Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:21:28 (7773)

     Kristinn H. Gunnarsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Þetta stjfrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins er eins og fram hefur komið mjög umdeilt og einkum er það stjórnsýsluþátturinn sem hefur staðið styr um og er verulegur ágreiningur um þann þátt. Ég hef farið nokkuð yfir það í hverju pólitískar áherslur liggja á mismunandi veg eftir því í hvorri fylkingunni menn standa, í ríkisstjórnarliðinu eða stjórnarandstöðunni. Og ég tel að það skipti miklu máli að Alþingi bregðist við þessu frv. á sama hátt og gert var fyrir þremur árum að hafna stjórnsýslubreytingum í þá átt sem frv. gengur.
    Það eru vissulega fleiri atriði í þessu frv. sem eru umdeilanleg og það er líklega rétt að víkja að þeim líka þó að þau séu nú ekki eins stórvægileg og þessi stjórnsýsluþáttur. Þar er ég að vísa til tveggja annarra meginþátta frv. sem eru breytingar á ákvæðum laganna um skyldusparnað og breytingar á ákvæðum laganna um tækni- og hönnunardeild.
    Fyrst vil ég segja varðandi skyldusparnaðinn að eins og fram hefur komið í nál. minni hluta, þá telja menn nú rétt að gera breytingar á skyldusparnaðarkerfinu. Um það er samstaða meðal minni hluta félmn. og höfum við ekki hafnað því að skoða breytingar á þessu kerfi. Hins vegar er það svo aftur annað mál hvort allir séu á því að breytingin eigi að vera sú að leggja það alveg niður. Ég neita því ekki að ég er í hópi þeirra sem hafa vissar efasemdir um það að hverfa að fullu frá skyldusparnaðarkerfinu. Ég hef af því allnokkra reynslu í gegnum mín fyrri störf og hef séð að í býsna mörgum tilvikum hefur skyldusparnaður komið sér afar vel fyrir ungt fólk sem var að stofna til íbúðarkaupa og hafði lagt til hliðar í þessu skyni fé samkvæmt ákvæðum laganna um skyldusparnað. Mér er það nokkuð til efs að það sé farsælt á heildina litið að afnema úr lögum þetta skyldusparnaðarákvæði jafnhliða því sem tekið er á og breytt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt sem lúta að því að hvetja ungt fólk sjálfviljugt til að leggja fé

til hliðar til að spara fyrir íbúðarkaupum. En um síðustu áramót var gerð breyting á þeim lögum og þar ákveðið að afnema í áföngum þann hvata sem var í lögunum til þess að stofna slíka húsnæðissparnaðarreikninga þannig að með þessum breytingum bæði á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins og lögum um tekjuaukaskatt er verið að afnema allan hvata eða lögbindingu ungs fólks til þess að safna fé til íbúðarkaupa. Mér er til efs að það sé farsælt skref að ganga svo langt í þessum efnum og ég hefði gjarnan viljað ræða aðrar hugmyndir varðandi skyldusparnaðinn. Ég hefði talið það góðan umræðugrundvöll fyrir hv. þingnefnd og alþingismenn að ræða um breytingar á núverandi skyldusparnaðarkerfi á þann veg að lækka prósentuna sem af launum er tekin og jafnframt fækka undanþágum sem eru í lögunum frá skyldunni til að spara. Ég trúi því að hafi menn haft vilja til þess að setjast yfir það verkefni að finna samkomulagsflöt á þessum nótum, þá hafi það tekist og ég teldi það a.m.k. skynsamlegra að feta sig þá frá skyldusparnaðinum í áföngum í stað þess að afnema hann í einu lagi og fara algerlega út í óvissuna eins og lagt er til í þessu frv.
