Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 22:09:13 (7858)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem fram kom í þingskaparæðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og hæstv. félmrh. þá er það ekki rétt að stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar ríkisins sé óljós. Hún er þvert á móti mjög ljós. Hitt liggur ljóst fyrir að staðan er ekki ráðherranum að skapi en það er önnur saga. Það er t.d. alveg ljóst að stofnuninni ber að svara erindum frá ráðherra undanbragðalaust og veita ráðherra þær upplýsingar sem hann biður um. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað rakið dæmi um það að hann hafi ekki fengið þær upplýsingar sem hann hefur beðið um. Það er það sem eru alvarlegar ásakanir á hendur embættismönnunum sem ráðherrann sleppti að telja upp áðan í þingskaparæðunni þegar hann var að telja upp efnisatriði ræðu sinnar, þá sleppti ráðherrann nákvæmlega þessum atriðum. ( Félmrh. : Ég nefndi bréfið um viðhald á félagslegu húsnæði.) Ráðherrann sagði hér að ráðuneytið hefði verið hunsað og ekki fengið svar við bréfum og það hefðu ekki fengist upplýsingar m.a. um þóknanir fyrir nefndastörf, svo ég nefni nú tvennt sem ég punktaði niður eftir hæstv. ráðherra um upplýsingar sem ráðherrann segist ekki hafa fengið frá embættismönnum stofnunarinnar. Þess vegna er ósk mín fram komin m.a. og meðal þess að hæstv. ráðherra heldur því fram að stjórn Húsnæðisstofnunar hafi framið lögbrot og þá er nauðsynlegt að fá einnig formann húsnæðismálastjórnar til viðræðna við félmn. en ég stend við mína ósk, virðulegi forseti.