Stuðningur við réttindabaráttu Eystrasaltsríkjanna á alþjóðavettvangi

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 21:13:24 (7518)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil taka af öll tvímæli með það að að sjálfsögðu vil ég að Eystrasaltsríkjunum vegni sem best sem þjóðum. Ég vil taka af öll tvímæli með það að á alþjóðavettvangi eigum við að veita þeim stuðning, en að einu leyti getur Ísland aldrei slakað á kröfum og það er krafan um það að þessi ríki eins og öll önnur ríki jarðarinnar virði mannréttindi. Menn halda því fram að af því að Rússar hafa fjölmennt inn í þessi ríki, þá standi þeim ógn af Rússunum og að þeir eigi að hafa rétt til þess að gera Rússana að annars flokks þegnum.
    Það er dálítið merkilegt en þjóð sem fyrir mörgum öldum aflagði þann rétt að það bæri að hefna, að það væri ættarskylda að hefna, hún virðist nú ef meta má þá flm. sem standa að þessari tillögu telja það að barn sem fætt er í Lettlandi af rússneskum foreldrum sitji uppi með vissa erfðasynd, það eigi ekki að hafa sömu mannréttindi og ef það væri af lettneskum uppruna. Það er boðskapurinn sem borinn er á borð á Alþingi Íslendinga. Ekki er þetta nú beint í samræmi við það sem Einar Benediktsson skáld sagði:
            Réttan skerf sinn og skammt
            á hvert skaparans barn
            allt frá vöggu að gröf.
    Það var engin undantekning í hans boðskap að ef svo stæði á eins og í Lettlandi eða Litáen, þá ættu sum börnin að hafa minni rétt en önnur. Það var enginn slíkur boðskapur. Og trúa menn því að það verði til þess að tryggja frið í framtíðinni við stórveldið Rússland, tryggja eðlileg verslunarsamskipti á milli Rússlands og þessara landa, að Íslendingar reyni nú allt hvað þeir geti til þess að styðja þessar þjóðir í því að þær þurfi ekki að virða mannréttindi? Ég segi nei. Og mig undrar það satt best að segja að mönnum detti í hug að halda því fram að á vissum svæðum jarðarinnar og hjá vissum íbúum jarðarinnar eigi menn ekki að standa þannig að málum að mannréttindi þurfi að virða.
    Einn dekksti bletturinn á vestrænni menningu í dag er sú staðreynd að Vesturlönd hafa liðið Ísraelsmönnum um alllangt skeið að brjóta allar reglur Sameinuðu þjóðanna varðandi mannréttindi á herteknum svæðum. Það má segja sem svo að Ísraelsmönnum hefur verið liðið í skjóli herstuðnings sem þeir hafa átt vísan frá Vesturlöndum að sitja yfir hlut Araba á herteknum svæðum. Þessi staðreynd er ein alvarlegasta ógnunin við heimsfriðinn í dag. Eigum við að byggja upp fleiri slíkar púðurtunnur, fleiri slík svæði? Auðvitað ekki. Auðvitað eigum við að trúa því að íbúar Lettlands, íbúar Litáens og Eistlands séu jafngóðir þegnar þessara landa af hvaða þjóðerni sem þeir eru. Við eigum að gera þá kröfu til þessara ríkja að þeir grafi stríðsöxina og innbyrðis deilur verði látnar niður falla um það hvort fólk hafi verið flutt inn á þessi svæði til þess að þurrka þessi þjóðarbrot út. Hvers vegna? Vegna þess að ef menn ætla að velja leið hefndanna, þá verður aldrei um nein endalok að ræða. Það verður aldrei um nein endalok að ræða og þá halda menn áfram að byggja upp ófrið á þessu svæði.
    Ég vil því, herra forseti, vænta þess að þeir flm. sem hafa flutt þessa tillögu hér inn á Alþingi Íslendinga geri sér grein fyrir því að íslenska þjóðin getur ekki staðið að því tvöfalda siðgæði að krefjast þess annars vegar að mannréttindi séu virt alls staðar í heiminum og segja svo: Á vissum svæðum jarðarinnar þarf ekki að virða mannréttindi vegna þess að þeir sem þar eru að vaxa úr grasi eru með erfðasyndina með sér.