    Þá er það annað atriði sem veldur ákveðnum áhyggjum manna sem leiðir af þessari breytingu að fella niður algerlega skyldusparnað og borga hann út sem er að útstreymi af skyldusparnaðarreikningum verður afar mikið á fyrsta árinu eftir að þessi skyldusparnaðarákvæði hafa verið afnumin úr lögum. Þannig er gert ráð fyrir því í stjfrv. að útstreymið verði um 1.300--1.400 millj. kr. á þessu ári og það verður að segjast eins og er að það er ekki til neitt fé til að borga þetta út. Stofnunin verður að taka fé að láni til þess að greiða fólki út þennan skyldusparnað og auðvitað er þá verið að sækja meira fé inn á lánsfjármarkaðinn sem þessu nemur, um 1.400 millj. kr. á þessu ári og 4.000 millj. kr. alls á næstu árum fram til ársins 2000 og auðvitað liggur það fyrir að slík útgreiðsla stuðlar að því að viðhalda háum vöxtum jafnframt því sem hún getur líka stuðlað að því að hækka þá. Menn getur deilt um það hvort hún hækki vextina en ég held að hitt sé óumdeilanlegt að hún stuðar að því að viðhalda því háa vaxtastigi sem við búum við í dag. Bara út frá þeim forsendum er það ekki skynsamlegt núna þegar menn eru að glíma við það að ná vöxtum niður, a.m.k. er það krafa frá atvinnurekendum og launþegasamtökum að vöxtum verði náð niður, að grípa til aðgerða sem ganga til annarrar áttar. Ég hefði talið skynsamlegra af hálfu ríkisstjórnarinnar að fresta þessu ákvæði frv. til þess að vera ekki að stuðla að því að þrýsta upp vöxtum eða halda þeim uppi. Þetta ákvæði vegur líka þungt í mati manna á afgreiðslu einstakra tillagna í þessu stjfrv.
    Þá er það þriðji þáttur í þessu frv. sem eru þær breytingar að leggja niður tækni- og þjónustudeild stofnunarinnar. Þar verð ég að segja að mér er eiginlega alveg hulin ráðgáta hvernig hæstv. félmrh. hefur dottið það í hug að koma fram í þessu máli eins og reyndin hefur verið og við upplifðum á þeim vetri sem er að líða að taka í sínar hendur það vald sem ráðherrann er að biðja um að fá með frv. og það áður en frv. er samþykkt. Það hefur hér verið rakið áður hvernig staðið var að því að leggja niður svonefnda hönnunardeild með beinu valdboði hæstv. ráðherra sem mér er mjög til efs að ráðherrann hafi vald til stjórnskipulega og raunar er húsnæðismálastjórn um það sammála að ráðherrann hafi það ekki. Ég hlýt að fordæma slík vinnubrögð þegar offorsið er slíkt að hrint er í framkvæmd fyrirætlunum sem boðuð eru í frumvörpum og lagðar fram óskir í því frv. um heimildir til að koma í framkvæmd. Það hljóta allir að vera sammála um að réttur gangur á svona málum sé sá að fá heimildirnar áður en menn grípa til framkvæmda og síðan hafa menn ekki einu sinni fyrir því að breyta þessu frv. til samræmis við það sem búið er að gera. Hér stendur enn í frv. sem verið er að biðja Alþingi um að samþykkja í ákvæði til bráðabirgða: ,,Ráðherra er heimilt að selja eigur hönnunardeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins.`` Það er búið að selja þessar eigur fyrir löngu síðan og samningur um það liggur fyrir. Hvað á svona skrípaleikur að þýða? ( Félmrh.: Hver tók ákvörðun um það?) Það var húsnæðismálastjórn, meiri hlutinn í henni. (Gripið fram í.) Já, það er rétt að þeir svari því sem þá ákvörðun tóku. ( Félmrh.: Á þingmaðurinn ekki sæti í húsnæðismálastjórn?) Ég greiddi atkvæði gegn þessu. Það er rétt, hæstv. ráðherra, að þeir svari fyrir það sem ákvörðunina tóku og það voru þeir sem fylgja ríkisstjórninni að málum sem gerðu það. Og ég held að hæstv. ráðherra ætti nú ekki að vera að gera sig breiðan í þessum efnum.
    Ef það er mat stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálastjórn að þeir hafi getað selt þessar eigur án lagaheimildar, þá er spurn, hvers vegna er þá verið að hafa þetta hér inni? En það er greinilegt að ráðherrann er ekki sammála því mati og ætti því að setja ofan í við sína undirmenn eða sína stuðningsmenn í stjórninni í þeim efnum.
