Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:49:02 (8312)

     Frsm. sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta mjög. Mér þykir vænt um þá yfirlýsingu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að hann ætli ekki að leggjast í víking gegn þessari tillögu, það tel ég eðlilega ályktun og rökrétta af síðustu landsfundarsamþykkt Alþb. sem einmitt var í þá veru að það ætti að efla starfsemi af þessu tagi. Formaður hans flokks hefur einmitt staðið sig mjög vel í þessu, bæði sem almennur þingmaður og jafnframt líka á meðan hann var í ríkisstjórn. Þar beitti hann sér fyrir því að opna ákveðna braut, t.d. gagnvart Mexíkó, sem núv. hæstv. ráðherra hefur síðan haldið áfram. (Gripið fram í.)
    Ég vil hins vegar segja það, hv. þm., að ég tek fullt mark á þeim viðvörunarorðum sem þingmaðurinn færði fram varðandi ástand lífríkis á heimsmælikvarða. Það er rétt athugað hjá honum, það er alls ekki nógu gott. Hins vegar eru menn auðvitað að tala um stofna og svæði þar sem enn eru ónýttar eða vannýttar tegundir. Ég gæti farið með langan lista. Mig langar bara að nefna tvennt. Í Barentshafi til að mynda eru geysilega auðug kolamið sem ekki hafa verið nýtt frá því rétt fyrir 1950 þar sem menn voru að veiða tugþúsundir tonna vegna þess að Moskvuvaldið ákvað að það ætti ekki að hafa smábáta heldur einungis stóra togara þá legðust þær af. Þarna er um að ræða ákveðin tækifæri sem Íslendingar með þeirri þekkingu sem þeir hafa aflað sér gætu leitt til þess í samstarfi við Rússa að veruleg verðmæti væru á land dregin. Ég gæti t.d. nefnt Kólumbíu þar sem menn hafa nýlega fyrir tilstilli Portúgala farið að rannsaka djúpslóðina og fundið auðug mið. Það eru hins vegar engin stór skip þar sem duga til þess að veiða þetta. Það vill svo til að þar hefur Íslendingur verið í forsvari í sjávarútvegsmálum mjög lengi og hefur einmitt haft frumkvæði að því að benda Íslendingum þarna á ákveðna möguleika. Það er réttmætt hjá hv. þm. að velta því fyrir sér hvort hið opinbera eigi nokkuð að vera að vasast í þessu, ég svaraði því rækilega í framsögu minni fyrir málinu upphaflega og ætla ekki að fara út í það. Mig langar bara að benda á eitt. Talsmenn í sjávarútvegi, sér í lagi Magnús Gunnarsson, hafa einmitt óskað eftir því opinberlega að hið opinbera geri þetta, að ríkið beiti sér og sínum stofnunum og sínum mannafla til þess að kanna þau tækifæri sem fyrirtækin geta síðan nýtt sér. Þingmaðurinn orðaði það svo að ef stórtækar veiðiþjóðir færu að ráðast til inngöngu á mið fátækra og umkomulausra þjóða þá gæti það valdið stórfelldri rányrkju, hann notaði orðið umhverfisslys. Ég held þvert á móti að Íslendingar hafi fram að færa viðhorf og þekkingu sem einmitt mundi stuðla að því að þær þjóðir sem eru skemmra á veg komnar en Íslendingar í nýtingu þessara auðlinda mundu taka miklu varfærnislegar á þeim málum heldur en ef til að mynda einhverjir aðrir en við kæmum þar að verki.
    Ég ætla svo ekki að segja fleira, en þakka þessa ágætu umræðu sem hér hefur orðið.