Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 15:18:25 (7561)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Það eru vissulega blikur á lofti í sjávarútvegi og þá um leið yfir öllu efnahags- og atvinnulífi okkar Íslendinga. Þegar harðnar á dalnum verða umræður um skipulag og rekstur höfuðatvinnuvega okkar háværari og um leið skerpast andstæðar skoðanir, m.a. í sjávarútvegsmálum.
    En í hverju liggur vandi okkar? Liggur hann í skipulagi við nýtingu auðlinda sjávar, liggur vandinn í kvótakerfinu? Nei, ég held ekki. Vandi okkar liggur í því að auðlindir sjávar eru takmarkaðar og við gerum óraunhæfar kröfur um afrakstur og höfum fjárfest um of í vissum hluta af veiðum og vinnslu og á ýmsum sviðum í þjóðfélaginu.

    Við þessar aðstæður teflir Alþb. fram tillögu til þess að slá ryki í augu fólks og gefur óraunhæfar vonir um breytingar sem leysi vanda allra. Og í málgagni Alþb. er gefin út tilkynning um að 1. flm. hafi skorað kvótakerfið á hólm að fornum sið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon velur hins vegar þann kost í þessari umræðu að víkja algerlega frá umræðum um þetta mál sem hér er á dagskrá, þ.e. hvaða leiðir Alþb. vill fara í sjávarútvegsmálum.
     Það vekur vissulega athygli að Alþýðubandalagið flytur ekki frv. til laga um stjórn fiskveiða, sem flokkurinn taldi sig hafa undirbúið svo rækilega fyrir síðustu kosningar. Þau drög að frumvarpi fá nú einungis að fljóta með sem fskj. og virðast ekki hafa hlotið náð hjá þingflokknum.
    Það er tekið fram að fskj., sem áður var hugsað sem frv. til laga um stjórn fiskveiða, sé unnið af 1. flm. í samráði við fulltrúa úr sjávarútvegsmálaráði flokksins. Það liggur því fyrir að Alþb. hefur lagt til hliðar þá hugmyndafræði sem það boðaði áður og var fyrst og fremst í formi veiðileyfagjalds. Í tillögu Alþb. er gert ráð fyrir að leggja á aflagjald, sem á að beita til að stjórna sóknarmarkskerfinu. Aflagjaldið á að vera stighækkandi eftir því sem aflinn er smærri og verðminni og stjórn veiðanna á að byggjast á mati Fiskistofu sem á að taka ákvarðanir um aflagjaldið fyrir fjóra mánuði hverju sinni. Vald Fiskistofu er því ætlað að vera æði mikið, bæði við stjórnun fiskveiðanna og ekki síður skattlagningin sem felst í hinu umrædda veiðigjaldi.
    Ekki virðist ástæða til þess að fjalla efnislega um þá tillögu, þar sem hún er í raun ekki á dagskrá, heldur tillaga til þál. um að fela sjútvn. Alþingis að marka stefnuna. Það er því eðlilegt að spurt sé: Á hverju byggja alþýðubandalagsmenn hólmgöngu sína við gildandi fiskveiðistefnu, við gildandi fiskveiðilög sem þeir stóðu að samþykkt á árið 1990?
    Sú tillaga, sem hér er til umfjöllunar, gerir ráð fyrir því að sjútvn. Alþingis sjái um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og móti heildstæða sjávarútvegsstefnu. Nefndin vinni þetta verk í samráði við sjútvrn. og Fiskistofu og reyndar öll hugsanleg hugsmunasamtök í landinu og öll sveitarfélögin.
    Alþb. virðist tilbúið til þess að draga sínar tillögur til baka og treysta á aðra, enda liggur fyrir mikil vinna á vegum stjórnarflokkanna, og það vita þingmenn Alþb. að sjálfsögðu.
    Þetta er mjög merkileg niðurstaða hjá þingmönnum, sem vara við þeirri hættu í Vikublaðinu 2. apríl sl., að lögfesta eigi aflamarkskerfið í vor, þeir tala um að lögfesta aflamarkskerfið eins og þeir hafi ekki hugmynd um það að aflamarkskerfið er byggt á þeirri löggjöf sem þeir sumir samþykktu 1990. Það er reynt að koma því inn hjá þjóðinni að aflamarkskerfið sé afurð sjútvrh. og tvíhöfða nefndarinnar.
    Það er augljóst að stefna Alþýðubandalagsins er reikul sem rótlaust þangið og það er því engan veginn hægt að fjalla um tillöguna nema sem ábendingu um að nauðsynlegt sé að hefja hér á Alþingi umræður um þær tillögur, sem nú þegar liggja fyrir hjá stjórnarflokkunum. Og það er vissulega tímabært.
    Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, virðulegi forseti, er ágreiningur um stjórn fiskveiðanna. Þar rekast á hagsmunir byggðanna, einstakra greina útgerðar og vinnslu og einnig sjómanna og fiskvinnslufólks. Það er hlutverk okkar hér á hinu háa Alþingi að setja löggjöf sem tekur tillit til heildarhagsmuna og byggja hana á reynslu okkar af núverandi kerfi, sem vissulega þarfnast endurbóta. Það er því mjög mikilvæg vinna við stefnumótun, sem hæstv. sjútvrh. setti af stað með skipun tvíhöfða nefndarinnar. Þeirri vinnu er nú lokið og komið að þinginu og þá sérstaklega stjórnarflokkunum að móta þá stefnu sem unnið verði eftir á grundvelli nýrrar löggjafar um stjórn fiskveiða og skipulag sjóða sem varða sjávarútveginn.
    Í umfjöllun um tillögur tvíhöfða nefndarinnar síðustu vikur hafa komið fram margs konar athugasemdir. Margar eru vissulega byggðar á traustum rökum, en um of tel ég afstöðu manna byggjast á þeim víðtæka og mikla vanda, sem sjávarútvegurinn er vissulega í í dag. Þann vanda getum við ekki kennt aðferðum við stjórn veiðanna. Hann á rót sína að rekja til samdráttar í afla og lækkun afurðaverðs og þess hversu efnahagur margra útvegsfyrirtækja var hart leikinn eftir áralangan taprekstur og skuldasöfnun.
    Við mótun víðtækrar sjávarútvegsstefnu er nauðsynlegt að hlusta vel á skoðanir sjómanna og þeirra sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Við hljótum einnig að líta til reynslu nágranna okkar og nýta okkur til hins ýtrasta þekkingu vísindamanna okkar á sviði fiskifræðinnar.
    Eftir þá miklu umræðu, sem hefur farið fram síðustu vikur og með þeim tillögum sem liggja fyrir, tel ég ekkert vera að vanbúnaði að taka lögin um stjórn fiskveiða til meðferðar hér á Alþingi og ljúka þeirri vinnu á þessu vori.
    Með því að línutvöföldun og krókaleyfið verði tryggt með tilteknum takmörkunum, kvóti geti verið tengdur fiskvinnslustöðvum, ekki verði fjölgað kvótabundnum fiski og stefnt að jöfnun á aðstöðu landvinnslu og sjóvinnslu, svo nokkuð sé nefnt, tel ég að lagður sé mikilvægur grunnur að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Jafnframt verði unnið við aðgerðir er tengjast afkomu veiða og vinnslu að sjálfsögðu og stefnumörkun sem tengist breyttum aðgangi að mörkuðum Evrópu fyrir sjávarafurðir. Að gefnu tilefni sé ég ástæðu til þess að árétta, að vissulega höfum við sjálfstæðismenn ríkan vilja til þess að fara þær leiðir sem tryggja hagsmuni smábáta og trillusjómanna, en auðvitað verðum við að líta á heildarhagsmuni, finna leiðir sem varða sem flestar greinar. Með því að marka stefnu til framtíðar á þessum mikilvægu sviðum er þess að vænta að okkur takist að snúa vörn í sókn.
    Efla þarf til átaks að nýju þær byggðir, sem um stund hafa orðið að þola áföll vegna erfiðleika í sjávarútvegi. Þau áföll má rekja til þess að öllum vanda var sópað undir stóra teppið í Atvinnutryggingasjóði og í bönkunum, sem síðan hafa orðið að taka á sig áföllin ásamt með þeim byggðum, sem ekki

hafa fengið rönd við reist, þegar afurðaverð hefur fallið og aflaheimildir dregist saman.
    Það verður að vera hlutverk okkar hér á Alþingi að skapa þau skilyrði sem atvinnuvegirnir geta búið við og staðið af sér mögru árin sem nú ganga yfir. Á slíkum tímum er mikilvægt að þjappa þjóðinni saman. Byggð standi með byggð til að verjast og sækja þegar færi gefst.
    Hér á Alþingi verðum við að setja sáttagjörð um nýtingu auðlinda hafsins með sömu einurð og við höfum fært út og varið fiskveiðilögsögu landsins.
    Virðulegi forseti. Tillaga Alþb., sem hefur verið lýst við þessa umræðu, getur ekki verið valkostur við þá umræðu og við þá endurskoðun sem fer fram nú um stjórn fiskveiða.