    Hvað varðar einstakar tillögur í þessu stjfrv., þá má segja að afstaða mín til þeirra komi fram að mestu leyti í umsögn húsnæðismálastjórnar ríkisins um þær greinar og því ekki ástæða til að tíunda það frekar að sinni. En ég vil víkja einnig að fleiri þáttum því löggjöf um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér er verið að endurskoða hefur fleira að geyma en ákvæði um það hvernig stofnunin skuli vera skipulögð, yfirstjórn og þess háttar heldur líka eru í þeirri löggjöf ýmis önnur atriði sem snerta húsnæðismál og skipta miklu máli. Þar vil ég nefna m.a. húsbréfakerfið sem hefur ekki verið mikið rætt í umræðu um þetta mál og er ástæða til að gera ítarleg skil. Og þar má líka nefna ákvarðanir um vexti á þeim lánum sem veitt eru úr byggingarsjóðum ríkisins og verkamanna. Hæstv. ráðherra ásamt ríkisstjórninni hefur tekið ákvarðanir sem hafa skipt miklu máli fyrir þá sem eiga þarna lán og ég vil minna á það að núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir hækkun vaxta, bæði úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna. Á síðasta ári hækkuðu vextir af lánum úr Byggingarsjóði ríkisins upp í 4,9% og núna 1. mars sl. hækkuðu vextir af lánum úr Byggingarsjóði verkamanna úr 1% upp í 2,4%. Þarna er verið að sækja verulegt fé til þeirra sem eiga

samkvæmt laganna hljóðan og anda laganna að vera síst undir það búnir að taka á sig auknar byrðar og samanlagt er vaxtahækkunin úr báðum þessum sjóðum um það bil 1 milljarður kr. miðað við heilt ár. Hæstv. ráðherra hefur með atbeina sínum þannig aukið skuldagreiðslubyrðina hjá þessu fólki sem því nemur. Hæstv. ráðherra er hollt að minnast þess að hann hefur nokkuð hampað því atriði að menn fái ekki lán nema að undangenginni athugun á getu þeirra til að borga af lánum, svokölluðu greiðslumati, þannig að menn fái ekki hærra lán en svo að tekjur standi undir afborgunum af þeim lánum.
    Með ákvörðun eins og þessari er verið að rústa þessar forsendur. Með ákvörðun eins og þessari er verið að taka býsna marga sem hafa tekið lán á undanförnum árum og setja þá stöðu að þeir standast ekki greiðslumat í dag ef þeir fara í gegnum það, ef það yrði framkvæmt. Og hvernig á þetta fólk að standa straum af afborgunum sinna lána? Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa velt því fyrir sér hvar þetta fólk á að taka fé til þess að standa undir afborgunum af sínum lánum.
    Hækkun vaxta hefur líka önnur áhrif í félagslega kerfinu sem ekki hefur verið gefin nægilegur gaumur að en ég tel að menn verði að fara rækilega ofan í. Í félagslega eignaríbúðakerfinu er það þannig að með hverri afborgun af láni eignast menn pínulítinn hlut í íbúðinni, það verður eignamyndun. Með því að hækka vextina eins og gert hefur verið úr 1% upp í 2,4% er verið að minnka eignarmyndunarþáttinn stóran hluta af greiðslutímabilinu. Það sem menn eru að borga með hærri upphæðum nýtist ekki einu sinni til að auka eignamyndunina heldur minnkar hún þvert á móti þannig að hér er um að ræða má segja að nokkru leyti hálfgerða eignaupptöku. Með aðgerðum er verið að koma í veg fyrir það að þær forsendur sem menn gengu út frá þegar þeir tóku lánið standist, enda er það svo, virðulegi forseti, að vanskil eru umtalsverð og hafa farið vaxandi og ég hef hér upplýsingar um vanskil úr byggingarsjóðunum eins og þau voru núna nýlega. Og ef við lítum til Byggingarsjóðs verkamanna, þá voru vanskilin samkvæmt þeim gögnum sem ég hef miðað við 30. mars um 380 millj. kr. Í Byggingarsjóði ríkisins voru vanskilin um 850 millj. kr. og í húsbréfadeild voru vanskilin um 300 millj. kr. þannig að hér eru menn að tala um að vanskilin hafi verið samtals liðlega 1,5 milljarðar kr. Og hvernig hyggst ríkisstjórnin koma til móts við fólk sem getur ekki staðið straum af afborgunum sinna lána, m.a. vegna aðgerða núv. ríkisstjórnar með hækkun vaxta auk annarra aðgerða sem nefna má eins og t.d. í skattamálum? Það eru