Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:49:20 (7707)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans, þau voru allskýr um flest atriði. Mér sýnist að málið hafi skýrst að því er varðar hæstv. ráðherra. Það kom hér fram að mér þótti sem meginatriði hans svara að hann lítur á þessa tillögu þannig að hún varði þá stöðu að leitað verði samningaviðræðna eða það verði raunhæft að taka upp samningaviðræður ef svo fer eða ef svo horfir að önnur EFTA-ríki verði orðin aðilar að Evrópubandalaginu og EES væri þannig fallið fyrir borð. Þetta las ég út úr svari hæstv. ráðherra. Jafnframt svaraði hann því með skýrum hætti fyrir sitt leyti að hann teldi ekki felast í tillögunni yfirlýsing um það að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina og

tvítók það í rauninni í sambandi við svör við þessum spurningum.
    Í þriðja lagi varðandi innihald samningsins að hann mundi fyrst og fremst byggja á viðskiptaþætti EES-samningsins. Þetta fannst mér innihaldið í svörum ráðherrans og mér sýnist að alllangt sé í það að þessi tillaga fari að hafa eitthvert praktíst gildi, út frá svörum ráðherrans, en þó væntanlega háð því hvernig menn meta stöðu þeirra ríkja sem eru að leita eftir aðild að Evrópubandalaginu. Þar geta menn vissulega haft greindar meiningar en ekkert verður ráðið í því efni fyrr heldur en ljóst er hvort þau ríki fara inn eða ekki.