er gríðarlega stórt og í raun og veru hefði verið kjörið tækifæri fyrir ríkisvaldið með útboði sem þessu að bjóða starfsfólkinu sem nú er starfandi við hvern skóla að bjóða í reksturinn. Nei, sú leið er ekki farin heldur er öllum skólunum slegið saman og útboðið gert með þeim hætti að það má af því marka að það er nákvæmlega ætlað einhverjum einum stórum aðila til að taka það yfir. Þá læðist auðvitað sú hugsun að manni hvort hér sé á ferðinni enn einn angi af þeim einkavinavæðingaráformum sem þessi ríkisstjórn er með uppi. Það er með öðrum orðum verið að koma þarna saman mjög stórum útboðspakka sem einum stórum aðila er ætað að gína yfir. Og nú spyr ég hæstv. menntmrh.: Af hverju var ekki hægt að fara þá leið, a.m.k. fyrst til að byrja með, að bjóða því starfsfólki sem hefur verið starfandi í þessum skólum hvort það kysi að fara þá leið að bjóða í verkið?