Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 22:58:07 (7709)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna því að nú á síðkvöldi er farið að tala af meiri stillingu og meiri skilningi og meira viti um þessi mikilvægustu málefni okkar heldur en oft áður. Ég held að ég fari ekki rangt með það að lýsa umræðunni eitthvað á þann veg að bæði hæstv. utanrrh. og ýmsir hv. þm. sem hér hafa talað og nú síðast hv. þm. Halldór Ásgrímsson, og ég tala ekki um margar ræður Hjörleifs Guttormssonar, hafa talað um nauðsyn þess að ná góðu samkomulagi og reyna að flytja okkar mál þannig að þjóðinni muni vel farnast. Þetta gefur auðvitað tilefni til þess að rifja svolítið upp sögu þessa máls. Hún er skráð, eins og allir hv. þm. vita, í þessa merku bók sem heitir samt ekki annað en Ísland og Evrópa eða Evrópustefnunefnd. Einnig má minna á að það var 17. maí 1988 sem níu manna nefnd þingmanna var kjörin til þess að vinna að þessum mikilvægustu málum og gerði það með mikilli ánægju, geysilega miklu starfi og kannaði grundvöll allra þessara mála. Þar var reynt að birta öfgalausar skoðanir ýmissa þjóðfélagsafla og í lok þessa rits er einmitt dregið saman það sem menn eru alltaf að nefna, þ.e. hvort menn vilji aðhyllast Evrópubandalagið. Á síðu 253 í þessu ágæta riti þá segir í tölulið 1, en þeir eru æði margir töluliðirnir sem lýsa afstöðu einstakra manna, en um eitt eru menn sammála og það er töluliður 1, hann orðast þannig:
    ,,Aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá. Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á stefnuskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.``
    Þetta er skýrt og greinilegt og þar er ekki um að ræða að fara þá leið að breyta þessu ákvæði. Ef menn ætla sér að gera það þá verður beinlínis, eins og hér hefur verið nefnt, Alþingi að breyta þessari ákvörðun, að aðild að Evrópubandalaginu komi ekki til greina. Það er ákvörðun Alþingis, samþykkt, margítrekuð af hálfu allra íslensku stjórnmálaflokkanna og menn ættu að fara sér svolítið hægar í ummælum, kannski bæði opinberlega og eins undir veggjum, að reyna að vinna þingmenn til fylgis við aðild okkar að Evrópubandalaginu. Ef þeir ætla að gera það þá eiga þeir að segja það beint út að þeir berjist fyrir því og þá vita menn hvar þeir standa og geta tekið afstöðu í samræmi við það.
    Ég vil ekki eyða mjög miklum tíma að kvöldlagi, það er raunar óþarft að taka mikið fleira til athugunar. Ég tel það þó skylt þegar ég nefni að hinir ýmsu stjórnmálaflokkar og stjórnmálaöfl hafi lýst skoðunum sínum, þá get ég aðeins um skoðanir okkar sem vorum í þessum níu manna hópi frá Sjálfstfl. Það voru auk mín Guðmundur H. Garðarsson og Ragnhildur Helgadóttir. Þau segja að þau fagni þeirri miklu samstöðu sem náðst hefur í nefndinni en leggja höfuðáherslu á eftirfarandi: ,,Hvergi verði hvikað frá þeirri stefnu sem ríki Evrópubandalagsins viðurkenndu með bókun 6 frá 1972, sem gildi tók í lok þorskastríða 1976, að Íslendingar einir ættu réttindin til fiskveiða innan 200 mílna efnahagslögsögunnar og breytingar á þeirri stefnu komi ekki til greina.`` --- Þetta eru sumir menn ekki farnir að skilja enn þá. --- ,,Eignaraðild útlendinga að fiskveiði- og fiskverkunarfyrirtækjum verði áfram óheimil, sbr. lög nr. 33/1922.`` --- Sem raunar hafa verið afnumin, illu heilli líka. --- ,,Þegar verði teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 til leiðréttinga vegna breyttra aðstæða.``
    Síðan segir: ,,Á sama hátt ráði Íslendingar einir þeim fullveldisréttindum yfir landgrunninu utan 200 mílna sem þeim ber eftir 76. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samningum við nágrannaríkin um sameiginleg landgrunnsréttindi verði hraðað.``
    Þarna er einnig tekið fram það sem verið hefur algjörlega vanrækt og gjörsamlega óverjandi, þ.e. að friða Reykjaneshrygginn út í 350 mílur eftir hafréttarsáttmálanum, að taka okkur eignarrétt að Hatton-Rockall bankanum einir. Miðlína gagnvart Bretum gerir það að verkum að við eigum Hatton-Rockall svæðið eins og það leggur sig. Þar er gífurlega mikið af öllum mögulegum fisktegundum en því er engu sinnt vegna þess að hafa þarf einhverja óskaplega nærgætni í sambandi við eitthvað sem mér er óskiljanlegt. Það má ekki halda lífshagsmunum Íslendinga til haga með berum orðum og tala um það íslensku, ekki einhver önnur óskiljanleg tungumál.
