Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:39:49 (7704)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Austurl. um það að við eigum að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Það er alveg rétt. En ég veit ekki betur en að það liggi fyrir Alþingi Íslendinga staðfesting á því að við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Það er það sem Alþingi er að taka ákvörðun um, ekki um að fara í tvíhliða viðræður við EB eins og ég hefði viljað að við gerðum en ekki að fara að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði með öllu sem því fylgir. Þar erum við hv. 1. þm. Austurl. ekki sammála. Hann telur greinilega að það sé eðlilegt að við gerumst aðilar að EES en ég geri það ekki.
    Núna tel ég of seint að fara út í tvíhliða viðræður við EB þar sem við stöndum frammi fyrir því að þessi samningur taki væntanlega gildi þó að það sé líka óljóst í þessu máli. Kannski verður hann aldrei að veruleika og þá er auðvitað eðlilegt að við förum í tvíhliða viðræður við EB.