Vegáætlun 1993--1996

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 14:39:59 (8193)

     Frsm. minni hluta samgn. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni samgn. fyrir greinargóða framsögu. Ýmislegt er nú rétt sem hann sagði en annað ofmælt því hann kom m.a. inn á það að honum þætti alveg furðulegt að samgn. sem væri búin að vinna að þessu í sameiningu skyldi ætla að sitja hjá við alla liði, þ.e. minni hlutinn, og standa ekki að þeirri vegáætlun sem hér er lögð fram. Það bendir nú eiginlega til þess að hann hafi ekki lesið álit minni hlutans því að samkvæmt því sem þar stendur byrjum við á að lýsa því yfir að við gerum ekki athugasemdir við afgreiðslu þingmannahópa kjördæmanna sem hafa fjallað um skiptingu vegafjár og eru þar af leiðandi að sjálfsögðu hver og einn í sínum kjördæmahópi sammála því.
    Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta samgn. sem er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna á allmörgum fundum og fengið til liðs við sig m.a. starfsmann Vegagerðar ríkisins og fulltrúa samgrn.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við afgreiðslu þingmannahópa kjördæmanna sem fjallað hafa um skiptingu vegafjár innan þeirra.``
    Það sem við gagnrýnum fyrst og fremst er tekjuáætlun og Stórverkefnasjóður. Um tekjuáætlunina segir svo:
    ,,Minni hlutinn gagnrýnir að tekjustofnar vegáætlunar séu skertir með þeim hætti sem gert er í þál.

