Stytting vinnutíma

160. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 02:07:29 (7384)


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að rétt að benda á að tillögtextinn er nokkuð varfærinn, ekki síst vegna þess að flutningskonum var kunnugt um ákveðnar ábendingar aðila vinnumarkaðarins og því er í rauninni gert ráð fyrir að þetta verði ekki gert nema með samráði við aðila vinnumarkaðarins. Hins vegar vil ég benda á að það var mikið þenslutímabil 1987 og 1988 og nú eru breyttir tímar og meira knýjandi að grípa til einhverra aðgerða. Hvort sem þær skila því sem maður vonar eða einhverju minna þá er allt til góðs. Og ég held að það sé full ástæða til að reyna að leita þessara leiða og ekki síst vegna þeirra breyttu aðstæðna sem nú eru í samfélaginu. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er ekki hægt að gera sér vonir um að öll sú vinna sem mundi deilast á fleiri mundi skila sér í fjölgun starfa, en engu að síður er hægt að gera ráð fyrir því mjög eindregið að eitthvað muni skila sér.
    Varðandi vinnutímann þá hafa þær deilur sem hafa verið um það hversu samanburðarhæfar tölur kjararannsóknanefndar verið slíkar að vissulega er ástæða til að taka tillit til þess. Ég veit ekki betur heldur en á fylgiskjali I séu upplýsingar sem safnað hefur verið saman á hliðstæðan hátt á þeim Norðurlöndum sem gefa upp tölur þar og þar kemur í ljós að þar er alveg augljóslega langsamlega lengstur vinnudagur á Íslandi ef borið er saman við nágrannalöndin. Þetta eru að vísu ekki glænýjar tölur en ég hygg að þar sem samdráttur er líka í flestum þessara landa þá sé munurinn enn þá verulegur. Og því birti ég fleiri gögn með þessari tillögu til að reyna að sýna það sem fyrir hendi er. En vissulega er ekki um auðugan garð að gresja þar. Þó veit ég að það er byrjað að gera kannanir núna með öðrum hætti og það ætti að skila okkur betri ,,statistik`` sem auðvitað alltaf er mjög gott til að glöggva sig á aðstæðum.