engar tillögur um það í þessu stjfrv. hvernig eigi að taka á þessum vanskilum, ekki nokkrar. Það er ekki einu sinni vikið að því einu orði þannig að hæstv. ráðherra lítur ekki á það sem neitt vandamál, telur það ekki einu sinni þess virði að þurfa að líta á það hvernig menn ætla að standa að því sem liggur fyrir að þurfi að gera, að aðstoða fólk við að komast út úr vanskilum sem eru að safnast upp í öllum sjóðunum. Og það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. félmrh. hvaða áform eru uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að taka á aðsteðjandi vanda vegna vanskila. Í þessu stjfrv. kemur ekkert fram um þetta mál. En það er ljóst að ef á að taka á þessum vanda með einhverjum hætti, þá þarf lagabreytingar og þær lagabreytingar þyrftu menn að afgreiða nú í vor. Það væri alveg óþarfi og engum til góðs að geyma það fram á haustið ef menn á annað borð eru í þeim hugleiðingum að það þurfi að grípa til aðgerða til að mæta þessum vanda. Það hefur verið vakin athygli á þessu vandamáli og það liggja fyrir tillögur til úrbóta í þessum efnum, m.a. frá mér og hv. þm. Svavari Gestssyni, frv. sem liggur í félmn. Alþingis en hefur ekki fengið stuðning stjórnarliða en það frv. er einmitt lagt fram til þess að takast á við þann vanda sem vanskilin eru orðin. Menn geta deilt um það hvort sú leið sem þar er lögð til sé sú rétta eða sú besta og við erum opnir fyrir því að ræða aðrar hugmyndir eða breytingar á þeirri sem við leggjum til, en aðalatriðið er að menn fáist til að viðurkenna að það þarf að taka á þessu vandamáli og hæstv. félmrh. verður að mínu mati að gera sér grein fyrir því að það verður að taka á því hér og nú. Það er áformað að ljúka þingstörfum í næstu viku og ætli menn sér á annað borð að grípa til einhverra aðgerða, þá verða menn að gera það núna meðan málið er hér til umræðu. Það verður að mínu mati of seint að gera það á haustmánuðum. Og ég vil nú skora á hæstv. ráðherra að upplýsa um áform ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, hvort hún hyggist ekki beita sér fyrir lagabreytingum í þessu skyni eða hvort það er stefna ríkisstjórnarinnar að gera ekki neitt, að láta eins og þetta mál komi henni ekki við. Og ég tel að það væri afar slæmt ef umræðunni lyki án þess að fyrir lægju svör ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherra fyrir hönd hennar í þessum efnum. Þetta er að mínu mati það mál sem er hvað brýnast að takast á við og skiptir mestu máli að Alþingi komi fram með úrbætur og skiptir mun meira máli heldur en það að leggja niður hönnunardeild eða skyldusparnað. Það er að mínu viti frekar aukaatriði í þessu stóra samhengi.
    Þá vil ég aðeins víkja að húsbréfakerfinu sem er eitt stærsta málið í þessari löggjöf og væri nú skaði að ekki hlyti verðuga umfjöllun í umræðum um húsnæðismál. Það fer ekki hjá því að menn hljóti að velta mjög vöngum yfir því hvort við séum á réttri leið með þeirri útgáfu húsbréfa sem ástunduð hefur verið á síðustu árum, en það stefnir í að það verði búið að gefa út húsbréf fyrir um 45 milljarða kr. í lok þessa árs á aðeins þremur árum eða fjórum árum, --- þremur því að útgáfan hófst undir lok ársins 1990. Áhrif slíkrar útgáfu á skuldabréfum eða húsbréfum eru augljós. Þessi bréf hafa haldið uppi vaxtastiginu í landinu. Það er engum blöðum um það að fletta og þegar menn horfa framan í það að atvinnulífið er að hrynja m.a. vegna þess hversu hátt vaxtastigið er og hefur verið á undanförnum árum, þá hlýtur maður að spyrja: Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir í þessum efnum? Á að halda áfram að gefa út húsbréf fyrir 12 milljarða á ári? Stuðlar það að því að menn nái niður vöxtunum þannig að menn geti endurreist atvinnulífið eða haldið því gangandi þar sem það tórir þó enn? Í þessu stóra samhengi hljóta menn að horfa á útgáfu húsbréfa og velta fyrir sér því hvort eigi ekki að taka á henni núna við afgreiðslu á þessu frv.
