Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:09:14 (8317)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vildi óska eftir því að starfandi formaður sjútvn. væri kallaður inn í þingsalinn. Það er ekki við hæfi að ræða þetta að honum fjarstöddum þar sem hann er ekki einasta formaður sjútvn. og frsm. nál. heldur líka 1. flm. þáltill. sem verið er að afgreiða eða ræða öllu heldur. Hann er oft óskaplega hvikur hér í þingsalnum eins og allir vita, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og má illa við bindast eins og sagt var til forna. En hann hlýtur nú að geta þolað við hér eina stund. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að formaðurinn komi til sals.) Já.
    Ég skrifa, hæstv. forseti, undir þetta nál. með fyrirvara. Mér þykir orðið tímabært að gera grein fyrir því hvers eðlis sá fyrirvari er ekki síst eftir ræðu hæstv. sjútvrh. hér áðan. Það má segja að mínar efasemdir og athugasemdir í sjútvn. sem urðu þess valdandi að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara hafi fengið ótvíræða staðfestingu hér áðan í ræðu hæstv. sjútvrh. Ég hafði ekki tilfinningu fyrir því að þessi tillaga væri að öllu leyti þannig undirbyggð eða að staðið hefði verið þannig að meðhöndlun hennar að tímabært væri að afgreiða hana. Ég lýsti þeim efasemdum mínum í sjútvn. Ég tel að það hafi verið staðfest hér áðan. Reyndar er það svo, og það má segja um margar fleiri tillögur en þessar, að það vekur alltaf vissar spurningar þegar hv. stjórnarliðar taka til við tillöguflutning af þessu tagi. Tillöguflutning sem gengur út á að fela þeirra eigin ríkisstjórn að gera þetta eða hitt. ( Landbrh.: Þeir treysta henni.) Er það nú tilfellið hæstv. samgrh.? Er það ekki stundum hið gagnstæða kannski að það sé vegna þess að þeim finnist að þeirra eigin ríkisstjórn hafi ekkert gert og þess vegna þurfi að halda henni við efnið með tillöguflutningi? En spurningin sem vaknar auðvitað fyrst og fremst er þessi: Af hverju gera mennirnir þetta ekki? Af hverju gera þeir þetta ekki? Þeir hafa völdin. Framkvæmdarvaldið er í þeirra höndum. Það situr ríkisstjórn í landinu sem starfar á þeirra vegum og þeirra ábyrgð. Ef það er skoðun hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og t.d. þeirra fjögurra flokksbræðra hæstv. sjútvrh. sem skrifa undir nál. frá sjútvn. án fyrirvara að ríkisstjórin eigi að fara í það verkefni að kanna möguleika Íslendinga á veiðiheimildum í fiskveiðilögsögum annarra ríkja, af hverju gera mennirnir þetta ekki? Af hverju fara þeir ekki til sinna flokksbræðra og ráðherranna í ríkisstjórn og segja: Við erum mætir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og við viljum að þetta verði gert. Það eru hægust heimatökin. En það er nú ekki og það vekur auðvitað spurningar. Kemur góður þá getið er, hv. starfandi formaður sjútvn. og formaður þingflokks Alþfl., framsögumaður nefndarálitsins og flutningsmaður tillögunnar í einum og sama manninum.
