Húsnæðisstofnun ríkisins

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 14:33:23 (7887)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Þegar stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins var kosin fyrir tveimur árum þá var hún kosin til næstu almennu alþingiskosninga eins og ákvæði laganna hljóða í dag. Það hefur hvergi komið fram í umræðunum neinn rökstuðningur fyrir því að ástæða væri til að stytta kjörtímabil núv. húsnæðismálastjórnar. Ég tel að það sé þarflaust að samþykkja ákvæði til bráðabirgða IV um að endurskipa stjórnina þegar í stað. Það hefur þann tilgang einan að víkja út úr stjórninni fulltrúum Alþýðusambands Íslands og fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands. Ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi að gera slíkt fyrr en ella væri miðað við kjörtímabil stjórnar og greiði því atkvæði gegn þessu ákvæði.