    Utanrrh. talaði réttilega um að miðað við það að við tækjum upp einhvers konar viðskiptasamninga, tvíhliða viðskiptasamninga, þá mundu önnur mál verða þar rædd líka, það mundi leiða til þess. Upphaflegar umræður um viðskiptamál mundu leiða til þess að við gætum tekið upp önnur mál líka, pólitísk, ef ég hef skilið ráðherrann rétt og ég gerði það áreiðanlega. Það rifjar það upp að Henning Christophersen, aðstoðarframkvæmdastjóri framkvæmdanefndarinnar, aðstoðarformaður líklega framkvæmdastjórnarinnar, sagði það umbúðalaust á fundi í Evrópustefnunefnd, þar sem hún var fullskipuð, og margendurtók: Íslendingar hafa staðið við allt sitt og opnað alla markaði fyrir iðnvarningi Evrópuríkjanna og tollfrjálst og okkur ber að gera það sama gagnvart fiskinum.
    Það hefur ekki verið gengið eftir því að þetta væri gert, ekki fram á þennan dag. Það er enn þá sniðgengið að tala um það sem bókun 6 hljóðar upp á og er mergurinn málsins. Við njótum ekki sambærilegs réttar og Evrópuþjóðirnar vegna þess að við göngum ekki eftir honum. Okkur er boðið það en við gerum ekkert til þess að koma málinu í kring.
    Ég held að ég geti lokið þessu, þó það sé óteljandi margt sem við gætum um þetta rætt. Það sem ég hef nú sagt er mergurinn málsins og það getur ekki gengið mikið lengur að þessum brýnustu hagsmunamálum íslensku þjóðarinnar sé ekki sinnt. Það er alveg sama hvaða stjórnmálaflokkur verður við völd, hvaða ríkisstjórn verður við völd, það verður að knýja á það að öll stjórnvöld sinni þeirri frumskyldu sinni að tryggja réttindi okkar og þá auðvitað fyrst og fremst fiskveiðiréttindin. Við vitum raunar ekkert nema önnur séu mikilvægari en fiskur, þ.e. málmar. Þar að auki hefur fundist olía t.d. á Hatton-Rockall svæðinu. Innan íslenskra marka hefur fundist olía þar. Á Jan Mayen hryggnum hefur líka fundist olía og Normenn sömdu við okkur á sínum tíma, 1980--1981, um að kosta leit á olíu þar og hún hefur fundist. Það er þarna olía. Ég er ekkert að boða það að við eigum að vera einhverjir olíufurstar á morgun eða hinn daginn en auðvitað verðum við að halda til haga okkar náttúruauðlindum. Þessi mál sem við höfum verið að ræða síðustu vikurnar eru öll svo samtvinnuð að það er ekki hægt að taka eitt fram yfir annað. Við eigum að sameinast um að gæta allra gæða, bæði sjávar og landsins.