og lögbundnir tekjustofnar til vegamála þannig notaðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Minni hlutinn telur að réttara hefði verið að Vegasjóður héldi sínum tekjustofnum og hið svokallaða framkvæmdaátak hefði verið lækkað um þá upphæð sem nemur skerðingunni. Fyrir allt tímabil vegáætlunar er Vegasjóður skertur um 886 millj. kr. sem færðar eru í ríkissjóð, þar af fyrir yfirstandandi ár 344 millj. kr.
    Þá hefur ríkissjóður einnig farið inn á markaða tekjustofna til vegagerðar með álagningu sérstaks bensíngjalds.`` --- Það er 4,50 kr. á hvern lítra og var afgreitt hér í fjárlögum. --- ,,Áætlað er að það skili ríkissjóði tekjum upp á 750 millj. kr. samkvæmt fjárlögum 1993.
    Í vegáætlun eru nú framlög til ferja og flóabáta upp á 330 millj. fyrir árið 1993, 551 millj. kr. árið 1994, 569 millj. kr. árið 1995 og 555 millj. kr. árið 1996 og skerðist framkvæmdafé til vegagerðar sem því nemur.``
    Þær 1.550 millj. sem merktar eru framkvæmdaátaki í vegamálum á yfirstandandi ári, sem mikið hefur verið gert út af hér í umræðum, er vissulega stór upphæð og ef þær væru bara viðbótarfé við framkvæmdaáætlun vegáætlunar, þá værum við að sjálfsögðu mjög ánægð með það. En það er ekki einu sinni að búið sé að ákveða hvernig þessar millj. verði teknar eða hvernig þær verði endurgreiddar eða hvenær þær koma til frádráttar á framkvæmdafé vegáætlunar á næstu árum. Ef þetta er síðan skoðað nánar, þá er á þessu ári um 876 millj. að ræða sem er aukning til vegaframkvæmda frá því sem áætlunin hefði verið. Þá er ég að draga frá 344 millj. sem eru fyrst teknar og settar í ríkissjóð og einnig 330 millj. sem í þessari vegáætlun er ætlað til ferja og flóabáta. Það er því alveg augljóst að það eru ekki 1.550 millj. sem eru til viðbótar, heldur 876 millj.
    Við getum líka skoðað hvernig framkvæmdaáætlunin eða vegáætlunin hefði litið út á síðasta ári, en eins og menn muna kannski frá umræðum í fyrra, þá var vegáætlunin í fyrra skert um 765 millj. Ef við tökum það til viðbótar og bætum því við skerðinguna í ár þá eru 111 millj. eftir sem er nýtt fé ef við skoðum þessi tvö ár sameiginlega. Skerðingin í fyrra sem var allveruleg og það sem kemur til frádráttar núna með skerðingu, og framlög til flóabáta og ferja, þá eru rúmar 100 millj. eftir af þessum 1.550 þannig að þetta er nú dálítill leikur með tölur eins og menn hljóta að sjá.
    Við teljum að hér sé verið að gefa ávísun á minnkandi framkvæmdir á næstu árum eða eftir 1996. Þá hlýtur að koma til greiðsla á þeim lánum sem verið er að taka og heimfæra á sem auknar vegaframkvæmdir og hlýtur það að draga úr framkvæmdagetu Vegasjóðs sem því nemur. Eins og kom fram hjá formanni áðan þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um lánstíma eða tilhögun á endurgreiðslum þessara fjármuna. Hitt getum við aftur á móti viðurkennt að það er aukning samt sem áður, það eru þarna 111 millj. kr. ef við tökum þessi tvö ár, skerðinguna í fyrra og það sem skert er núna. Það hefði bara verið miklu eðlilegra að setja þetta rétt upp heldur en að setja fyrst upp 1.550 millj. sem framlag og draga síðan 344 millj. frá og setja inn ferjur og flóabáta í vegáætlunina líka. En ég ætla ekki að orðlengja það neitt frekar, það er svo sem oft búið að ræða þetta hér. Þetta var einnig rætt í umræðunum um fjárlögin þannig að menn hafa sjálfsagt heyrt eitthvað af þessu áður.
    Það sem við gagnrýnum fyrst og fremst, að öðru leyti, er að nú skuli eiga að bæta við verkefnum á Stórverkefnasjóð. Hlutverk sjóðsins hefur frá árinu 1989, þegar hann var stofnaður eða búinn til liður yfir hann í vegáætlun, verið að fjármagna gerð jarðganga, stórbrúa og fjarðaþverana. Hér átti að vera um mjög fá en stór verkefni að ræða. Í langtímaáætlun sem hér var rædd þó að hún væri ekki samþykkt endanlega, þá hefur samt verið unnið eftir henni. Í henni er gert ráð fyrir að á eftir jarðgöngum á Vestfjörðum, sem nú er verið að vinna að, komi framkvæmdir við jarðgöng á Austfjörðum. Í brtt. frá meiri hluta nefndarinnar er tekin inn ný skilgreining á hlutverki Stórverkefnasjóðs sem gerir ráð fyrir því að framkvæmdir við bættar vegasamgöngur milli Norður- og Austurlands rúmist þar inni og einnig vegaframkvæmdir við Búlandshöfða á næstu árum.
    Komið hefur fram ákveðin skoðun af hálfu meiri hlutans þegar spurt var út í hvort þetta yrði ekki til þess að frestað yrði framkvæmdum við jarðgöng á Austfjörðum, það yrði ekki eins og talað hafði verið um að þær kæmu næst á eftir Vestfjarðagöngum. Sem Vestfirðingi er mér kunnugt um að það var mikil samstaða milli Vestfirðinga og Austfirðinga um að Vestfirðir hefðu þarna forgang og Austfirðir kæmu síðan næst á eftir. Þegar þetta var rætt nánar í samgn. kom sú skoðun fram hjá meiri hlutanum að með því að taka inn nýja skilgreiningu á stórverkefnum sé verið að fresta gerð jarðganga á Austfjörðum eitthvað fram á næstu öld, en samkvæmt langtímaáætlun í vegagerð voru jarðgöng á Austfjörðum inni árin 1995--1998, eða á öðru tímabili langtímaáætlunar, með 448 millj. kr. En samkvæmt þeirri tillögu sem við erum að ræða eru 28 millj. til þeirra hluta fyrir þann tíma sem þessi vegáætlun nær yfir, þ.e. árin 1993--1996.
    Við í minni hlutanum teljum að með þessum breytingum sé verið að víkja frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið um jarðgangagerð. Stórverkefnasjóði er ætlað að fjármagna fleiri verkefni en áður án þess að fá til þess aukna tekjustofna. Það hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess að dreifa þarf framkvæmdum á lengra tímabil.
    Ekki er deilt um það að hin nýju verkefni séu viðamikil og fjárfrek og því erfitt að fjármagna þau af framkvæmdafé viðkomandi kjördæma. Til þess að bæta við verkefni Stórverkefnasjóðs þyrfti hann hins vegar aukið fjármagn. Á því er hins vegar ekki tekið í tillögum meiri hlutans. Það er rétt að minna á það í þessum umræðum að þegar liðurinn Stórverkefni var tekinn upp í vegáætlun þá var það byggt á þeim forsendum, samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Vegagerðarinnar, að fjárhagsrammi sjóðsins yrði víkkaður. Þær upplýsingar hef ég frá Vegagerðinni að rætt var um það að til þess að Stórverkefnasjóður gæti skilað sínu hlutverki, þetta eru stór og mikil og fjárfrek verkefni, þá þyrfti að finna honum nýja tekjustofna eða að fjárhagsrammi hans yrði víkkaður eða aukinn á einhvern hátt. Og það er fyrst og fremst það sem ég hef verið að segja. Þarna er bætt inn verkefnum sem ég sé ekki hvernig eigi að rúmast með sömu áætlun og gerð hafði verið um framkvæmdir úr Stórverkefnasjóði sem rætt hefur verið um í ákveðinni röð. Það er verið að taka þarna inn í verkefni sem eiga að koma inn á milli þeirra áætlana sem áður höfðu verið gerðar, sem samkomulag hafði verið gert um.
    Þá telur minni hluti nefndarinnar að í algert óefni sé komið hvað varðar fjármagn til framkvæmda við þjóðbrautir. Víða er svo komið að viðhaldi er mjög ábótavant, jafnvel svo að slysahætta getur skapast af. Ljóst er að þörf er á auknu viðhaldi vega, bæði vega með bundnu slitlagi og malarvega. Endurnýjun á slitlögum vega hefur á undanförnum árum verið langt frá áætlaðri þörf. Nauðsynlegt er að auka fjármagn til þessa hluta vegaþjónustunnar á næstu árum --- og ég hef raunar trú á því að þar sé meiri hluti samgn. okkur sammála.
    Af þessum ástæðum fyrst og fremst sem ég hef nefnt, en ekki vegna þess að við séum að gagnrýna skiptingu á vegafé innan annarra flokka eða innan kjördæma eins og ég sagði áðan, og ekki vegna þess að við gagnrýnum það að markaðar tekjur, bensíngjald og fleira sé útreiknað rétt. Við gagnrýnum fyrst og fremst að verið er að skerða Vegasjóð, bæta síðan við framkvæmdaátaki, draga síðan frá framlög til ferja og þar að auki er ekkert minnst á þá skerðingu sem gerð var í fyrra. Það er fyrst og fremst þetta sem gerir það að verkum að einstakir nefndarmenn munu þar af leiðandi sitja hjá við afgreiðslu vegáætlunar eða einstakra liða hennar. Ég hef ekki gengið út frá því að minnihlutamenn mundu allir sitja hjá við þetta allt saman, það fer eftir hverjum og einum. En þetta eru þau atriði sem við vildum koma á framfæri.