Jöfnunartollur á skipasmíðaverkefni

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:12:42 (8215)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil út af fyrir sig fagna því að þessi tillaga skilaði sér úr nefndinni. Hins vegar get ég ekki lýst yfir neinni sérstakri ánægju með það að málinu skuli vera vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það sé ekki eftir neinu að bíða, menn eigi að taka á þessu máli með því að setja jöfnunartolla á, eftir mat á einstökum þáttum í því sambandi. Mér finnst alveg með eindæmum að við skulum horfa á það að hæstv. iðnrh. skuli samviskusamlega gefa út nýjar reglugerðir um tolla, jöfnunartolla, á kökur og kex, á þriggja mánaða fresti sem ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna, en að hann skuli ekki geta komið því heim og saman að beita jöfnunartollum gagnvart þeim sem hafa verið að keyra yfir okkur í sambandi við skipasmíðarnar á undanförnum árum. Þar höfum við tapað á hverju ári tugum og hundruðum starfa sem eru störf að þjónustu við okkar undirstöðuatvinnuveg, þ.e. útgerðina. Þetta horfum við upp á, aðrir í kringum okkur draga þessa atvinnustarfsemi til sín og eru ekkert að gera það af neinni góðmennsku við okkur eða af því að þeir séu svo vitlausir að vera að styrkja þetta fram úr hófi. Þeir eru að gera þetta vegna þess að skipasmíðar eru einhver mest atvinnuskapandi atvinnugrein sem hægt er að halda á floti því hvert starf við skipasmíðar skapar líklega upp undir þrjú önnur í landinu.