Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 13:48:51 (7648)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú nokkuð um liðið frá því að umræðunni var frestað og þegar það var þá var vetur vel genginn í garð en núna er sumarið komið þannig að nokkuð hefur liðið frá því að umræða stóð yfir um þetta mál og verður að segjast eins og er að það þarf aðeins að rifja upp málavöxtu svo menn haldi þræði í málinu og átti sig á því um hvað meginatriði málsins snúast.
    Þetta frv. um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES var rætt hér í september og nóvember sl. og er eitt af grundvallarfrv. að Evrópska efnahagssvæðinu sem lýtur að launafólki. Frv. er eitt af stærri málunum í þessu samhengi öllu og því eðlilegt að menn þurfi nokkurn tíma til að fjalla um það og að það sé umdeilt.
    Frv. hefur tekið nokkrum veigamiklum breytingum í meðförum nefndar og hefur í raun og veru verið unnið upp á nýtt þannig að það sé lagalega séð ásættanlegt. Upphaflega var gert ráð fyrir því að það sem átti að lögfesta væri ekki í lögunum og það er dálítið sérkennileg frumvarpssmíð sem var töluvert gagnrýnd við 1. umr. málsins að efnisinnihald laganna skyldi ekki eiga að vera í lögunum. Þessu var breytt á þann veg að reglugerð nr. 1612 frá 1968, sem lagt er til að verði lögfest hér á landi, reglugerð frá Evrópubandalaginu, er prentuð sem fskj. með frv. og kemur því inn í lagasafn og menn hafa það handhægt hvað í lögunum felst. Þessi reglugerð hefur verið aðlöguð eins og það heitir að íslenskum aðstæðum og eru þær breytingar settar inn í fskj. þannig að menn eiga að hafa textann í endanlegri mynd.
    Þetta mál allt saman, um frelsi launafólks til að fara á milli landa og sækja sér vinnu innan Evrópska efnahagssvæðisins, er auðvitað afar viðkvæmt og hvað lýtur að íslenskum vinnumarkaði þá er það þýðingarmikið að það liggi ljóst fyrir hvaða áhrif það hefur á ákvæði í íslenskum kjarasamningum um forgangsréttarákvæði stéttarfélaga. Það hafa verið skiptar skoðanir um það og eins og fram kom við 1. umr. málsins. Ég hef sett fram verulegar efasemdir um það að þetta grundvallarákvæði kjarasamninga mundi halda í framhaldi af lagasetningu sem þessari og samningnum um Evrópska efnahagsvæðið í heild sinni.
    Ég rakti það nokkuð ítarlega við 1. umræðu málsins og hef ekki hugsað mér að endurtaka það þó það væri í sjálfu sér ástæða til þess vegna þess hversu langt er um liðið síðan sú umræða fór fram en ég geymi það betri tíma. Enn er eftir 3. umr. um þetta mál og ástæða til að líta á það á milli umræðna. Ég vil benda á að eftir að meiri hluti félmn. sendi frá sér málið út úr nefndinni þá kom fram bók frá utanrrn. sem heitir Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins, EB-gerðir sem til greina kemur að bætist við EES-samninginn. Þar kemur fram á bls. 143 að gerðar hafa verið breytingar á reglugerðinni sem hér er lagt til að verði lögfest, nr. 1612 frá 1968, í allnokkrum atriðum, breytingar sem gerðar voru 27. júlí 1992 og er ekki annað að sjá en þær breytingar hafi tekið gildi í Evrópubandalaginu. Ég tel að félmn. verði að líta á frv. eins og það lítur út núna út frá þessum breytingum og fá svör við því hvort nauðsynlegt reynist að breyta frv. eins og það lítur út núna á nýjan leik á milli umræðna eða síðar á þessu ári áður en samningurinn um EES tekur gildi ef það færi svo að hann yrði að veruleika.