    Ég held, hæstv. forseti, að hér áðan hafi komið fram ástæður sem geri það að verkum að rétt sé að afgreiða ekki þessa tillögu. Ég gæti út af fyrir sig rökstutt það frekar en tel að komið hafi fram alveg fullnægjandi röksemdir fyrir því, sérstaklega í ræðu hæstv. sjútvrh. hér áðan, sem falli mjög saman við þær efasemdir sem ég hafði um þessa tillögu og eru þess valdandi að ég undirrita nál. með fyrirvara. Það kemur auðvitað á daginn að flm. og formaður sjútvn. er meira og minna tekinn í bólinu hvað varðar beinlínis efnisöflun og gagnasöfnun í tengslum við þennan tillöguflutning. Hér er einn aðalútgangspunktur tillögunnar að leita eigi eftir veiðiheimildum Íslendinga í Barentshafinu. En hvað kemur á daginn? Það kemur á daginn að sjútvrh. Íslendinga er búinn að slá þann möguleika af að opinberir aðilar fari í einhverjar viðræður um slíkt vegna þess að sú gagnkrafa Sovétmanna eða Rússa öllu heldur liggur fyrir að þeir fái jafngildar veiðiheimildir í íslenskri lögsögu og það er ekki á dagskrá. Auðvitað er hv. þm. Össur Skarphéðinsson tekinn í bólinu að hann skuli ekki vita þetta, verandi uppi með þennan tillöguflutning. Þannig er nú það. Auk þess er það svo að ég er ekki viss um að það eigi að vera forgangsverkefni, a.m.k. númer eitt hjá okkur í sambandi við aukna veiðimöguleika fyrir okkar flota, að leita inn í lögsögu annarra ríkja. Ég er ekki viss um það. Ég tel að það ætti að vera forgangsverkefni að leita eftir auknum veiðimöguleikum í nágrenni við íslensku lögsöguna og á úthafinu. Ég held að það sé langbrýnast núna að Íslendingar beiti sínum öflugustu skipum á næstu árum til veiða á vannýttum stofnum í nágrenni við lögsöguna og á úthafinu, líka til að öðlast aflareynslu í þeim veiðum. Það er engin vafi á því að á næstu árum verður uppi umræða um að taka upp veiðistjórnun á fjölmörgum stofnum utan lögsögu ríkja. Þá mun skipta máli að við Íslendingar höfum öðlast þar aflareynslu. Kaup eða skipti á veiðiheimildum í fjarlægum lögsögum munu að sjálfsögðu ekki færa okkur neina aflareynslu til frambúðar. Ætli það sé ekki þannig að reynsla annarra þjóða sem hafa á undanförnum árum verið að harka á þessum markaði sé æði tvíbent. Hvernig var reynsla Færeyinga t.d. sem fóru niður til Nýja-Sjálands og keyptu þar eða komust þar inn í kvótaútboð? Þeir voru miklir menn og sendu sín öflugustu skip þangað niðureftir, Pólarborgirnar. Talað var um það uppi á Íslandi að við værum nú meiri aumingjarnir að fara ekki að dæmi Færeyinga og fara niður til Nýja-Sjálands og fiska. Þar er í gangi merkilegt kvótakerfi eins og kunnugt er og örfáir aðilar fá allan kvótann og bjóða hann svo út. Það er hæstbjóðandi sem kemur einhvers staðar siglandi að og fær að veiða. ( Gripið fram í: Lægstbjóðandi.) Og hvað skeði svo? Jú, Færeyingar fengu að vísu að veiða þarna um nokkurra mánaða skeið, kannski var það eitt ár eða rúmlega það. í næsta útboði misstu þeir af bitanum og einhver annar kom. Skipin þeirra lágu bundin niður á Nýja-Sjálandi um nokkurra mánaða skeið, komu svo siglandi heim með skottið á milli fótanna ef svo má að orði komast og fóru á hausinn. Þannig var nú reynslan af því ævintýri.
    Ætli það sé ekki þannig að það sé að mörgu að hyggja í þessu efni. Hv. flm., formaður þingflokks Alþfl. og starfandi formaður sjútvn., er oft fljótur að henda fram svona þáltill. Ef hann fær einhverja hugmynd einhvers staðar þá er oft komin svona fín þáltill. daginn eftir og það er út af fyrir sig ágætt að menn séu vakandi og viljugir í því efni. En stundum þarf að vanda sig og láta ekki taka sig í bólinu, standa ekki ber að því að menn hafi beinlínis verið hroðvirkir varðandi gagnasöfnun og öflun upplýsinga í tengslum við tillöguflutning af þessu tagi. Sérstaklega er það svolítið pínlegt fyrir hv. stjórnarliða sem hafa beinan aðgang að öllum upplýsingum úr kerfinu. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að taka það til mikillar yfirvegunar að vanda betur sinn tillöguflutning í þessum efnum í framhaldinu og láta það ekki henda sig oftar að fá ofanígjöf af því tagi sem ræða hæstv. sjútvrh. var auðvitað hér áðan.
    Ég leyfi mér að enda mál mitt með því, hæstv. forseti, að taka orð hæstv. sjútvrh. svo að hann óski ekki eftir því að þessi tillaga verði afgreidd. Kjósi það frekar að hún verði látin liggja. Mér sýnist að það sé enginn héraðsbrestur.