    Það eru auðvitað ýmsar leiðir til þess að draga úr útgáfu bréfanna. Menn geta farið nokkrar mismunandi leiðir að því marki. ( Félmrh.: Má ég heyra þær?) Þær eru ýmsar til, hæstv. ráðherra, og ráðherra heyri ég að er óðfús að fá að vita hvaða leiðir það eru. Það kemur nú eiginlega á óvart ef hæstv. ráðherra veit það ekki hvaða leiðir það eru sem hægt er að fara til þess að draga úr útgáfu húsbréfa. ( Félmrh.: Ég vil heyra skoðun þingmannsins á því.) Skoðun þingmannsins er afdráttarlaus á þessu kerfi. Menn hafa dælt of miklum peningum út á of skömmum tíma ( Félmrh.: Hvernig á að takmarka það?) með þeim afleiðingum að vaxtastigið hefur haldist allt of hátt hér á landi. ( Félmrh.: Hvernig vill þingmaðurinn takmarka útgáfuna?) Ég skal koma að því, hæstv. ráðherra. En ég vil einnig benda ráðherranum á annað sem leitt hefur af þessari miklu útgáfu og það eru afföllin. ( Félmrh.: Ætlar þingmaðurinn að koma sér hjá að svara mér?) Og ef við miðum við það að búið verði að gefa út 44 milljarða kr. í húsbréfum og þá staðreynd að afföll hafa nú ekki farið niður fyrir 10% og hrokkið allt upp í 25%, þá er hverjum manni ljóst að við erum að tala um afföll upp á milljarða kr. Hversu marga milljarða er erfitt að slá á. Ég hef ekki gert tilraun til að reyna að taka það saman en miðað við efri og neðri mörk á afföllunum, þá er ljóst að talan liggur einhvers staðar á bilinu 5 til 7--8 milljarðar kr. Það eru gríðarlegar tölur sem er velt yfir á herðar þeirra sem eiga að borga á næstu 25 árum fasteignaverðbréfin. Og hæstv. ráðherra sagði það og hélt því ítrekað fram þegar ráðherrann var að berjast fyrir húsbréfakerfinu sínu, að það yrðu engin afföll af þessum bréfum. Það sagði ráðherrann m.a. í viðtali við blað sem hét Helgarpósturinn og blað það sem ég vitna til kom út 23. febr. 1989, þegar ráðherrann var að vinna fylgi fyrir þessari leið. Þar hélt ráðherrann því fram að það væri ástæðulaust að óttast það að afföll mundu verða af húsbréfum. Hverjar eru skýringar ráðherrans á því að þessar fullyrðingar hans hafa ekki staðist? En það er dýrt fyrir fólkið sem tók þessi lán að hafa trúað ráðherranum á þessum tíma. Það er dýrt fyrir fólkið sem á árinu 1991 var að taka húsbréf til að kaupa hús eða skuldbreyta og þurfti að bæta 25% ofan á þá upphæð sem var verið að gera upp og skrifa undir skuldabréf að þeirri upphæð sem það á að borga á næstu 25 árum. Það er skatturinn sem það fólk þarf að borga til hæstv. fémrh. ef svo má að orði komast. Það er það sem var lagt á herðar fólksins sem því hafði verið sagt að mundi ekki verða og hæstv. ráðherra ætti nú að eyða tíma sínum í það að reyna að útskýra það fyrir þingi og þjóð, kannski sérstaklega þeim sem eru að borga af þessum lánum, hvers vegna ráðherra reyndist ekki fara með rétt mál í þessum efnum.
    En það er af nógum hugmyndum að taka ætli menn að takmarka útgáfu á húsbréfum. Við erum með mjög einfalda mynd fyrir framan okkur að við höfum of litla peninga úr að spila þannig að við getum ekki lánað öllum það fé sem þeir vilja fá strax. Það er bara einföld staðreynd. Og loforð um kerfi sem lánar öllum það fé sem menn vildu fá og það strax hafa reynst haldlítil vegna þess að fólkið þarf sjálft að borga kostnaðinn við það með afföllunum. Og ætli menn að viðhalda kerfi sem er nánast gefið út eftir eftirspurn, þá eru menn í þessari krísu af því að á endanum er alltaf einhver sem þarf að kaupa þessi bréf og það er einfaldlega takmarkað fé. Það er ekki ótakmarkað fé til að kaupa þessi verðbréf öll sem verið er að bjóða upp á. Og húsbréfakerfinu hefur nú reyndar þegar verið breytt og þessi staðreynd hefur verið viðurkennd. Þegar menn lækkuðu hámarkslánin á þessum bréfum, þá voru menn að beygja sig undir þessa staðreynd þó að það hafi ekki dugað til þess að halda afföllunum niðri.
    Ég vil, virðulegi forseti, láta þetta duga að sinni í umfjöllun um þetta frv. en ég hyggst nú taka til máls á nýjan leik og ræða þá þætti málsins sem ég lét hjá líða að þessu sinni að fara yfir að nokkru leyti og suma jafnvel að öllu leyti því ég tel ástæðu til að þessi mál verði ítarlega rædd og að þingmenn láti í sér heyra með myndugum hætti og lýsi þar af stöðu sinni til þessa frv. og húsnæðismála.