Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:12:54 (8359)

     Frsm. félmn. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég kynni hér nál. félmn. á þskj. 1122 um frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986. Nál. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn frá félagsmálaráðuneytinu Berglindi Ásgeirsdóttur ráðuneytisstjóra og Húnboga Þorsteinsson skrifstofustjóra og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga Vilhjálm Vilhjálmsson formann og Þórð Skúlason framkvæmdastjóra. Þá bárust henni umsagnir frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Eyþingi og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að ekki verði bundið í lögum að umdæmanefndir skv. 1. tölul. 1. gr. verði kosnar af stjórnum landshlutasamtaka. Lagt er til að framkvæmd kosninganna verði í höndum landshlutasamtakanna sjálfra án þess að tekin sé afstaða til hvort þau fela hana stjórn sinni. Þá felst í breytingartillögunni að frestur fram til þessara kosninga verður lengdur um fimmtán daga.``
    Undir nál. skrifa allir nefndarmenn í félmn. en Kristinn H. Gunnarsson með fyrirvara.

    Frá því að frv. var afgreitt til 2. umr. hefur nefndin komið saman á ný til að fjalla um málið og fengið á fund sinn Hallgrím Snorrason hagstofustjóra og Skúla Guðmundsson, skrifstofustjóra hjá Hagstofunni. Eftir að málið var afgreitt úr félmn. komu fram ábendingar frá Hagstofu Íslands um að við samningu frv. hefði láðst að kveða með skýrum hætti á um kjörskrárgerð vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga, svo og við hvaða tíma kjörskrá skuli miðuð. Ekki verður stuðst við ákvæði sveitarstjórnarlaga þar sem þau miða við almennar kosningar í maímánuði fjórða hvert ár og tímamörk sem miðast við lok framboðsfrests. Slíku er ekki til að dreifa í þessu sambandi. Lagaákvæði um sveitarstjórnarkosningar fela ekki heldur í sér nokkra þá vinnureglu sem heimfæra má upp á sérstakar atkvæðagreiðslur eins og þær sem hér er gert ráð fyrir.
    Í lögum um sveitarstjórnarkosningar segir að lög um kosningar til Alþingis skuli gilda eftir því sem við á og með þeim frávikum sem sveitarstjórnarlög ákveða. Í samræmi við þetta gerir félmn. tvær tillögur um breytingar á 1. gr. frv. á þskj. 1244. Brtt. nefndarinnar gera ráð fyrir að kjörskrá verði miðuð við 1. sept. 1993 þegar kosið verður um fyrri tillögu og 1. jan. 1994 verði kosið um síðari tillögu. Þessi tímamörk miðast við að unnt verði að vinna kjörskrá og leggja hana fram nógu tímanlega.
    Þá er lagt til að kosningarréttur miðist við skráða íbúa samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár. Hér er fylgt gildandi ákvæðum laga um kosningar til Alþingis. Þau eru mun skýrari og einfaldari en ákvæði sveitarstjórnarlaga í þessu efni og einkum krefjast þau mun minni vinnu fyrir sveitarstjórnir við kjörskrárgerð heldur en ákvæði sveitarstjórnarlaga og hafa sveitarstjórnir góða reynslu af þessu frá síðustu alþingiskosningum.