Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:46:55 (7022)

     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er einkennilegt og virðist vera eitthvað í ætt við bráðsmitandi pest að í hvert skipti sem á að fara að grípa til sparnaðar dettur mönnum fyrst í hug að athuga hvort ræstingarkonur hafi ekki allt of mikið upp úr sér fyrir allt of litla vinnu. Hver hefur ekki heyrt velmektarmenn í ógurlegum ábyrgðarstöðum lýsa því yfir í píslarvættisrómi eitthvað í ætt við Bogesen að þeir beri í raun og veru minna úr býtum en ræstingarkonurnar svona miðað við það ómælda erfiði og áhyggjur sem ábyrgðarstöðunum fylgja? Oft hefur mann undrað að karlmenn, sérstaklega úr efri lögum þjóðfélagsins, skuli ekki sækjast meira en raun ber vitni eftir þessum störfum, þessum ábyrgðarlausu og vel launuðu, áhyggjulausu störfum. Hvers lags raunveruleikatengsl eru þetta eiginlega? Af þeim upphæðum sem málshefjandi, hv. 10. þm. Reykv., las hér upp áðan er ekki hægt að heyra að það sé hægt að sækja mikið gull í greipar skúringarfötunnar. Eða trúa menn því raunverulega að svo sé? Eða blundar kannski undir gamla skoðunin að í raun beri konum að þjóna öðrum og þrífa eftir þá kauplaust eða a.m.k. því minna sem þær fái, því sanngjarnara. Eða er verið að skapa nokkrum karlmönnum aðstöðu til þess að hagnast á vinnu kvenna?
    Hingað til hafa ræstingarkonur í skólum séð um sín mál sjálfar og engin milliliður, karlmaður, hagnast á vinnu þeirra. Er þetta brotalöm sem verður að ráða bót á að enginn yfirmaður hagnist á vinnuframlagi fjölda kvenna.
    Það er athyglisvert að þessi einkavæðingarhugmynd sem þarna er á ferð hefur ekki vakið mikinn áhuga eða eftirtekt. Er það vegna þess að konur eiga þarna hlut að máli? Hafa svona fáir í raun og veru áhuga á því hvort réttindi þeirra og kjör skerðast, en það hlýtur að vera markmið þessa útboðs, annars væri ekki verið að fara út í það.
    Verkakvennafélagið Framsókn afhenti hæstv. menntmrh. mótmæli í dag og ég vil lesa þessi mótmæli hér upp, með leyfi forseta:
    ,,Verkakvennafélagið Framsókn mótmælir harðlega þeirri lítilsvirðingu við launafólk sem felst í áformum menntmrn. um niðurskurð á launum starfsfólks við ræstingar í ríkisskólum. Félagið minnir á að kostnaður við ræstingu í skólum er um 5% af heildarkostnaði við skólahaldið. Engin áform eru um skerðingu á launum annarra eða hagræðingu í skólum. Eingöngu er vegið að launum ræstingarfólks. Við undirritaðar félagskonur í Verkakvennafélaginu Framsókn mótmælum þessum áformum harðlega og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hnekkja þessum áformum.``
    Og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist bregðast við þessum mótmælum og þá hvernig.