Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 21:54:14 (7696)

     Frsm. utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Herra forseti. Svarið við spurningu hv. þm. um það hvers vegna tillagan er flutt núna er ósköp einfalt því að fyrir utanrmn. lá tillaga frá Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni sem nefndin þurfti að taka afstöðu til og þetta varð niðurstaða nefndarinnar í umfjöllun um þá tillögu. Nefndin hafði í sjálfu sér ekki frumkvæði að þessu máli öðruvísi en svo að hún þurfti að taka afstöðu til máls sem hafði verið flutt hér á þinginu í vetur og þetta varð niðurstaðan í nefndinni þannig að ég get ekki annað en vísað til þess. Ég taldi og allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að nefndin ætti að taka afstöðu til þeirra mála sem til hennar hafði verið vísað þannig að ef hv. þm. er þeirrar skoðunar að tillaga þeirra Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar hefði verið ótímabær, þá hefði átt að stoppa hana fyrr í þinginu. Þess vegna þurfti nefndin að taka afstöðu til málsins.
    Varðandi síðasta liðinn í nál., þá var það einmitt til þess að kalla fram viðbrögð eins og þau sem komu frá hv. þm. að nefndin ákvað að setja þetta í álitið. Að sjálfsögðu snertir þetta ekki beint þá tillögu sem hér er um að ræða heldur er þetta spurning sem hefur vaknað víða hvernig á að halda á þessum málum í þinginu og þarna lýsir utanrmn. sinni skoðun. Hv. þm. situr í forsætisnefndinni. Vafalaust getur hann rætt þetta á þeim vettvangi. Það þarf að ræða þetta innan þingsins en þeir sem standa að þessu nál. eru þeirrar skoðunar að utanrmn. sé hinn eðlilegi vettvangur en aðrir geta haft aðrar skoðanir og þá verðum við bara að ræða það hér og það væri hægt að ræða það í forsætisnefndinni og annars staðar og í þingflokkum, en utanmrn. þótti eðlilegt og skynsamlegt að kynna þetta viðhorf sitt opinberlega og notaði þetta tækifæri til þess.