Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:42:23 (7706)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hefur beint til mín nokkrum spurningum sem mér er bæði ljúft og skylt að svara.
    Fyrsta spurningin var um það hvort tillaga sú, samkomulagstillaga sú, sem hér er á dagskrá sem fulltrúar allra flokka í utanrmn. standa að sé saman sett í samráði við utanrrh. Svarið við því er einfalt, svarið er já. Formaður utanrmn., hv. 3. þm. Reykv., hafði um það samráð við mig og ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þessa tillögu. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. 3. þm. Reykv. í hans framsögu að ég tel þetta vera mikilvæga tillögu, bæði út á við gagnvart samningsaðilum okkar og eins inn á við og lýsa samstarfsvilja og samstarfshug að loknum hörðum deilum sem hafa geisað um nokkurt skeið um EES-samninginn.
    Víkjum þá að spurningunum. Fyrsta spurningin var þessi: Hvert er fyrirhugað efni þeirra viðræðna við EB um hugsanlegan tvíhliða samning við EB sem tillagan gerir ráð fyrir?
    Fyrirhugað efni er í stórum dráttum viðskiptaþáttur EES-samningsins. Mig minnir að það hafi þannig verið orðað í hinum upphaflega tillögutexta þeirra framsóknarmanna að það skyldi gera á grundvelli viðskiptaþáttar EES-samningsins. Forsendurnar fyrir þessu eru

þær að EES-samningurinn hafi tekið gildi en um stöðu hans gildi óvissa ef aðrir samningsaðilar EFTA-megin eru hugsanlega annaðhvort á leiðinni að verða eða eru orðnir aðilar að Evrópubandalaginu. Við þurfum að eyða þessari óvissu. Það kann að þýða að viðskiptaþáttur EES-samningsins kalli á viðræður um að breyta honum í tvíhliða samning að formi til. Það kallar á viðræður um hvernig fara skuli með eftirlits- og stofnanaþáttinn því augljósleg verður að semja um þann þátt að nýju. Og þegar ég segi á grundvelli viðskiptaþáttar EES þá geri ég ráð fyrir því að þar komi einnig til álita að taka upp önnur mál. Ég nefni sem dæmi að ef EFTA-ríkin gerast aðilar að Evrópubandalaginu þá kallar það á breytingar af okkar hálfu. Við höfum, svo ég nefni dæmi, náð fram samningum um fríverslun með fisk innan EFTA. Ef það markaðssvæði okkar er ekki lengur til og þessi ríki eru orðin aðilar að Evrópubandalaginu og eru þar undir þeim reglum sem þar gilda, þá er auðvitað eðlilegt að við leitum eftir því að taka þau mál upp í samningaviðræðum við Evrópubandalagið til þess að tryggja það að okkar hagsmunir verði jafn vel varðir gagnvart hinu sterka Evrópubandalagi og þeir áður voru.
    Önnur spurning: Eru þeir sem standa að tillögunni frá utanrmn. að lýsa því yfir að aðild Íslands að Evrópubandalaginu komi ekki til greina? Þessi spurning er væntanlega til þeirra og ekki beint til mín. Ég get aðeins sagt að það er ekki minn skilningur.
    Þriðja: Hvaða samhengi sjá tillögumenn milli umsókna fjögurra EFTA-ríkja að EB og þeirra viðræðna við Evrópubandalagið um tvíhliða samskipti sem tillagan gerir ráð fyrir? Samhengið er þetta sem ég vék þegar að í svari við fyrstu spurningu. Ef þessi fjögur EFTA-ríki eru orðin aðilar að stækkuðu Evrópubandalaginu þá er samhengið það að Ísland og hugsanlega Liechtenstein verða ein eftir upphaflegra EFTA-samningsaðila og þá breytist samningurinn að því er þau varðar væntanlega í tvíhliða samning og við erum að leita eftir því að fá það staðfest með formlegum hætti.
    Fjórða spurning: Mun utanrrh. tilkynna framkvæmdastjórn EB um slíka samþykkt Alþingis strax að henni gerðri? Já, að sjálfsögðu.
    Fimm spurning: Hyggst utanrrh. óska eftir þessum viðræðum áður en ljóst er hvort samningurinn um EES verði staðfestur? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það er ekki hægt. Það segir berum orðum að við óskum eftir því að taka upp slíkar viðræður, að þær hefjist eftir að samningurinn er kominn í gildi.
    Sjötta spurning: Mun ríkisstjórnin leita eftir viðræðum um tvíhliða samning við EB ef EES-samningurinn gengur ekki í gildi? Hér get ég aðeins svarað fyrir mig. Ég geri ráð fyrir því að við munum gera það eða að íslensk stjórnvöld muni gera það ef svo hrapallega tækist til.
    Annar liður þessarar spurningar: Mun ríkisstjórnin þá útiloka um leið að sótt verði um aðild Íslands að EB? Ég get ekki svarað því með afdráttarlausu og einföldu nei-i, það hljóta stjórnvöld á þeim tíma að meta eftir aðstæðum.
    Sjöunda spurning: Hver yrði hlutur utanrmn. Alþingis við undirbúning þeirra viðræðna sem tillagan gerir ráð fyrir? Hlutur utanrmn. er hinn lögbundni, hann er sá að stjórnvöld undirbúa slíka hluti í nánu samráði við utanrmn. og það er einnig mitt svar til hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar. Ég tel augljóst mál, bæði samkvæmt þessari tillögu og samkvæmt gildandi reglum að náið samráð verði haft við utanrmn. um undirbúning þessara viðræðna ef og þegar að þeim verður.