Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:54:54 (8314)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Á undanförnum missirum hefur áhugi á því að leita verkefna fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki erlendis farið mjög vaxandi og margt hefur verið vel gert þeim efnum. Íslensk fyrirtæki hafa viljað fara hægt í sakirnar og vandað undirbúning að slíku. Stjórnvöld hafa fyrir sitt leyti kappkostað að styðja fyrirtæki í þessari þróun. Það er alkunna að í Chile hefur íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki haslað sér völl með fjárfestingum og þannig skapað grundvöll fyrir þátttöku okkar í sjávarútvegi þar. Sama er upp á teningnum í Þýskalandi. Þar hefur stórt og öflugt íslenskt fyrirtæki keypt hlut í þýsku sjávarútvegsfyrirtæki og um leið öðlast veiðiréttindi sem það hafði.
    Við höfum átt í viðræðum, bæði fyrirtæki og stjórnvöld, varðandi samstarf af þessu tagi víða annars staðar, í Mexíkó, Óman og Namibíu, svo dæmi séu nefnd og á fleiri stöðum eru möguleikar á verkefnum af þessu tagi.
    Við höfum hins vegar ekki farið formlega fram á það við nokkurt ríki að fá veiðiheimildir í þeirra lögsögu. Á sl. vetri kom hingað formaður sjávarútvegsráð Rússlands sem gegnir embætti sem jafngildir sjávarútvegsráðherraembætti Rússlands. Í viðræðum okkar, sem voru mjög ítarlegar um hugsanleg samskipti á þessu sviði, kom alveg skýrt fram að Rússar eru ekki reiðubúnir til þess að veita heimildir fyrir erlend skip í sinni lögsögu nema gegn sams konar réttindum í lögsögu annarra.
    Ég svaraði því fyrir okkar hönd að það kæmi ekki til álita að gera samning á þeim grundvelli, það stæði ekki til að hleypa rússneskum skipum inn í íslenska lögsögu. Allt þetta var rætt mjög ítarlega og báðir aðilar viðurkenndu rétt hins til þess að fylgja fram slíkri stefnu. Ég er þeirrar skoðunar um leið og ég er þess mjög fylgjandi að við, ekki síst í þeirri stöðu sem við búum við í dag, leitum fyrir okkur í erlendu samstarfi og ég hef fyrir mitt leyti viljað stuðla að því, að þá beri að fara gætilega í formlegar viðræður eða formlegar óskir íslenska ríkisins um veiðiheimildir annars staðar ef það kallar á sams konar kröfur útlendinga um veiðiheimildir hér.
    Að því er þessa tillögu varðar þar sem sérstaklega er getið um Rússland þá liggur það fyrir í þessum viðræðum sem þegar hafa átt sér stað að við eigum þar ekki kost á veiðiheimildum nema veita sams konar réttindi innan okkar lögsögu. Rússar eiga stóran togaraflota, reyndar miklu stærri flota en veiðistofnar þeirra gefa tilefni til. Þeir eiga hins vegar ekki nægjanlega öflugan bátaflota og þar gætu verið verkefni fyrir íslensk skip. En í ljósi þessara aðstæðna, sérstaklega af því er varðar Rússland, þá finnst mér að hv. sjútvn. hefði þurft að gera betri grein fyrir afstöðu sinni. Vill hún að þeir möguleikar séu kannaðir í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja að við verðum þá að endurgjalda með veiðiheimildum af okkar hálfu? Er það vilji hv. sjútvn.? Mér finnst að hún þurfi að svara því með skýrari hætti en gert hefur verið áður en Alþingi samþykkir ályktun af þessu tagi og hefði þess vegna talið æskilegt að nefndin tæki þetta til ítarlegri skoðunar og umfjöllunar þó ég sé í sjálfu sér ekki andvígur því, nema síður sé, að við leitum verkefna erlendis fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Ég tel það mikilvægt og menn mega ekki líta á ummæli mín á þann veg að ég sé að draga úr mikilvægi þess en hér verðum við að huga að okkar eigin réttindum og eins og málið liggur fyrir sýnist mér að hv. nefnd hafi ekki rætt það ofan í kjölinn og allar hliðar þess í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja og hefði talið æskilegt að hún fjallaði um þær hliðar áður en Alþingi afgreiddi málið.