    Þær breytingar sem EB gerði á þessari reglugerð í júlí á síðasta ári skipta verulegu máli, sérstaklega breytingarnar á 16. gr. reglugerðarinnar þar sem segir í þeirri reglugerð, eins og hún liggur fyrir Alþingi, það er rétt að lesa úr 1. mgr., með leyfi forseta: ,,Tilkynna skal um sérhvert laust starf sem skráð hefur verið hjá vinnumiðlun EFTA-ríkis og ekki hefur reynst unnt að ráða í vinnuafl af innlendum vinnumarkaði en manna má innan EES á grundvelli skýrslnanna sem getið er um í 15. gr. . . .  ``
    Með öðrum orðum, greinin eins og hún lítur út fyrir Alþingi í 2. umr. um þetta frv. gerir ráð fyrir því að tilkynning um laust starf til annarra aðildarríkja EES fari ekki fyrr en reynt hefur verið að manna starfið innan lands. Innlent vinnuafl hefur þar með forgang til starfsins. Breytingin sem Evrópubandalagið gerði á þessari grein var sú að fella brott þessa setningu eða þetta ákvæði um forgang innlends vinnuafls eða eins og segir í lýsingu utanrrn. á þessari breytingu, með leyfi forseta: ,,Enn fremur eru ýmsar óbeinar takmarkanir fyrir aðgangi launafólks að vinnumarkaði annarra aðildarríkja felldar brott, sbr. breytingar á 16. gr. og niðurfelling 20. gr. og viðauka vegna 16. gr.``
    Í lýsingunni segir enn fremur, með leyfi forseta:
    Úr 16. gr. er fellt niður ákvæðið ,,hefur ekki reynst unnt að ráða vinnuafl af innlendum vinnumarkaði``. Það eru þessi orð sem eru felld niður. Þessi breyting skiptir verulegu máli að mínu viti og eins breytingin á 20. gr. en í 1. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar eins og hún liggur fyrir Alþingi þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar röskun sem stefnt getur lífskjörum og atvinnutækifærum á tilteknu svæði eða í tiltekinni atvinnugrein í hættu, er fyrir hendi eða fyrirsjáanleg á vinnumarkaði EFTA-ríkis ber því ríki að tilkynna um það til eftirlitsstofnunar EFTA og hinna aðildarríkjanna og veita þeim nánari upplýsingar um málsatvik.``
    Síðan er hægt að grípa til ráðstafana þannig að menn sæki ekki um störf á því svæði eða í þeirri atvinnugrein.
    Þessi grein er öll í heild sinni felld á brott með breytingu EB á þessari reglugerð sem við erum að fjalla um og EB gerði 27. júlí 1992.
    Þar sem ég þykist skilja hugmyndafræðina á bak við EES þannig að samræmingin sé höfuðatriðið, samræmingin á öllum sviðum fjórfrelsisins sé meginmarkmiðið, það er ,,fundamentið`` undir batteríinu, þá sé ég ekki fyrir mér að það gangi að vera ekki með samræmingu á þessu, þ.e. annars vegar gildi reglugerðin hjá EB með þessum breytingum sem ég var að rekja, en á öðrum svæðum gildir hún eins og hún leit út fyrir þær breytingar. Ég hef svarað því fyrir mig þannig að það hljóti að vera meining íslenskra stjórnvalda að leggja til breytingar á þessum brtt. sem hér er verið að ræða þannig að reglugerð 1612 sem á að lögfesta líti þá út eins og reglugerðin lítur út í dag hjá Evrópubandalaginu. Það er í raun og veru meginspurningin til forsvarsmanna ríkisstjórnarflokkana. Á að breyta þessu, brtt. sem hér liggur fyrir, í samræmi við breytingar EB og ef svo er er þá ekki rétt að taka málið til umfjöllunar í nefnd aftur á milli 2. og 3. umr. vegna þess hversu afdrifaríkar breytingar er um að ræða? Ég vil a.m.k. fá að fjalla um málið

inni í nefnd á nýjan leik, sé það ætlun manna að gera þessar breytingar, því þær styrkja enn frekar þær grunsemdir og efasemdir sem ég hef haft um rétt og stöðu íslensks launafólks og stéttarfélaga og einkum og sér í lagi um stöðu þessa grundvallarákvæðis, sem íslensk stéttarfélög byggja afl sitt á, um forgangsrétt félagsmanna þeirra til vinnu umfram ófélagsbundið fólk.
    Ég hef legið dálítið mikið yfir þessu og fæ það ekki til að ganga upp að forgangsréttarákvæðið geti haldið að EES-samningnum teknum í gildi, einkum og sér í lagi þegar menn eru búnir að gera þessar breytingar á reglugerð 1612 sem kynntar eru í bókinni frá utanrrn. um EB-gerðir sem til greina kemur að bætist við EES-samninginn.
    Það segir reyndar í textanum frá utanrrn. um þessar breytingar svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar fela breytingarnar á reglugerð 1612/68 í sér breytingar á frv. til laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingar þarf að gera á fskj. þess frv. ef að lögum verður.`` Þannig að það er a.m.k. mat utanrrn. að það þurfi að gera breytingar. Það væri því rétt að formaður félmn., sem ég sé að er hér í salnum, veiti svör við því hvort hann og félmrh. séu sammála þessu mati utanrrn. Ef svo er þá fer ég formlega fram á það hér og nú að málið verði tekið til umfjöllunar í félmn. á milli 2. og 3. umr.
    Ég vil ekki orðlengja frekar um málið enda geng ég út frá því að orðið verði við þessari beiðni og umræða að öðru leyti fari þá fram við 3. umr.